Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 29. nóvember 2010, kl. 15:46:52 (0)


139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir er til viðbótar fyrri breytingartillögum sem komu fram í frumvarpinu sem lagt var fram af ríkisstjórninni. Hér er sömuleiðis um að ræða töluvert mikil frávik frá upphaflegri áætlun fjárlaga og þrátt fyrir allt tal um bætta áætlanagerð held ég að draga megi þá ályktun af þeirri niðurstöðu sem hér birtist að slembilukka ráði meiru en vönduð vinna við áætlanagerð fyrir ríkisbókhaldið.

Bótaliðir í almannatryggingum eru hér færðir til og frá eins og kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan. Þegar leitað er eftir skýringum á þeim tilfærslum sem þar er verið að gera fást engin svör þannig að það má draga þá ályktun að Alþingi hafi ekki haft hugmynd um hvað það var að gera við ákvörðun fjárveitingar í fjárlögum ársins 2010 til þessara mikilvægu málaflokka. Það er mjög miður (Forseti hringir.) að vinnubrögðin séu með þeim hætti.