Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1169  —  658. mál.
Tillaga til þingsályktunarum endurskoðun á núverandi kirkjuskipan.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Margrét Tryggvadóttir,


Björn Valur Gíslason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Skúli Helgason, Þór Saari.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa nefnd til að endurskoða núverandi kirkjuskipan landsins. Nefndin verði skipuð fulltrúum innanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis auk fulltrúa þingflokka, þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Verkefni nefndarinnar verði að meta kosti og galla mismunandi kirkjuskipanar, endurskoða núverandi samband ríkis og kirkju og meta hvort og hvaða breytingar rétt sé að gera á því. Nefndin skili ráðherra tillögum sínum fyrir árslok 2011.

Greinargerð.


    Um langt árabil hefur umræða um kirkjuskipan landsins, samband ríkis og kirkju, verið fyrirferðarmikil í íslenskri þjóðfélagsumræðu, þó mismikil frá einum tíma til annars. Snýr hún eðli málsins samkvæmt að fjölmörgum þáttum, svo sem réttindum einstaklinga, stöðu þjóðkirkjunnar sem slíkrar og sjálfstæði hennar, jafnræði trúfélaga og stöðu lífsskoðunarfélaga en auk þess að menningu og sögu þjóðarinnar og þætti trúarinnar í því efni. Þá hefur jöfnum höndum blossað upp umræða um hlutverk kirkjunnar í skólastarfi.
    Núverandi kirkjuskipan á Íslandi byggist á VI. kafla stjórnarskrárinnar, en í 62. gr. segir: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“ Um leið er trúfrelsi tryggt í 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Samkvæmt því er öll mismunun er byggist á ólíkum trúarbrögðum eða lífsskoðunum óheimil. Þjóðkirkjan nýtur á hinn bóginn vissrar sérstöðu bæði í lagalegum skilningi samkvæmt stjórnarskrá og eins þegar horft er til hefðar og sögulegrar sambúðar kirkjunnar og þjóðarinnar. Segja má að ekki sé að fullu skýrt hvað nákvæmlega felst í ákvæðum stjórnarskrárinnar um að ríkisvaldið skuli „styðja“ og „vernda“ þjóðkirkjuna, ekki síst ef það ákvæði er skoðað í samhengi við trúfrelsisákvæði hinnar sömu stjórnarskrár. Trúfrelsi er vafalítið meðal allra mikilvægustu borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda í sérhverju lýðræðisríkis. Lögvernduð sérstaða eins trúarsafnaðar umfram aðra getur hæglega raskað eðlilegu jafnvægi í skoðanamyndun fólks, ekki síst hin efnahagslega og fjárhagslega sérstaða sem þjóðkirkjunni er búin umfram önnur trúfélög.
    Því verður ekki á móti mælt að samband ríkis og kirkju hefur tekið ýmsum breytingum í áranna rás og eru margir þeirrar skoðunar að ekki verði gengið lengra í aðgreiningu þeirra en þegar er orðið. Aðrir telja einmitt að mikilvægt sé að skilja að fullu milli ríkis og þjóðkirkju, öðruvísi verði trúfrelsi stjórnarskrárinnar ekki uppfyllt. Meðal guðfræðinga og presta eru einnig skiptar skoðanir um þessi efni og eru nokkrar greinar frá ólíku sjónarhorni birtar sem fylgiskjöl með þessari tillögu. Vafalaust er að samband ríkis og kirkju verður einnig tekið til umfjöllunar á stjórnlagaþingi sem kosið var til í nóvember sl. og tekur til starfa í febrúar nk. Hitt er jafnframt ljóst að kenningar kristninnar hafa haft og munu hafa mikil áhrif á menningu, siðferði og sögu þjóðarinnar burtséð frá því hvernig hinum formlegu tengslum er fyrir komið.
    Í umræðu um samband ríkis og kirkju er því oft haldið fram að ástæðulaust sé að huga að aðskilnaði þar sem „Íslendingar séu jú allir kristnir og í þjóðkirkjunni“. Í þessu sambandi er athyglisvert að skoða þróun skráningar í trúfélög í þjóðskrá undanfarna áratugi. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur skipting landsmanna í trúfélög breyst þannig á undanförnum áratugum:

19501 19601 19732 19802 19902 20002 20103
Mannfjöldi 143.973 175.680 213.070 228.785 255.855 279.049 317.630
Þjóðkirkjan 130.487 160.882 197.436 213.147 236.959 247.420 251.487
90,63% 91,58% 92,66% 93,16% 92,61% 88,67% 79,18%
Fríkirkjur 9.790 10.750 10.158 8.700 8.212 10.656 16.497
6,80% 6,12% 4,77% 3,80% 3,21% 3,82% 5,19%
Önnur trúfélög 1.454 2.128 3.188 4.211 7.311 14.977 39.310
1,01% 1,21% 1,50% 1,84% 2,86% 5,37% 12,38%
Utan trúfélaga 2.242 1.920 2.288 2.727 3.373 5.996 10.336
1,56% 1,09% 1,07% 1,19% 1,32% 2,15% 3,25%
1 Manntal 1. desember. 2 Þjóðskrá 1. desember. 3 1. janúar 2010.     

    Eins og hér kemur fram var hlutdeild landsmanna innan þjóðkirkjunnar nokkuð stöðug um liðlega 90% frá árinu 1950 og allt fram til síðustu aldamóta en fór þá lækkandi og er nú rúmlega 79%. Á sama hátt hefur hlutfall landsmanna sem eru skráðir í fríkirkjur og önnur trúfélög hækkað úr um 8% í tæp 18% á sama tíma og landsmönnum utan trúfélaga hefur einnig fjölgað úr um 1,5% í um 3,3%.
    Á undanförnum árum hafa málefni þjóðkirkjunnar komið til umfjöllunar á vettvangi Alþingis. Þannig fluttu Ásta R. Jóhannesdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir þingsályktunartillögu á 120. löggjafarþingi um aðskilnað ríkis og kirkju og á 126. löggjafarþingi og á nokkrum síðari þingum fluttu Guðjón A. Kristjánsson, Árni Steinar Jóhannsson og Sverrir Hermannsson frumvarp til laga um breytingu á kirkjuskipan ríkisins. Það þingmál var endurflutt nokkrum sinnum með breytingum, m.a. með öðrum flutningsmönnum og breyttum gildistíma. Þessi þingmál eru birt sem fylgiskjöl með þingsályktunartillögu þessari.
    Megintilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að vekja umræðu um samband ríkis og kirkju í samfélaginu almennt, taka núverandi kirkjuskipan til gagngerrar umræðu og endurskoðunar með aðskilnað ríkis og kirkju að leiðarljósi. Nauðsynlegt er að allir hagsmunaaðilar eigi aðkomu á þeirri vinnu sem tillagan gerir ráð fyrir að fram fari.Fylgiskjal I.


Tillaga til þingsályktunar um aðskilnað ríkis og kirkju.
(Þskj. 808, 472. mál 120. löggjafarþings 1995–96.)


Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir.    Alþingi ályktar að fela kirkjumálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að endurskoða núverandi kirkjuskipan landsins. Verkefni nefndarinnar verði að endurskoða samband ríkis og kirkju og kanna kosti þess og galla að auka sjálfstæði og ábyrgð kirkjunnar þannig að hún verði skilin frá ríkisrekstrinum. Skýrsla nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi 1997.

Greinargerð.


    Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju hefur verið mikil í nágrannalöndum okkar og einnig aukist til muna á Íslandi hin síðari ár. Umræðan hefur jöfnum höndum beinst að réttindum einstaklinga og safnaða utan þjóðkirkjunnar og að stöðu þjóðkirkjunnar sjálfrar. Hugmyndinni um endurskoðun tengsla ríkis og kirkju hefur vaxið fiskur um hrygg meðal kennimanna kirkjunnar sjálfrar. Flestir eru sammála um mikilvægi þess að viðhalda menningarlegum og siðferðilegum áhrifum kristinnar kenningar á íslenskt þjóðfélag og að sjálfstæði kirkjunnar verði sem mest. Menn greinir hins vegar á um hvort og með hvaða hætti tengslum ríkis og kirkju verði viðhaldið.
    Í sögulegu sambandi má rekja tengsl ríkis og kirkju á Íslandi allt til þess tíma að kristni var lögtekin á Alþingi við Öxará árið eitt þúsund þegar Þorgeir Ljósvetningagoði úrskurðaði að „allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka“ og að allir landsmenn „hafi ein lög og einn sið“. Við siðbót varð konungsvaldið hluti af kirkjustjórninni en prestar kirkjunnar og biskupar héldu þó töluverðu sjálfstæði í málefnum kirkjunnar. Ríkisfyrirkomulagið, þar sem ríki og kirkja eru eitt og kirkjan hefur ekkert sjálfstæði en þarf að bera jafnt fjármál og skipulagsmál sem andleg málefni undir veraldlegt vald, komst á í byrjun 18. aldar og hélst allt fram á seinni hluta 19. aldarinnar. Tengsl ríkis og kirkju í þeirri mynd sem við nú búum við voru formlega staðfest í stjórnarskránni árið 1874. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá árinu 1944 er mælt fyrir um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda.
    Núverandi kirkjuskipan byggir á VI. kafla stjórnarskrárinnar, en í 62. gr. segir: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“
    Ekki hefur verið skilgreint hvað felst í áskilnaði ákvæðisins um stuðning og vernd ríkisvaldsins. Stuðningur ríkisvaldsins hefur hins vegar birst í því að hin evangelísk-lúterska kirkja nýtur lögverndar, svo og í ákveðnum efnahagslegum réttindum umfram önnur trúfélög. Trúfrelsi telst vera meðal allra mikilvægustu borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda hvers lýðræðisríkis. Lögvernduð sérstaða eins trúarsafnaðar umfram aðra raska eðlilegu jafnvægi í skoðanamyndun fólks, sérstaklega efnahagslegi þátturinn. Efnahagsleg forréttindi eins trúarsafnaðar samræmist ekki nútímaskilningi á trúfrelsi. Spyrja má hvort slíkt fyrirkomulag sé brot á hinum mikilvægu mannréttindum sem felast í réttinum til trúfrelsis. Kanna þarf hvort ekki er rétt að afnema 62. gr. stjórnarskrárinnar og skipa ákvæðum 63. og 64. gr. meðal annarra almennra mannréttinda.
    Ljóst er að samfélagið hefur breyst mikið frá því að núverandi fyrirkomulag kirkjunnar var formlega staðfest og hlutverk kirkjunnar er allt annað í dag en það var árið 1874. Þá gegndi hún veraldlegu þjónustuhlutverki sem aðrar stofnanir hafa tekið við, svo sem heilsugæslustofnanir, menntastofnanir, Hagstofa Íslands o.fl. Félagsráðgjafar, sálfræðingar, læknar og lögfræðingar vinna því störf sem áður voru að miklu leyti unnin af kirkjunnar mönnum. Með gjörólíku samfélagsformi má búast við að skoðanir manna fari ekki eins saman og áður þegar þjóðfélagið var einhæfara. Með sífellt fjölbreyttara þjóðfélagi og auknum samskiptum við aðrar þjóðir má gera ráð fyrir að lífsskoðanir og skoðanir á trúarbrögðum almennt séu margþættari. Því er ekki óeðlilegt að yfirburðastaða og lögvernduð forréttindi kirkjunnar brjóti í bága við réttarvitund almennings og búast má við að þessi skilningur á stöðu kirkjunnar aukist í framtíðinni. Þá hefur einhæf og þröngsýn siðfræði- og trúarbragðakennsla í grunnskólum landsins vakið óánægju meðal margra.
    Umræðan um breytt hlutverk kirkjunnar í sífellt flóknara þjóðfélagi hefur verið lifandi innan kirkjunnar sjálfrar. Hugmyndin um aukið sjálfstæði kirkjunnar hefur átt sér marga fylgismenn sem telja að það leiði til öflugri og skilvirkari kirkju. Taka má undir þessar hugmyndir. Eðlilegt er að kannaðir verði kostir þess og gallar að kirkjan verði sjálfstæð, ráði sjálf sinni sóknarskipan, prestakallaskipan og skipan prófastsdæma og hvort afnema beri þau sérréttindi sem kirkjan býr nú við og hún verði fjárhagslega óháð ríkisvaldinu. Kirkjunnar menn hafa sjálfir kallað eftir auknu sjálfstæði og ábyrgð kirkjunnar. Ekki er óeðlilegt að auknu sjálfsforræði kirkjunnar fylgi einnig fjárhagslegt sjálfstæði og full ábyrgð á fjárhagslegum málefnum kirkjunnar, þannig að hún verði skilin frá ríkisrekstrinum. Gera má ráð fyrir að sjálfstæð og fjárhagslega óháð kirkja leiði til aukinnar virðingar og sterkari stöðu meðal almennings. Undanfarin missiri hefur borið á því að kirkjan hafi verið að missa tiltrú almennings. Hún hefur sætt gagnrýni sem beinist að athöfnum einstakra presta og einstökum málefnum eins og hvar ákvarðanir skulir teknar, óljósu stjórnskipulagi o.s.frv. Gagnrýnin, sem er ein birtingarmynd þessa trúnaðarbrests milli fólksins og kirkjunnar, kallar á nauðsyn þess að endurskoðuð verði tengsl ríkis og kirkju. Hin hliðin og sú sem snýr beint að kirkjunni er að líta á gagnrýnina sem skilaboð frá umhverfinu um að kirkjan þurfi að endurskoða sín innri málefni svo að hún megi ávinna sér traust og trúverðugleika.
    Flutningsmenn leggja til að nefndinni verði falið að gera úttekt á greiðslum hins opinbera til kirkjunnar með hliðsjón af samkomulagi milli kirkjunnar og ríkisvaldsins frá 1907 og athuga skattfríðindi og önnur hlunnindi þjóna kirkjunnar, svo og önnur fjárhagsleg atriði. Þá verði núverandi fyrirkomulag á innheimtu sóknargjalda endurskoðað og athugaðar þær leiðir sem til greina koma varðandi framtíðarskipan innheimtumála. Í því sambandi verði sérstaklega hugað að fjárheimtu ríkisins á hendur þeim mönnum sem standa utan safnaða. Við skipun í nefndina er eðlilegt að fyrir utan fulltrúa ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar verði leitað til þeirra samtaka sem látið hafa sig málið varða, t.d. SARK, samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju, og Siðmenntar, áhugahóps um mannrækt og trúfrelsi.


Fylgiskjal II.


Frumvarp til laga um breytingu á kirkjuskipan ríkisins.


(Þskj. 1025, 647. mál 126. löggjafarþings 2000–2001.)Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Árni Steinar Jóhannsson, Sverrir Hermannsson.1. gr.

    Allar kirkjudeildir og trúarsöfnuðir skulu njóta jafnréttis að lögum.

2. gr.

    Fullum aðskilnaði ríkis og hinnar evangelisku lútersku kirkju skal náð innan fimm ára frá gildistöku laga þessara. Með fullum aðskilnaði er átt við lagalegan, stjórnunarlegan og fjárhagslegan aðskilnað.

3. gr.

    Dóms- og kirkjumálaráðherra skal skipa nefnd fimm manna til að undirbúa nauðsynleg lagafrumvörp og sjá um annan undirbúning fyrir aðskilnað ríkis og kirkju skv. 2. gr.
    Nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Formaður og varaformaður nefndarinnar skulu hafa lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

4. gr.

    Eftir að lög þessi hafa verið lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar skal leggja málið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar í samræmi við 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram samhliða næstu almennu sveitarstjórnarkosningum vorið 2002. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið annast undirbúning atkvæðagreiðslunnar. Hún skal vera leynileg og ræður meiri hluti greiddra atkvæða úrslitum. Um nánari framkvæmd kosninganna fer eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.

5. gr.

