Sjúkratryggingar

Laugardaginn 18. desember 2010, kl. 14:23:43 (0)


139. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[14:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt þegar menn ná saman um einhverja hluti að í kjölfarið komi stjórnarliðar, ekki einu sinni heldur tvisvar, með hótanir um að ekkert verði gert með viðkomandi samkomulag. Enn og aftur koma hv. þingmenn stjórnarliðsins og fara rangt með. Sjúkratryggingar Íslands voru tilbúnar til að taka þetta verkefni 1. janúar á næsta ári. Af hverju í ósköpunum koma hv. þingmenn hvað eftir annað og halda öðru fram? Til hvers er sá leikur gerður?

Virðulegi forseti. Ég vonast til að þetta hafi ekki neinar neikvæðar afleiðingar. Við stóðum að þessu samkomulagi í góðri trú um að staðið væri við lögin. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra muni gera það en ekki hlusta á hótanir í hv. þingmönnum Vinstri grænna.