    Ákvæði 1.–3. gr. öðlast gildi að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, enda hafi meiri hluti þeirra er greiddu atkvæði veitt þeim samþykki sitt.
    Ákvæði 4. gr. öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Efnislega felur þetta frumvarp í sér að öllum trúfélögum skuli gert jafnhátt undir höfði og í samræmi við það skuli stefnt að aðskilnaði ríkis og hinnar evangelisku lútersku kirkju.
    Kirkjuskipan sú sem við búum við er bundin í stjórnarskrá, nánar tiltekið í 62. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir í 1. mgr.:
    „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styrkja hana og vernda.“
    Í 2. mgr. 62. gr. stjórnarskrárinnar er síðan tekið fram að þessu megi breyta með lögum, og þýðir það að sú kirkjuskipan sem mælt er fyrir um í greininni nýtur ekki verndar 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Í 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um hina hefðbundnu meðferð sem frumvörp til breytinga á stjórnarskránni verða að hljóta áður en þau geta talist gild stjórnskipunarlög. Einungis þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem varin eru af 1. mgr. 79. gr. teljast til grundvallarlaga í íslenskum rétti. Ákvæði 1. mgr. 62. gr. stjórnarskrárinnar er ekki í þeim flokki þar sem breyta má þeirri kirkjuskipan sem þar er kveðið á um með almennum lögum frá Alþingi. Þótt ákvæði 1. mgr. 62. gr. teljist ekki til grundvallarlaga nýtur það þó sérstakrar verndar sem kveðið er á um í 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir:
    „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins skv. 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“
    Frumvarp það sem hér liggur fyrir miðar að því að breyta kirkjuskipan ríkisins samkvæmt 62. gr. stjórnarskrárinnar og því ber að leggja málið, hljóti það samþykki á Alþingi, undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu skv. 2. mgr. 79. gr. og ræður niðurstaða þeirra kosninga úrslitum um það hvort lögin öðlast gildi eða ekki.
    Þótt kirkjuskipan sú sem kveðið er á um í 62. gr. stjórnarskrárinnar teljist ekki til grundvallarlaga eins og flest önnur ákvæði stjórnarskrárinnar má segja að sú vernd sem ákvæðinu er veitt í 2. mgr. 79. gr. sé ekki minni en felst í 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar þótt annars eðlis sé. Þjóðaratkvæðagreiðsla um löggjafarmál er einungis stjórnarskrárbundin í tveimur tilvikum, annars vegar skv. 2. mgr. 79. gr. sem hér hefur verið rædd og hins vegar þegar forseti hefur synjað staðfestingar á lögum skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Því er ljóst að stjórnarskráin veitir ríkjandi kirkjuskipan mikla og sérstaka vernd sem tryggir að henni verður ekki breytt án mikillar og almennrar umræðu í þjóðfélaginu.
    Í 1. gr. frumvarpsins segir að allar kirkjudeildir og trúarsöfnuðir skulu njóta jafnréttis að lögum. Þetta er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
    „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
    Núverandi ástand er í andstöðu við þau meginsjónarmið sem þetta ákvæði stjórnarskrárinnar byggist á. Ef 63. gr. stjórnarskrárinnar um trúfrelsi er skoðuð með hliðsjón af 65. gr. er eðlilegast að draga þá ályktun að hvers kyns forréttindi eins trúfélags umfram önnur gangi gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og jafnræðisregla eru byggð á. Ákvæði 1. gr. frumvarpsins felur í sér að óheimilt er að mæla fyrir um það í lögum að eitt trúfélag skuli njóta einhverra sérréttinda umfram önnur og kemur þannig til móts við þá kröfu að menn skuli hafa jafnan rétt og jafna möguleika á að iðka trú sína.
    Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um aðskilnað ríkisins og hinnar evangelisku lútersku kirkju og skal honum náð innan fimm ára frá gildistöku laganna. Kveðið er á um fullan aðskilnað og með því átt við lagalegan, stjórnunarlegan og fjárhagslegan aðskilnað. Ákvæði 2. gr. er í samræmi við 1. gr. frumvarpsins og í raun rökrétt afleiðing þeirrar greinar þar sem jafnrétti verður ekki talið ríkja meðal trúarsafnaða og kirkjudeilda fyrr en þessi aðskilnaður hefur farið fram.
    Aðskilnaður ríkis og kirkju er flókið verk og margt sem þarf að huga að og því er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að aðskilnaðurinn sé að fullu yfirstaðinn fyrr en að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2002.
    Hér verður ekki fjallað að öðru leyti um það samkomulag sem ríkisvaldið og kirkjan hafa gert með sér hvað varðar eignaskiptingu o.fl., enda varðar það ekki grundvallaratriði þessa frumvarps, heldur er það framkvæmdaratriði sem leysa verður þegar grundvallaratriðið um aðskilnað ríkis og kirkju hefur verið fest í lög.
    Fleiri rök eru fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Íslenskir söfnuðir, sem standa utan þjóðkirkjunnar, eru margir og þeim hefur fjölgað ört á undanförnum árum.
    Hér á landi hafa lengi starfað fríkirkjusöfnuðir, sumir hverjir evangelisk-lúterskir eins og þjóðkirkjan, en hafa þó ekki notið aðstoðar ríkisvaldsins með sama hætti og þjóðkirkjan.
    Sífellt fleira fólk flyst hingað til lands frá öðrum þjóðlöndum, fólk sem iðkar ólík trúarbrögð. Því fólki og þeim trúarbrögðum ber okkur skv. 65. gr. stjórnarskrárinnar að sýna fyllstu virðingu. Mismunun gagnvart þeim er engan veginn sæmandi.
    Með núverandi skipan mála má segja að öðrum trúarhópum en þjóðkirkjunni sé sýnt óréttlæti sem ekki samrýmist eiginlegu trúfrelsi.
    Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að 60–65% þjóðarinnar styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Skoðanakannanir Gallups á Íslandi um aðskilnað ríkis og kirkju hafa verið gerðar átta sinnum á síðastliðnum átta árum. Alltaf hefur verið spurt sömu spurninganna. Úrtakið hefur verið um 1200 manns í hvert sinn. Samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar, sem Gallup gerði í september sl., voru tæplega tveir af hverjum þremur fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju en rúmur þriðjungur andvígur. Á sama tíma eru nær níu af hverjum tíu landsmönnum skráðir í þjóðkirkjuna og bendir það til þess að þeir vilji þrátt fyrir það hverfa frá núverandi skipan mála.
    Tengsl þjóðkirkjunnar við fólkið í landinu hafa slævst. Til marks um það var kristnihátíð á Þingvöllum síðastliðið sumar sem almenningur sýndi mikið tómlæti.
    Flytjendum þessa frumvarps er öldungis ljóst mikilvægi hins menningarlega og félagslega
hlutverks kirkjunnar í samfélaginu. Því felur frumvarpið ekki á neinn hátt í sér óvild í garð kirkjunnar. Með því er einungis ætlunin að tryggja jafnrétti allra þegnanna á þessu sviði sem öðrum í samfélaginu.
    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins skal ráðherra skipa sérstaka nefnd sem verði honum til aðstoðar við gerð nauðsynlegra lagafrumvarpa og við annan undirbúning fyrir aðskilnað ríkis og kirkju skv. 2. gr. Til þess að fyllsta hlutleysis verði gætt er lagt til að ráðherra skipi nefndarmenn samkvæmt tilnefningum frá Hæstarétti Íslands. Þá er gert ráð fyrir að a.m.k. tveir nefndarmenn hafi lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands sem er eðlileg krafa ef horft er til þeirra verkefna sem nefndinni er ætlað að inna af hendi.
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um það með hvaða hætti skuli leggja málið undir atkvæði kosningarbærra manna í landinu, sbr. 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Í greininni er síðan kveðið á um að um nánari framkvæmd kosninganna skuli fara eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á sem felur meðal annars í sér að um kosningarrétt manna fer eftir þeim lögum.
    Álitaefni er með hvaða hætti eigi að fara með frumvarpið eftir að það hefur verið samþykkt frá Alþingi. Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 79. gr. virðist nærtækast að skilja ákvæðið svo að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en málið er lagt fyrir forseta Íslands til staðfestingar, enda veitir staðfesting forseta því lagagildi, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar, nema það öðlist gildi síðar samkvæmt ákvæðum sínum. Þetta fyrirkomulag vekur hins vegar spurningar um það hvernig með skuli fara ef forseti, eftir að málið hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, synjar frumvarpinu staðfestingar. Hér vaknar það álitaefni hvort leggja beri frumvarpið undir þjóðaratkvæðagreiðslu að nýju, sbr. 26. gr., eða hvort synjunarréttur forseta sé niður fallinn í þessum tilvikum. Í riti Ólafs Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands, annarri útgáfu 1978, bls. 300, segir svo um þetta efni:
     „Eigi er þess getið í stjórnarskránni hvernig með skuli fara, ef forseti synjaði slíku frumvarpi staðfestingar, sem reyndar er ekki sennilegt, en þó ekki fræðilega útilokað. Samkvæmt 26. gr. stjskr. er að vísu ljóst, að lögin taka þegar gildi, þrátt fyrir synjun forseta, en spurningin er, hvort leggja þurfi málið af nýju undir þjóðaratkvæði vegna synjunar á staðfestingu. Eftir orðanna hljóðan mætti ætla að lögin þyrftu að nýju að ganga til þjóðaratkvæðis, en það væri þó heldur umsvifamikið að láta þannig tvisvar sinnum hvað eftir annað fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um sama frumvarpið. Sennilega yrði því ekki talin þörf á nýrri atkvæðagreiðslu, heldur yrði hin fyrri talin fullnægjandi, og fengju þá lögin fullt gildi til frambúðar, þótt forseti synjaði staðfestingar. Þýðir það í reyndinni, að forseti hefur ekki málskotsrétt gagnvart þeim lögum, sem þegar hafa gengið til þjóðaratkvæðis, og ber því að staðfesta þau. Hin aðferðin, að bera frumvarpið fyrst upp fyrir forseta, verður ekki höfð, því að lögin fá gildi við staðfestingu hans eða synjun samkvæmt 26. gr. stjskr., en það er ekki ætlunin samkv. 2. mgr. 79. gr. stjskr.“
    Síðan segir í sama riti:
    „Reyndar mætti mæla svo fyrir í lögunum, að þau öðluðust ekki gildi fyrr en þau hefðu verið samþykkt af kjósendum við almenna atkvæðagreiðslu. Mætti þá sjálfsagt leita staðfestingar forseta fyrir þjóðaratkvæðið, þótt ekki sé það alveg í samræmi við bókstaf 2. mgr. 79. gr. stjskr.“
    Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er síðastnefnda leiðin farin. Gert er ráð fyrir því að frumvarpið verði lagt fyrir forseta Íslands til staðfestingar með hefðbundnum hætti eftir að það hefur verið samþykkt frá Alþingi. Eftir að lögin hafa verið lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar skal leggja málið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu og er lagt til að kosningarnar fari fram samhliða næstu almennu sveitarstjórnarkosningum vorið 2002. Þessi leið hefur þann kost að ef hún er farin reynir ekki á það álitaefni sem nefnt var hér að framan hvað skuli gera ef forseti synjar staðfestingar eftir að lögin hafa verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því að setja málið fram með þeim hætti sem hér er gert hefur synjun forseta enga réttarlega þýðingu því skyldan til þjóðaratkvæðagreiðslu er þegar fyrir hendi og um leið tryggt að ekki þurfi að fara fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um sama málið. Þá gefur þessi leið möguleika á því að kveða nánar á um þjóðaratkvæðagreiðsluna í sama lagafrumvarpinu og þar sem kveðið er á um hina breyttu kirkjuskipan, svo sem gert er í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. En telja verður nauðsynlegt að kveða nánar á um framkvæmd kosninga í lögum þar sem ekki er kveðið á um einstök framkvæmdaratriði kosninganna í 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í samræmi við framangreint er gildistaka laganna tvískipt. Annars vegar öðlast 4. gr. laganna gildi með hefðbundnum hætti en hins vegar ræður þjóðaratkvæðagreiðslan, sbr. 4. gr., úrslitum um hvort ákvæði 1.–3. gr. öðlast gildi eða ekki eins og gert er ráð fyrir í 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar.Fylgiskjal III.


Siðmennt:


Trúfrelsisstefna.


(Tekið af vef Siðmenntar, sidmennt.is, 17. janúar 2011.)

    Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna… – 64. gr. Stjórnarskrár Íslands
    Congress shall make no law respecting an establishment of religion, or prohibiting the free exercise thereof… – The bill of rights, 1st amendment

    Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi, og þar með frelsi einstaklingsins, ekki tryggt.

1. Jafna þarf lagalega og fjárhagslega réttarstöðu lífsskoðunarfélaga
    Í neðangreindri umfjöllun er talað um lífsskoðunarfélög sem þau félög sem hafa á stefnu sinni ákveðna siðferðislega sannfæringu, taka afstöðu til eðli þekkingar og heimsmyndarinnar, ásamt því að bjóða uppá félagslegar athafnir fjölskyldna. Lífsskoðunarfélög geta innihaldið trúarlega stefnu, þ.e. trúfélög eða ekki, t.d. húmanískt félag eins og Siðmennt.

Lögbundin mismunun
    Í 62. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944 nr. 33 17. júní, stendur: „Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“
    Þessi málsgrein er bersýnilega í mótsögn við 1. málsgrein 65. greinar sömu stjórnarskrár þar sem segir að:
    „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
    Önnur greinin verður augljóslega að víkja.

Fjárhagsleg mismunun
    Til þess að fullnægja jafnréttiskröfum verða yfirvöld annað hvort að hætta að styrkja og styðja öll lífsskoðunarfélög á Íslandi eða sjá til þess að öll lífsskoðunarfélög fái sama stuðning.
    Þetta væri t.d. hægt með því að fella niður allan þann stuðning sem Þjóðkirkjan fær umfram sóknargjöld og hækka svo sóknargjöldin í samræmi við tekjutap Þjóðkirkjunnar. Með þessari aðgerð myndu þá sóknargjöld allra trúfélaga hækka hlutfallslega jafnt og þannig væri jafnrétti betur tryggt.
    Tekið skal fram að þær aukatekjur sem Þjóðkirkjan fær umfram aðra söfnuði, þ.e. fyrir utan sóknargjöld, (um 2 milljarðar á ári) eru réttlættar með yfirtöku ríkisins á kirkjujörðum. Þessi réttlæting dugar þó skammt af nokkrum ástæðum.
    Ljóst er að tekjur af kirkjujörðum á Íslandi stæðu tæplega undir þeim fjárframlögum sem nú eiga að renna sem gjald til kirkjunnar vegna yfirtöku kirkjujarða. Þetta hefur þó hvergi verið reiknað til fullnustu og við vitum því ekki hvaða tölur lágu til grundvallar „skaðabótum“ ríkisins vegna yfirtöku kirkjujarða sem samið var um sem prestlaun 1997. Ljóst er því að sá samningur sem ríkið gerði við Þjóðkirkjuna um yfirtöku kirkjujarða á sér vægast sagt veikar forsendur.
    Samkvæmt brauðamatinu 1854 skiptust tekjur presta fyrir landið allt þannig: Tekjur af prestsetrum 18%. Aðrar eignatekjur kirkjunnar (Kirkjujarðir, hlunnindi, útkirkjur) 34%. Ýmis sóknargjöld (tíund, dagsverk, aukaverk , offrur o.fl.) 36%. Greiðslur fyrir prestverk 12%. (Heimild: Grein eftir Gísla Gunnarsson í ritinu Íslenska Söguþingið 30. maí–1. júní 2002, Ráðstefnurit II, „Fjárhagslegar forsendur kirkjustarfs frá 16. öld til 1874“, töflur 11 og 12, bls. 173, 175).
    Ljóst er því að þær kirkjueignir sem verið var ,,að bæta kirkjunni“ með 2 milljörðum í árlegum greiðslum samkvæmt samkomulaginu 1997 veittu kirkjunni aðeins 34% af tekjum hennar áður fyrr, raunar er hæpið að telja hér útkirkjur með. Þar sem þar var mest um að ræða tekjur af svonefndum einkakirkjum sem voru í eign einstaklinga. Mundi það minnka kirkjueignirnar sem ríkið yfirtók í 26% af heildartekjum presta 1854, 23% af kirkjujörðum og 3% af ýmsum ,,hlunnindum“. Athyglisvert er hve lítill munur var á tekjum af prestsetrum annars vegar og kirkjujörðum hins vegar (18% og 23%), einkum þegar haft er í huga hve þunglega kirkjuþing tekur nú í tilboð ríkisins um að þjóðkirkjan yfirtaki nú prestsetrin með 150 milljón króna meðgjöf! Hvað segði kirkjuþing ef kirkjunni væri boðið að yfirtaka allar sínar kirkjujarðir, eða andvirði þeirra sem seldar hafa verið með eingreiðslu, og sleppti í staðinn tveggja milljarða árlega framlaginu frá ríkinu?
    Einnig ber hér að hafa í huga að á fyrri tímum gegndi kirkjan ýmsum hlutverkum sem nú eru í höndum annarra aðila, t.d. í mennta- og félagsmálum. Eiga þá mennta- og félagsstofnanir þessa lands ekki að fá líka hlut í þessum margumræddu kirkjueignum?

Afnema þarf lög um guðlast
    Í 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“
    Ofangreind lög geta varla samrýmst tjáningarfrelsi því er skilgreint er í Stjórnarskrá Íslands enda er það meðal mikilvægustu réttinda manna að geta tjáð sig óhikað um samfélagið sem þeir búa í.

2. Nánar um fjárhagslega mismunun
    Ríkið (skattgreiðendur allir) greiðir fyrir menntun og undirbúning klerkastéttar eins trúfélags, Þjóðkirkjunnar (sjá: 2. gr. laga nr. 41 1999 um Háskóla Íslands). Til að gæta jafnræðis verður annað hvort á að leggja guðfræðideild HÍ niður eða gera öllum lífsskoðunarfélögum jafnt undir höfði. Það er líklegast verið að bera í bakkafullan lækinn með því að gagnrýna þau milljarða fjárútlát sem fóru í Kristnitökuhátíð. Engu að síður er óréttlátt að allir skattgreiðendur þurfi að greiða fyrir hátíðarhöld þar sem verið er að fagna forréttindum eins trúarhóps. Sama má segja um 60 milljón króna riti um sögu kristni á Íslandi. Því miður má taka fjölmörg önnur dæmi af fjárhagslegri mismunun trúfélaga og óviðeigandi afskipta ríkisvaldsins af lífsskoðunum almennings. Til að mynda hlýtur að teljast óeðlilegt að veraldleg yfirvöld styrki trúboðssamtök á borð við KFUM/K um margar milljónir á ári (7 milljónir árið 2000). Samkvæmt lögum og markmiðum KFUM/K er tilgangur félagsins að stunda trúboð: „Meginmarkmið KFUM og KFUK er að ungt fólk kynnist Jesú Kristi og gangi til þjónustu við hann.“ Hvernig trúboð eins trúarsafnaðar á kostnað alls almennings í landinu samrýmist ákvæðum um trúfrelsi og jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar er erfitt að skilja.

3. Um félagslegt jafnrétti
    Hlutdræg kristinfræðsla og stundum trúboð er stundað í opinberum skólum. Í námskrá grunnskóla frá 1999 stendur m.a. að: Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði. Trúarleg innræting eða ,,siðferðiskennsla“ tengd ákveðnum trúarbrögðum ætti aldrei að eiga sér stað í opinberum skólum eins og dæmin sanna því miður að nú er gert. Hér er gefið í skyn að umburðarlyndi, lýðræði og siðferði séu sérstaklega kristileg fyrirbæri. Það er auðvitað ekki rétt. Erfitt getur verið fyrir þá sem ekki eru kristnir (trúlausir eða annarrar trúar) að hlusta á og sætta sig við slíkan boðskap í ríkisreknum skólum. Í sömu námsskrá kemur fram að nemendur eigi að gera sér „…grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist.“ Á að kenna þetta í skólum? Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir trúlausa og þá sem eru annarar trúar? Samkvæmt námsskrá er tilgangur kristinfræðslunnar: „[efla] trúarlegan… þroska [nemenda]“
    Í námsskrá grunnskólans kemur fram að kenna eigi börnum bænir og sálma auk þess sem því er haldið blákalt fram að ýmsar goðsögur kristinnar trúar, þ.m.t. að meyfæðing og upprisa Jesú, séu sagnfræðilegar staðreyndir. Sagt er að Kristin trú eigi sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem nái hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists. Þennan einhliða boðskap eiga öll börn á grunnskólaaldri að hlýða á nema að foreldrar og forráðamenn óski sérstaklega eftir því að börnum þeirra sé hlíft. Þessu veigra forráðamenn sér eðlilega við að gera því þá lenda börn þeirra jafnvel í því að þurfa að hanga ein fram á gangi meðan kristinfræðslan á sér stað og þurfa að svara spurningum um hvers vegna þau eru svona ólík öðrum. Mörg dæmi eru um að heilu skóladögunum sé eytt í að kenna börnum að semja og fara með kristnar bænir og stundum kemur fyrir að farið er með börn í messur á skólatíma og þá jafnvel án leyfis foreldra.
    Jafnframt kemur fyrir að fermingarfræðslunni svokölluðu sé komið fyrir inni í miðri stundaskrá nemenda þannig að ferming lítur út fyrir að vera hluti af eðlilegu skólastarfi. Til að mynda eru farnar dagsferðir með krakkana á skólatíma fyrir fermingarfræðslu. Þetta er bæði óréttlátt og líklegast brot á grunnskólalögum sem kveða á um fjölda kennsludaga.

Ríkisútvarpið, útvarp kristinna landsmanna?
    Í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið frá árinu 2000 nr. 122 30. júní segir m.a.:
    „Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“
    Eðlilegt er að fjölmiðill í eigu almennings gæti fyllsta hlutleysis. Þetta á ekki síst við þegar fjallað er um trúarbrögð. Því er ekki viðeigandi að á dagskrá ríkisfjölmiðils sé predikun eða annar einhliða trúaráróður. Því er mælst til að allt trúboð verði tekið af dagskrá ríkisfjölmiðla. Sérstaklega eru gerðar athugasemdir við trúarboðskap í ýmsum barnaþáttum á vegum Ríkisútvarpsins. Trúaruppeldi á alfarið að vera á ábyrgð foreldra en ekki ríkisins.
    Fyrrum menntamálaráðherra þjóðarinnar sagði í ræðu árið 1995 að:
    „Hlutur [Ríkisútvarpsins] í þágu kirkjunnar hefur jafnan verið mikill.“
    Þetta er rétt, en er um leið afar óviðeigandi og í andstöðu við lög um Ríkisútvarpið.

Alþingi allra Íslendinga hefst með messu og bænagjörð
    Það er ekki hlutverk alþingismanna að hlusta á predikanir um gildi kristninnar og fara með bænir. Alþingi á að vera veraldleg stofnun en ekki kirkjuleg. Þeim sem ekki tilheyra kristnum trúarbrögðum líður stundum eins og annars flokks þegnum. Er þetta ein ástæðan. Það er nánast gefið í skyn að þingmenn geti ekki verið annarrar trúar eða fylgjendur veraldlegrar sannfæringar.

Almenningi er bannað samkvæmt lögum að vinna á helgidögum kristinna
    Vegna óeðlilegra tengsla ríkis og kirkju eru atvinnulífinu settar skorður af trúarlegum ástæðum. Einu sinni máttu menn ekki vinna á sunnudögum og enn mega menn ekki vinna á hinum ýmsu hátíðisdögum kristninnar. Hvenær fólk vinnur eða tekur sitt frí ætti að vera samningsatriði milli launþega og atvinnuveitenda, ekki launþega og kirkjuyfirvalda.
    Í Bandaríkjunum var hin svokallaða sunnudagslöggjöf, sem bannaði mönnum að vinna á sunnudögum, felld úr gildi vegna þrýstings þeirra sem ekki voru kristnir, einna helst gyðinga. Bókstafstrúaðir gyðingar gátu ekki, trúar sinnar vegna, unnið á laugardögum (sem er helgidagur þeirra) og var bannað af ríkinu að vinna á sunnudögum (helgidegi kristinna). Gyðingar og aðrir þeir sem héldu laugardaginn heilagan voru því neyddir til að taka sér frí í tvo daga í staðinn fyrir einn. Þetta þýddi augljóslega mikið óréttlátt fjárhagslegt tap sem menn gátu ekki sætt sig við til lengdar. Sama gildir um íslensk lög sem banna mönnum að vinna á jólum og páskum. Hvers vegna ætti þeim sem ekki taka helgidaga kristinna alvarlega að vera bannað samkvæmt lögum að vinna fyrir sér og veita þjónustu á þessum dögum? Sérhver maður hlýtur að sjá óréttlætið í slíku fyrirkomulagi.

Börn eru skráð sjálfkrafa í trúfélag móður
    Ríkið á ekki að hafa milligöngu í því að skrá ómálga börn í lífsskoðanafélög frekar en önnur félög. Foreldrar ættu sjálfir að sjá um skrá börn sín í trúfélög ef þeim finnst eðlilegt að börn séu yfirleitt skráð í slík félög. Siðmennt telur að það sé ákvörðun sjálfráða einstaklinga að skrá sig í lífsskoðunarfélag rétt eins og stjórnmálasamtök og því á það að vera hverjum einstaklingi um 16 ára aldur eða eldri í sjálfsvald sett hvar eða hvort viðkomandi skrái sig í lífsskoðunarfélag.
    Ólíklegt er að það tíðkist að ung börn séu skráð í félagasamtök sem þau þurfa síðar að greiða gjöld til nema þau skrái sig sérstaklega úr samtökunum (sem þau sjálf skráðu sig aldrei í). Gæti þetta fyrirkomulag t.d. átt við um stjórnmálaflokka? Þætti það viðeigandi?

Grafreitir eru undir stjórn kirkjunnar
    Í fjölmenningarlegu samfélagi er eðlilegt að grafreitir séu undir stjórn sveitarfélaga en ekki eins ákveðins trúsafnaðar.

4. Um mismunun vegna ólíkra lífsskoðana
    Eins og fram hefur komið er fólki mismunað talsvert eftir því hvaða trú eða sannfæringu það aðhyllist. Því fólki sem stendur utan allra trúarbragða er þó mismunað enn frekar. Ríkisvaldið styrkir öll skráð trúarbrögð með innheimtu sóknargjalda í gegnum skattfé fyrir viðkomandi trúfélag. Önnur lífsskoðunarfélög og trúfélög sem ekki hafa fengist opinberlega skráð fá enga slíka styrki eða þjónustu.

Sóknargjöld
    Ríkið sér af einhverjum ástæðum um að innheimta sóknargjöld fyrir trúfélög. Hver einasti þegn landsins er rukkaður um 7200 krónur á ári (2005) sem renna beint í þá sókn eða það trúfélag sem viðkomandi er skráður í. Ef viðkomandi einstaklingur er ekki í skráðu trúfélagi eða er trúlaus ber honum samt að borga 7200 krónur sem þá renna til Háskóla Íslands. Þeim sem standa utan trúfélaga er þannig refsað fyrir það því þeim er gert að borga aukalega um 64 milljónir á ári til Háskólamenntunar (61 milljón árið 2000 samkvæmt ríkisreikningi). Gagnrýna má ýmislegt í því fyrirkomulagi sem er á svokölluðum sóknargjöldum. Alvarlegast er þó að lífsskoðunarfélögum er gróflega mismunað eftir því hvort meðlimir þeirra trúa á yfirnáttúruleg fyrirbrigði eða ekki. Þetta getur einfaldlega ekki staðist jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar. Annað af tvennu þarf að gera: Annars vegar að leggja niður sóknargjöld með öllu og leyfa trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunarfélögum að fjármagna starfsemi sína óháð yfirvöldum. Hins vegar að viðurkenna önnur lífsskoðunarfélög en þau sem krefjast átrúnaðar á yfirnáttúrulegar verur og veita þeim sama lagalaga rétt og trúarleg lífsskoðunarfélög hafa. Þannig gætu þeir sem eru í lífsskoðunarfélögum sem aðhyllast ekki trú á æðri mátt látið sóknargjöld sín renna til þess félags. Einnig þarf að gefa fólki þann valkost að fá sóknargjöld sín endurgreidd ef það vill ekki tilheyra neinum lífsskoðunarfélögum.

Prestar og sálfræðingar
    Þeir sem standa utan trúfélaga verða af ýmiskonar þjónustu sem má skilgreina sem almenna félagslega grunnþjónustu. Meðlimir Þjóðkirkjunnar fá ókeypis sálgæslu á spítölum, félagsheimilum og í kirkjum landsins. Á meðan kostar það mörg þúsund krónur að fara til sálfræðings. Að vísu stendur öllum þjónusta presta til boða en augljóslega hafa t.d. trúleysingar lítið að gera með að leita huggunar hjá presti í veikindum eða á dánarbeði.

Önnur aðstaða
    Trúleysingjar og aðrir þeir sem standa utan trúfélaga hafa jafn mikla þörf fyrir að halda upp á sömu tímamót og aðrir. Giftingar, nafngiftir, greftranir og manndómsvígslur eru athafnir sem hafa líklegast alltaf fylgt manninum. Þó þessar athafnir séu yfirleitt tengdar við trúarbrögð þá eru þær ekki upprunnar þaðan.
     *      Ríkið sér um að útvega hinum ýmsu söfnuðum húsnæði og aðra aðstöðu, m.a. til þess að framkvæma þessar athafnir. Þjóðkirkjusöfnuðir fá t.a.m. gefins land frá ríkinu undir allar sínar kirkjur og prestsetur auk þess sem öll gatnagerð og viðhald er greitt af almannafé. Þessi stuðningur ríkisvaldsins er beinlínis lögbundinn (sjá: 5. gr. laga nr. 35 1970 um Kristnisjóð). Yfirvöld hafa enn fremur greitt kostnað af byggingarframkvæmdum og gefið eftir fasteignagjöld þó á þeim hvíli engin lagaskylda til þess.
     *      Þeir sem standa utan trúfélaga en vilja taka þátt í þessum athöfnum, annað hvort sem einstaklingar eða með hjálp lífsskoðanafélaga fá enga slíka aðstoð frá ríkinu. Fólk utan trúfélaga má nýta sér aðstöðu Þjóðkirkjunnar en eins og eðlilegt er þykir mörgum það óþægilegt og jafnvel óviðeigandi.Fylgiskjal IV.


Arnfríður Guðmundsdóttir og
Hjalti Hugason:


Aðskilnaður ríkis og kirkju.


(Nóvember 2010, tekið af vef 17. janúar 2011: www.dv.is/stjornlagathing/hjalti-hugason/grein/608)    Umræður um aðskilnað ríkis og þjóðkirkju hefur staðið með hléum í rúma öld. Allan tímann hafa rök með og á móti verið keimlík. Orðræðan hefur troðið marvaða. Eitt og eitt skref hefur þó verið tekið í átt að aðgreiningu eða jafnvel aðskilnaði.
    Um miðja 19. öld hófst aðgreining ríkis og kirkju í danska ríkinu og fyrir alvöru hér á landi 25 árum síðar. Við gildistöku stjórnarskrárinnar 1874 komst hér á trúfrelsi og þjóðkirkja. Í lok 20 aldar var þjóðkirkjan loks skilgreind sem „sjálfstætt trúfélag.“ Þetta þýðir þó ekki að aðskilnaður hafi átt sér stað.

Margir möguleikar
    Það er teygjanlegt hvað átt er við með aðskilnaði ríkis og kirkju og matsatriði hvenær hann hafi orðið. Áður en ákveðið verður að skilja að ríki og þjóðkirkju þarf að marka stefnu um hvaða markmiðum skuli náð.
    Er nægilegt að öll trúfélög hafi sömu stöðu í samskiptum við ríkisvaldið? Á ríkið engin afskipti að hafa af nokkru trúfélagi? Á að setja trúfélögum svo þrönga ramma að tilveru þeirra sjái ekki stað í opinberu rými? Allt rúmast þetta undir aðskilnaði ríkis og kirkju. Sum módelin kæmu fastlega til álita. Önnur gætu brotið í bága við almenn mannréttindi ef þeim væri framfylgt til hins ýtrasta.
    Í vestrænu lýðræðissamfélagi virðist ákjósanlegt að hið opinbera hafi sem minnst afskipti af trúmálum. Í velferðarsamfélagi má þó færa rök fyrir því að skilgreina þurfi a.m.k. ytri ramma um störf trúfélaga. Það er vegna þess að trúfélög geta auðgað velferðarkerfið en geta líka gengið nærri tilfinningum fólks. Slíkir rammar eru þeim mun mikilvægari því stærri og umsvifameiri sem trúfélög eru. Það er eitt af því sem mælir með tengslum og samstarfi hins opinbera og þjóðkirkjunnar.

Aðskilnaður frá sjónarhóli kirkjunnar
    Frá sjónarhóli þjóðkirkjunnar má færa ýmis rök sem mæla með aðskilnaði. Þau mikilvægustu eru að þannig mundi hún öðlast frelsi til að lifa og starfa einvörðungu á eigin forsendum.
    Nú býr þjóðkirkjan hvorki við trúfrelsi né fullt félagafrelsi. Hún getur ekki hróflað við játningagrunni sínum og Alþingi ákveður meginþættina í stofnunarlegri uppbyggingu hennar. Hún hefur þegið það frelsi sem hún nýtur úr hendi Alþingis. Það getur með einföldum lagabreytingum skert frelsi hennar að nýju. Þetta er óásættanlegt þegar um minnihlutakirkjur er að ræða. Trú- og félagafrelsi er þeirra helgasti réttur. Frelsisskerðing kann hins vegar að vera réttlætanleg þegar meirihlutakirkja á í hlut og er eðlileg afleiðing af þjóðkirkjuskipan.

Aðskilnaður frá sjónarhóli annarra trúfélaga
    Önnur trúfélög geta litið þjóðkirkju hornauga og fært rök að því að forréttindi hennar séu ósanngjörn. Þau verða þó að vega inn þá ókosti sem í þjóðkirkjuskipan flest. Ekkert mælir gegn því að fleiri en eitt trúfélag njóti þeirra gæða sem í þjóðkirkjuskipan felast en fyrir þau verður að gjalda það sem þau kosta – þ.e. frelsisskerðingu. Oft er miðað við að trúfélag sem nær til 5% þjóðar hafi umtalsverð samfélagsáhrif og taka þurfi verulegt tillit til trúfélags sem nær til 10%, t.d. með því að veita þeim að einhverju leyti hlutdeild í þeim stuðningi sem ríkið veitir þjóðkirkjunni.
    Trúfélög sem hafa náð því að hafa 5 eða 10% þjóðarinnar á meðlimaskrá sínum og kynnu að vilja öðlast opinbera stöðu verða að gangast undir sömu frelsisskerðingu og hún með því að veita hinu opinbera mun meiri innsýn og jafnvel íhlutunarrétt í starf sitt en nú er. Margir frjálsir söfnuðir og trúfélög voru í upphafi einmitt stofnuð til að losna undan ríkisafskiptum og kjósa tæpast að snúa baki við þeirri sögulegu arfleifð sinni.
    Þess ber að geta að þjóðkirkja hefur vegna stærðar sinnar og stöðu skyldum að gegna við önnur trúfélög. Henni ber að vera helsti málsvari trúfrelsis og berjast fyrir því að smærri trúfélög fái notið þess til fulls. Það eru ekki síst trúarhreyfingar sem starfa meðal nýrra Íslendinga og búa því ekki að sögulegri hefð í landinu sem þurfa á slíkum bakhjarli að halda. Þá ber þjóðkirkjunni að gæta þess í samvinnu við ríkisvaldið að forréttindastaða hennar skerði ekki frelsi þeirra sem standa utan vébanda hennar og ganga varlega fram gagnvart þeim.

Aðskilnaður frá sjónarhóli ríkisins
    Ríkið hefur einkum tvær ástæður til að huga að aðskilnaði. Önnur er sú að verða betra lýðræðis- og jafnréttisríki. Hin er hugsanlegur sparnaður.
    Túlki ríkisvaldið skyldur sínar til að styðja og vernda þjóðkirkjuna of víðtækum skilningi getur það þrengt að öðrum trúfélögum. Einnig gæti verið að svo dragi saman með þjóðkirkjunni og öðru eða öðrum trúfélögum hvað stærð eða félagsleg hlutverk snertir að sérstaða þjóðkirkjunnar taki að orka tvímælis. Hér á landi virðist langt í þær aðstæður en komi þær upp eru tvær leiðir færar: Að auka aðskilnað ríkis og þjóðkirkju með því að draga úr sérstöðu hennar eða að veita þeim trúfélögum sem til greina kæmu hlutdeild í þeim kostum sem felast í stöðu þjóðkirkjunnar. Þ.e.a.s. ef þau eru fús til að kaupa þá stöðu með óskoruðu frelsi sínu. Sé sú leið farin kæmi til greina að ræða fremur um samstarfskirkjur en þjóðkirkjur en með því er átt við kirkjur sem starfa í samvinnu við ríkisvaldið t.d. á grundvelli laga og/eða samninga. Í þjóðkirkjuskipan eins og hún er nú felst mismunun trúfélaga. Í þjóðkirkjuskipaninni felst hins vegar ekki að ríkisvaldið þurfi að mismuna trúfélögum. Þvert á móti er ríkinu heimilt að styja öll trú- og lífsskoðunarfélög. Það ætti ríkisvaldið e.t.v. að gera ef litið er svo á að þau gegni raunhæfu hlutverki í velferðarsamfélagi 21. aldar.
    Spurningin um sparnað af aðskilnaði ríkis og kirkju er flóknari. Þar til í byrjun 20. aldar var þjóðkirkjan sjálfbær stofnun sem stóð undir eigin rekstri með tekjum af eignum sínum. 1907 afhenti hún ríkinu forræði yfir meginþorra eignanna og sætti sig við að um 1/5 af prestaköllum hennar væri lagður niður gegn því að ríkið ábyrgðist launakostnað þeirra presta sem eftir voru. Út úr þessari 100 ára gömlu sögu getur ríkisvaldið ekki bakkað með því að láta eins og ekkert hafi gerst. Við aðskilnað yrði það að sjálfsögðu að skilja svo við kirkjuna að hún gæti að nýju staðið á eigin fótum. Það er ekki ljóst að slíkt uppgjör fæli í sér sparnað, a.m.k. til skamms tíma litið.

Aðskilnaður frá sjónarhóli samfélags og þjóðar
    Almennt hljótum við að spyrja hvort hér yrði betra samfélag eða betra þjóðlíf — hollara mannlíf – ef öll tengsl ríkis og trúfélaga yrðu rofin og trúfélögin e.t.v. útilokuð úr opinberu rými eins gert yrði ef keppt væri að „fullum aðskilnaði“. Rök kunna að vera til fyrir því. Þessháttar fyrirkomulag hefði þó ýmsa ókosti. Trúfélög óháð stærð gætu þá lokað sig af, myndað félags- og menningarkima, sem fremur skaða en styrkja samfélagsheildina. Það er að gerast í löndunum umhverfis okkur þar sem trúarlegu tjáningarfrelsi er að ýmsu leyti sniðinn þrengri stakkur en áður. Slíkt ástand kallar fremur fram spennu en aðlögun. Trúarbrögð verða að líkindum sterkari áhrifavaldar í samfélaginu á komandi áratugum en var raunin á síðustu á öld. Margt bendir til að hugmyndin um hið veraldarvædda samfélag sé í blindgötu.
    Við kunnum og að vera stödd í þeim aðstæðum að í nánustu framtíð muni reyna meira á samhjálp, sjálfboðið starf og velferð sem byggir í ríkari mæli á óformlegu samfélagslegu neti en tíðkast hefur á næstliðnum áratugum er ríkið hefur að mestu verið ábyrgt fyrir velferðinni. Við slíkar aðstæður gegna trúfélög mikilvægu hlutverki, ekki síst gömul, stór og sterk trúfélög – hafi þau ekki misst sjónar á eðli sínu og köllun og orðið stofnanir meðal annarra ríkisstofnana. Þjóðkirkjan er góðu heilli þegar farin að laga sig að þessum breyttu aðstæðum með aukinni kærleiksþjónustu og hjálparstarfi. Slíkt mælir fremur með en móti tengslum hennar við ríkisvaldið.Fylgiskjal V.


Menningarlega opin kirkja.


(Viðtal við Sigurjón Árna Eyjólfsson. Sigurbjörg Þrastardóttir,
Lesbók Morgunblaðsins, 9. desember 2006.)


    Hugmyndir um innri skipan íslenskrar þjóðkirkju eru ekki sjálfsprottnar hérlendis, heldur
eiga meðal annars rætur í hugmyndum þýska hugsuðarins Friedrichs Schleiermachers, sem uppi var á sokkabandsárum lýðræðis. Sr. Sigurjón Árni Eyjólfsson hefur ritað bók um uppruna þjóðkirkjuhugtaksins, enda telur hann mikilvægt að sjálfsskilningur kirkjunnar sé kynntur. Og hann fagnar allri umræðu um málið.
    „Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“ (Matt 18.20)
    Ofangreind Biblíutilvitnun opnar nýja bók séra Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, Ríki og kirkja, sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Verkinu er ætlað að svara aðkallandi þörf hérlendis á guðfræðilegri úttekt á sambandi ríkis og kirkju, og þeirri hugmyndafræði sem býr að baki þjóðkirkjufyrirkomulaginu.
    Séra Sigurjón Árni Eyjólfsson er meðal annars höfundur ritanna Guðfræði Marteins Lúthers (2000) og Kristin siðfræði í sögu og samtíð (2004), sem hvor um sig er yfir 500 síður. „Ég var töluvert skammaður fyrir að skrifa alltaf svona þykkar bækur, þannig að þessi er lítil og aðgengileg,“ segir hann kankvís. Sigurjón Árni, sem er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, lauk embættisprófi í guðfræði frá HÍ árið 1984 og er tvöfaldur doktor í guðfræði frá Háskólanum í Kiel og Háskóla Íslands. Þá hefur hann leiðbeint í Leikmannaskóla kirkjunnar um árabil og er nýju bókinni kannski ekki síst ætlað, rétt eins og þeim skóla, að vekja samræðu um guðfræðileg efni hjá fólkinu í landinu.

Íslensk kirkja, íslensk menning
    „Þessi bók er ætluð öllum,“ segir hann aðspurður. „Henni er ekki síst ætlað að leiðrétta
ýmiss konar misskilning, sem uppi er um þjóðkirkju og hlutverk hennar.“ Margir geri til dæmis ekki greinarmun á stjórnunarþætti og menningarþætti kirkjunnar, þá rugli margir saman ríkiskirkju og þjóðkirkju, og enn aðrir séu þeirrar skoðunar að hér sé enginn aðskilnaður ríkis og kirkju. Hið síðastnefnda hafi hins vegar breyst með lagasetningu árið 1997. „Þá var í raun komið hér á aðgreiningu ríkis og kirkju, eins og margir höfðu kallað eftir, og ég sé ekki að lengra verði gengið í því efni,“ segir Sigurjón Árni.
    Samkvæmt stjórnarskrá er evangelíska lútherska kirkjan þó eftir sem áður „þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“
    Þessi skipan byggist ekki síst á hefð og samslætti kirkjunnar við þróun íslenskrar menningar. „Kirkjan er mjög forn stofnun á Íslandi. Presturinn var til dæmis, alveg fram á 20. öld, kennarinn, hann var félagsráðgjafinn og sinnti óhemjumörgum störfum fyrir ríkisvaldið. Íslensk skólasaga er til dæmis óhugsandi án presta. Í raun er ekki hægt að skilja kirkjuna frá sögu þjóðarinnar,“ segir Sigurjón Árni. „Kirkjan hefur tekið og tekur enn að sér ýmsar skyldur gagnvart þegnum samfélagsins og þess vegna er eðlilegt að ríkið styðji hana í því,“ segir hann og bendir á að ríkið geri formlegan samning þar að lútandi við kirkjuna.
    Þá eru laun presta samkvæmt lögum frá 1997 að hluta til greiðslur fyrir yfirtöku ríkisins á kirkjujörðum.
    Fyrir utan hin lögbundnu verkefni kirkjunnar nefnir Sigurjón Árni til viðbótar víðtæka sálusorgun, margvíslega fræðslu, mataraðstoð, samstarf við lögreglu og margt fleira. „Þessi verkefni eru hins vegar þess eðlis að þau eru unnin í kyrrþey.“
    Hann bendir á að þegar yngri trúfélög taki að axla samfélagsverkefni með sama hætti sé sjálfsagt að ríkið styðji þau einnig. Kirkjan njóti þannig ekki óútskýrðra forréttinda, heldur sé hún stærsta, sögulegasta og mikilvirkasta trúfélagið. „Og af því hún er í eðli sínu svo opin, fjölskyldur sækja þangað og menningartengslin eru svo sterk, þá finnst fólki að það sé enginn aðskilnaður [ríkis og kirkju].“

Innri og ytri veruleiki kirkjunnar
    Margt gerir sem sagt þjóðkirkjuhugtakið óljóst í huga nútímamannsins. Því þótti Sigurjóni Árna tímabært að skýra uppruna hugtaksins og skilning þess meðal tveggja stórra hugsuða, Marteins Lúthers og Friedrichs Schleiermachers, og ennfremur þýsku samtímaguðfræðinganna Eilert Herms og Reiner Preul. „Þýskaland hefur frá 1918 búið við það kerfi sem við erum nýbúin að gangast inn á. Í rauninni tala ég ekkert sérstaklega um Ísland í þessari bók, því bókin fjallar um sjálfsskilning kirkjunnar og samband hennar við ríkisvaldið. Það er svo mikið talað um kirkjuna frá öllum mögulegum hliðum öðrum en hennar eigin. Þetta er guðfræðileg nálgun.“
    Marteinn Lúther greindi á milli kirkjunnar sem sýnilegs, ytri veruleika, og innri andlegs veruleika, svo málið sé einfaldað. „Kirkjan, sem stofnun, verður að hafa sitt ytra skipulag. Þegar Lúther kemur fram á sjónarsviðið þá er kirkjan allt í öllu. Hann hafnar of miklum veraldlegum áhrifum hennar og greinir á milli hins andlega sviðs og hins veraldlega. Kirkjunnar er að sinna hinu andlega sviði og það gerir hún með því að boða fagnaðarerindið, veita sakramenti og hlúa að fólki. Hún er sýnileg í þessu verki sínu, í orði og sakramentum. Hvernig fólk meðtekur orðið og hvernig trú fólks er, og persónulegt samfélag þess við Guð, tilheyrir innri veruleika kirkjunnar sem enginn greinir nema Guð einn,“ segir Sigurjón Árni. „En til þess að sinna þessu starfi sínu þarf kirkjan ytra skipulag og stofnunarlega uppbyggingu. Og hvernig hún er, sem slík, tekur mið af þjóðfélagsgerð hvers tíma. Þegar Lúther kemur fram er framsæknasta stjórnarfarið furstarnir, og hann grípur til þeirra þegar hann þarf að endurskipuleggja kirkjuna eftir aðskilnaðinn frá Rómarkirkju.“
    Um 250 árum seinna, á tímum Friedrichs Schleiermachers, var kirkjan nær alfarið undir hæli ríkisvaldsins sem ríkiskirkja og í afar veikri stöðu. „Schleiermacher vill rétta hlut hennar og setur í kringum 1809 fram hugmyndir sínar um þjóðkirkjufyrirkomulagið í andstöðu við ríkiskirkjufyrirkomulagið. Þjóðkirkjan á að vera menningarlega opin og greinir sig ekki frá þjóðfélaginu.“ Hugmyndir Schleiermachers um að laga skipulag kirkjunnar að lýðræðisþróun í samfélögum nútímans móta evangelísk-lútherskan kirkjuskilning allt fram á þennan dag, segir Sigurjón Árni og vísar til innra skipulags íslensku þjóðkirkjunnar.
    Um þetta allt má lesa nánar í bókinni, en í síðari köflum er fjallað um áherslur Herms og Preul á að kirkjan sem stofnun sé sýnileg og það sé hennar að tryggja fjölbreytni og opna umræðu. „Þeir hafna einkalífsvæðingu trúarinnar og þar með því viðhorfi að óheppilegt sé að fjalla um samfélagsmál út frá trúarlegum grunni.“ Sigurjón Árni telur þetta nauðsynlega áminningu hér á landi, enda sé því stundum jafnað við áróður eða trúboð ef menn nálgast umræðuefni samtímans út frá kristinni heimssýn. Kirkjan eigi hins vegar að taka þátt í þjóðfélagsumræðu. „Eða var Jesús ekki í stöðugum samræðum og deilum um samfélagsleg gildi á sínum tíma?“ bendir hann á. „Í samfélagsumræðunni á guðfræðin heima á sama stað og bókmenntaumræðan og heimspekiumræðan. Við guðfræðingar á Íslandi ættum því að vera duglegri að gefa út guðfræðirit og rökræða. Hér eru heimspekingarnir okkur gott fordæmi.“

Umburðarlyndi er ekki afstöðuleysi

    Sigurjón Árni er spurður hvort fjölhyggjusamfélag samtímans hafi breytt kirkjunni.
    „Fjölhyggjusamfélagið breytir ekki stöðu kirkjunnar, heldur gerir hlutverk hennar skarpara. Kirkjan hlúir einmitt að þeim ramma sem tryggir fjölhyggjuna. Guðfræðingurinn Preul segir að trúarbrögðin í dag séu kölluð til þess að styðja við þá samfélagsgerð sem tryggir farvegi fyrir hinar ýmsu skoðanir.“ Allar skoðanir eigi rétt á sér, en stundum missi menn sig kannski út í einum of mikla bjartsýni. „Það er í sjálfu sér útópía að menningarstraumar geti runnið saman án átaka og fræðilegs uppgjörs. Nauðsynlegt er hins vegar að slík uppgjör fari fram með opinni og hreinskiptinni umræðu þar sem umburðarlyndi er ekki skilið sem afstöðuleysi, heldur réttur til að standa á sinni skoðun og andmæla skoðunum annarra.“
    Kristindómur sé rödd sannfæringar og allar raddir sannfæringar eigi að taka virkan þátt í opinberri umræðu. Slík umræða er að mati Sigurjóns Árna í örri þróun á Íslandi. Og hann bætir við að kristnir setji sig síðastir manna upp á móti því að aðrir hafi aðrar skoðanir eða trú en þeir, ekki frekar en að einn stjórnmálaflokkur setji sig upp á móti tilvist annars. Hugmyndin um trúfrelsi sé byggð inn í kristni.
    Hvað trúarfræðslu í skólum varðar telur Sigurjón Árni að kristnir foreldrar eigi rétt, og jafnvel heimtingu, á að börn þeirra læri kristinfræði. Fullkomlega eðlilegt sé að frætt sé um önnur trúarbrögð, lífsskoðanir og guðleysi, en það skuli ekki gert á kostnað kristinfræði. „Þarna held ég að ágreingurinn sé ekki um nauðsyn slíkrar fræðslu, heldur hvernig skuli fjármagna hana,“ segir hann. Best af öllu væri að börnin gætu valið. Í Finnlandi sé það þannig að ef tveir eða fleiri í bekk tilheyri rétttrúnaðarkirkjunni, skuli bjóða upp á valkvæða kennslu fyrir þá.
    „Maður verður að læra um trúna, rétt eins og tungumálið,“ segir hann, „við tölum ekki íslensku sjálfkrafa, heldur er okkur kennd hún. Það hefur kostað mikla vinnu að byggja upp og hlúa að íslenskri tungu. Svipað er upp á teningnum varðandi trúna. Það þarf að fræða um hana, svo einstaklingar geti ræktað trúna, og hér er nauðsynlegt að börnin séu alin upp til frelsis og sjálfstæðrar sannfæringar.“ Það sé réttur þeirra að fá slíka fræðslu.

Myndaalbúm þjóðarinnar
    Þá erum við aftur komin að efni bókarinnar. Hlutverk þjóðkirkju endurspeglar inntakið í kristindómnum, sem er boðunin. „Boðunin er fræðsla og samtal við aðra. Fræðsla um það sem kirkjan telur rétt og heilbrigt gildismat. Þjóðkirkja hefur því alltaf farsæld þjóðarinnar og andlega velferð að leiðarljósi. Það sem er gott fyrir þjóðkirkjuna er gott fyrir þjóðina.“ Þótt lútherska kirkjan í Þýskalandi taki aðeins til þriðjungs landsmanna, þá tekur hún samt fullan þátt í mótun gildismatsins í samfélaginu, að sögn Sigurjóns. Þjóðkirkja sækir því ekki gildi sitt í stærð, heldur boðskapinn.
    Hann telur ekki neinum til góðs að trúarlegt gildismat sé þaggað niður. Það geti jafnvel leitt til þess að sumt fólk missi bremsurnar í neyslu og veraldlegum yfirsnúningi og beinlínis missi sjónar á því að annars konar verðmæti séu til. „Manngildishugsjónin í kristninni er afar sterk. Kirkjan á nána samfylgd með einstaklingnum á lífsleiðinni. Þjóðkirkjan rammar inn líf fólks með athöfnum eins og skírn – sem jafngildir inngöngu – fermingu og giftingu, hátíðum kirkjuársins, allt til útfarar, eins og birtist vel þegar flett er í gegnum myndaalbúm fólks.“
    En hefur kristindómurinn einhverja meiri vigt en önnur trúarbrögð hérlendis, og þá hvers vegna?
    „Mikilvægi kirkjunnar byggist á sannfæringu, þeirri sannfæringu að þetta séu bestu trúarbrögðin sem til eru, og réttinum til að berjast fyrir því. En á sama tíma berst kirkjan aldeilis ekki gegn öðrum trúarbrögðum. Hvort tveggja er í eðli allra trúarbragða og fylgir allri sannfæringu. Umburðarlyndi felst í að virða muninn og leyfa honum að standa. Þjóðkirkja er í eðli sínu menningarlega opin – þetta er fjölhyggjan í raun.“
    Hann segir engan halda því fram innan kirkjunnar að eitt algilt kerfi liggi að baki heiminum og að þeir sem trúi á önnur fari villur vegar. Leit hvers og eins að sínum sannleika sé réttmæt, nauðsynleg og jafn mikilvæg í dag og fyrr á tímum.
    Með bók sinni vill Sigurjón Árni fræða, eins og prestum er tamt; hann tekst á hendur það verkefni að skýra út samspil veraldlegs og andlegs valds í hugmyndaheimi kirkjunnar. „Þessi bók er fyrir þá sem vilja skilja hlutverk þjóðkirkju í samfélagi. Og fyrir þá sem telja sig hafa skoðun á sambandi ríkis og kirkju er hún beinlínis skyldulesning.“Fylgiskjal VI.


Tillögur Siðmenntar til stjórnarskrárbreytinga 2009.Reykjavík, 25. febrúar 2009.
Björg Thorarensen,
Bryndís Hlöðversdóttir,
Gísli Tryggvason.

    Síðast þegar til stóð að gera breytingar á stjórnarskrá Íslands árið 2005 sendi Siðmennt stjórnarskrárnefnd erindi um breytingartillögur við VI. kafla hennar er fjallar um ríkiskirkjufyrirkomulag. Óskar stjórn Siðmenntar að þær tillögur verði meðal þeirra sem lagðar verða fram fyrir væntanlegt stjórnlagaþing sem stendur til að koma á legg. Hér fylgja tillögur Siðmenntar og rökstuðningur við þeim.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
    Stjórn Siðmenntar telur að ekki ríki fullt trúfrelsi á Íslandi þrátt fyrir að getið sé um slíkt í stjórnarskrá lýðveldisins en í 62. grein stjórnarskrárinnar segir:
     Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
    En í 65. greininni segir:
     Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
    Augljóslega stangast þessar tvær greinar á en önnur tekur af öll tvímæli um sérstöðu einnar lífsskoðunar fram yfir aðrar. Slíkt er andstætt mannréttindasjónarmiðum. Hin greinin kveður hins vegar á um jafnan rétt allra lífsskoðana. Að mati Siðmenntar brýtur 62. greinin í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem sett var inn í hana með breytingum sem gerðar voru á stjórnarskránni 1995 án þess að hreyft hafi verið við ákvæði um ríkiskirkju. Stjórnarskráin tryggir vissulega rétt allra til þess að stunda trú sína en ekki er nægilega fast að kveðið að tryggja skuli einnig réttinn að vera án trúar. Mannréttindi allra lífsskoðana trúarlegra sem og veraldlegra eru því tryggð með 65. greininni.
    Því leggur stjórn Siðmenntar til að 62. grein stjórnarskrárinnar verði felld út.

Frelsi til að greiða engin sóknargjöld
    Í síðust málsgrein 64. greinarinnar stendur eftirfarandi:
     Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.
    Stjórn Siðmenntar telur að hver maður eigi að ákveða hvort hann vilji skrá sig í trú- eða lífsskoðunarfélag. Einnig að allir hafi rétt til þess að ráðstafa sínum gjöldum í hvaða lífsskoðunarfélag sem er eða greiða þau ekki. Þar sem um er að ræða skattheimtu er rangt að binda í stjórnarskrá slíkt ákvæði. Það er ákveðin forræðishyggja að skylda alla til skattheimtu að þessu tagi. Stjórnin telur að greinin brjóti gegn jafnræðisreglu.
    Stjórn Siðmenntar telur að fella eigi þetta ákvæði á brott úr 64. grein stjórnarskrárinnar.

Stjórnarskráin verndar ekki lífsskoðanir trúlausra
    Í greinagerð sem Oddný Mjöll Árnadóttir, lögfræðingur, samdi fyrir Siðmennt árið 2005 kemur fram að ekki sé þess gætt, í 63. grein stjórnarskrárinnar, að jafnræði ríki milli mismunandi lífsskoðana. Lögfræðingurinn telur að einungis sé gætt réttar trúarlegra lífsskoðana en réttindi annarra lífsskoðana, þar með talið réttindi húmanista, séu fyrir borð borin og segir m.a. í álitsgerðinni:
     Vernd íslensku stjórnarskrárinnar er samkvæmt því í raun lakari en vernd mannréttindasáttmálanna og er beinlínis kveðið á um mismunandi meðferð trúarlegra lífsskoðana og annarra lífsskoðana í henni. Það er álit undirritaðrar að það veki áleitnar spurningar um þörf á endurskoðun á 63. gr. stjórnarskrárinnar og hvort ekki sé rétt að svara kalli Sameinuðu þjóðanna um að ríki heims tryggi að stjórnskipun þeirra og lög veiti virka og jafna vernd hugsana-, samvisku-, trúar- og sannfæringarfrelsis.
    Í álitinu er þess getið að Sameinuðu þjóðirnar hafi veitt almenna umsögn um 18. gr. Alþjóðasamningsins um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi sem aftur er sambærileg við 9. gr. Mannréttindasamþykktar Evrópu. Í umsögn sinni benda SÞ á að varast beri hvers konar mismunun á grundvelli þess hvort sannfæring eða lífsskoðun sé trúarlegs eðlis eða ekki. Að mati stjórnar Siðmenntar er hér um alvarlega mismunun að ræða og leitar því félagið til ykkar með erindi sitt.
    Einnig leggur stjórn Siðmenntar til að eftir ofangreindar breytingar verði þessar greinar stjórnarskrárinnar felldar undir mannréttindaákvæðin í kafla VII þar sem eftir standa greinar um mannréttindi einstaklinga.Fylgiskjal VII.


Sr. Sigurður Árni Þórðarson:

Skilja strax?


(Fréttablaðið, 16. nóvember 2010.)    „Ég vil skilja – sem fyrst“ hljómar í símanum. „Hvenær fæ ég tíma?“ Svo kemur parið á prestsskrifstofuna til að ræða samskipti og sáttahorfur. Ef ágreiningur er mikill og bæði vilja skilja er talað um hagsmuni barna parsins, umgengni, samskiptahætti, eignaskipti og fjölda atriða til að allt verði skýrt. Þegar skilnaðarasi er mikill og andúð kyndir undir fer oftar en ekki illa. Skemmtilegir skilnaðir eru fátíðir. Oftast eru þeir dapurlegir og í einstaka tilvikum hræðilegir. En áfall og kreppu má nýta til góðs. Skilnaðir geta bætt líf heimilismanna þegar mál eru unnin með hagsmuni allra að leiðarljósi. Þetta eru gæðaskilnaðir.
    „Ég vil skilja ríki og kirkju – strax.“ Setningin var á bloggsíðu og sést og hljómar víða. Of margir telja að hægt sé að efna til skyndiskilnaðar ríkis og kirkju og nánast eftir næstu helgi. Ef gæðaskilnaðir einstaklinga eru vandaverk eru slit ríkis og kirkju sem næst „hið ómögulega“ svo vitnað sé í Ögmund Jónasson „trúmálaráðherra“.
    Skilnaður og aðgreining eru sitt hvað og í samhengi ríkis og kirkju skyldi ekki rugla eða grauta þessu tvennu saman. Skilnaður ríkis og kirkju varðar fyrst og fremst 62. grein stjórnarskrárinnar. Þá aðeins verður lögformlegur skilnaður þessara aðila ef stjórnarskrárákvæðið verður fellt úr gildi. Allt annað mál er aðgreining ríkis og kirkju. Þjóðkirkjan hefur viljað og ríkið hefur veitt kirkjunni mikið frelsi. Aðgreiningarferli hefur staðið í áratugi. Þjóðkirkjan íslenska er ekki ríkiskirkja eins og sú danska. Þjóðkirkjan íslenska nýtur að lögum sjálfstæðis til jafns við hina sænsku, sem þó er aðskilin frá ríkinu.
    Þjóðkirkjan er ekki ríkisrekið apparat. Kirkjan afhenti ríkinu gífurleg verðmæti til eignar. Ríkið greiðir aðeins vexti af þeim höfuðstól. Laun presta eru slík greiðsla en alls ekki framlag ríkisins. Skilja strax? Ja, þá verður ríkið jafnvel dæmt til að skila öllu eignasafninu, sem í eru nokkur helstu dýrmæti Íslands, t.d. Þingvellir, allt land Garðabæjar (land Garðakirkju), Borgarnes (land Borgar). Ríkissjóður Íslands hefur jafnvel ekki burði til að skila eða bæta.
    Þjóðkirkjan óskar, að ríkið skipti sér sem minnst af málum hennar. Hún vill góð samskipti því það er þjóðin, sem kirkjan þjónar, og það er sama þjóð, sem ríkið á að þjóna. Höldum áfram aðgreiningarferli. Skiljum ekki fyrr en allt er fullrætt og allir sáttir. Gætum að því að börn þjóðarinnar klemmist ekki í átökum um trú og trúfélög. Aðeins gott aðgreiningarferli getur leitt til gæðaskilnaðar. Skilja strax – nei, kannski seinna.Fylgiskjal VIII.


Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson:


Siðlausir útrásarvíkingar þjóðkirkjunnar.

(Fréttablaðið, 10. desember 2010.)    Við Íslendingar erum flestir sammála um að helstu auðlindir okkar eigi að vera í þjóðareign. Ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar er hin sameiginlegi trúar og menningararfur sem hefur mótað sjálfsmynd, samkennd og þjóðarvitund okkar. En nú virðist vera sem búið sé, allt í senn, að meta trúararf okkar til fjár, einkavæða hann og græðgisvæða.

Milljarðaauðlindir
    Ég er að tala hér um kirkjujarðaeignirnar sem mynduðust í þá daga þegar kaþólska kirkjustofnunin drottnaði hér á landi allt frá kristnitöku til um 1550. Kirkjustofnunin kaþólska sölsaði þá undir sig eignir landsmanna oft með kúgun, ofbeldi og óhugnanlegum stofnunarþunga. Landsmenn áttu ekkert val, hér ríkti trúar nauðung, enginn komst undan.
    Í Evrópu var ranglætið svo yfirgengilegt að siðbótarmenn eins og Marteinn Lúter risu upp, mótmæltu og breyttu siðnum. Eftir siðbreytingu hér á landi allt fram á nýliðna öld var það því framandi hugsun að einhver kirkjustofnun eða trúfélag ætti þessar eignir. Með siðlausum samningi sem gerður var fyrir aðeins þrettán árum var hinsvegar gengið svo frá að þjóðkirkjustofnunin fengi allar þessar kirkjusögulegu auðlindir allra landsmanna.
    Samningurinn grundvallaðist á kaþólskum kirkjuskilningi þar sem „kirkjan“ er skilgreind sem stofnun og „arfur kristninnar“ er skilgreindur sem eign stofnunarinnar. Þessi kirkjuskilningur er nokkuð sem lútersk kirkja var einmitt stofnuð til að berjast gegn og vara við! Þetta er í andstöðu við þá lútersku trú sem Stjórnarskrá Íslands heitir vernd og stuðningi. Hér erum við færð nokkrar aldir aftur í tíma, aftur fyrir siðbreytingu. Þessi siðlausi samningur setur allt tal um trúfélagafrelsi á svið fáránleikans.
    Nú, þegar hin almenna kirkja á Íslandi vill aðskilnað ríkis og þjóðkirkjustofnunarinnar, eru sumir talsmenn stofnunarinnar farnir að tala æ meir eins og siðlausu útrásarvíkingarnir gerðu fyrir hrun. Þeir segja „jú endilega að greina á milli ríkis og kirkju, en vitið þið bara, að við höldum einir hinum kirkjusögulega arfi og milljörðunum öllum um ókomin ár“. Þeir telja sig eina vera hina sönnu kirkju en ekki fólkið í landinu eins og Lúter gamli hélt fram.

Þingvellir og Garðabær í eignasafni
    Sr. Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju og kirkjuþingsmaður er einn af þeim starfsmönnum þjóðkirkjunnar sem skrifar reglulega pistla hér í Fréttablaðið. Hann skrifaði grein þann 16. nóvember sl. þar sem hann varar alvarlega við aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju. Af hans orðum má ráða vissa hótun um að ef skilið yrði á milli íslenska ríkisins sem jú stendur fyrir íslenska þjóð annarsvegar og hinsvegar þjóðkirkjustofnunarinnar, þá myndi prestur og hans kirkjustofnun taka helstu dýrmæti Íslands og gera ríkissjóð gjaldþrota.
    Hann skrifar; „Skilja strax? Ja, þá verður ríkið jafnvel dæmt til að skila öllu eignasafninu, sem í eru nokkur helstu dýrmæti Íslands, t.d. Þingvellir, allt land Garðabæjar (land Garðakirkju), Borgarnes (land Borgar). Ríkissjóður Íslands hefur jafnvel ekki burði til að skila eða bæta. Þjóðkirkjan óskar, að ríkið skipti sér sem minnst af málum hennar.“ Þetta minnir óneitanlega á hrokafullt tal forstöðumanna bankanna og útrásarvíkinga fyrir hrun, – en nú bara í skjóli kirkju og Krists.
    Hver þeirra skyldi ætla að eigna sér Þingvelli? Hver þeirra ætlar sér allan Garðabæ? Jarðirnar er nú ekki hægt að flytja til Cayman eða Tortilla eyja en arfinn og arðinn er eflaust hægt að flytja út. Hvaða þjóðkirkjuprestur eða starfsmaður biskupsstofu skyldi nú vera að taka út kirkjusögulegan arf minna formæðra og forfeðra – eða þeirra ca. 65.000 Íslendinga sem kjósa að vera utan þjóðkirkjunnar? Við eigum rétt á að fá að vita. Stofnunin hlýtur að hafa skrá yfir þessa hluti.

Kirkja misnotuð
    Hvaða „kirkju“ á kirkjuþingsmaðurinn við þegar hann fullyrðir „Þjóðkirkjan óskar, að ríkið skipti sér sem minnst af málum hennar“? Kirkjuhugtakið er nefnilega notað á tvo vegu á kirkjuþingi. Annarsvegar þegar stofnunin er að afla fjár frá ríki og þjóð. Þá er hugtakið „kirkja“ látið merkja alla þjóðina í aldanna rás. En þegar kemur að ráðstöfun fjárins og stefnumótun þá hentar betur þrönga skilgreiningin, þá stendur hugtakið „kirkja“ í raun fyrir þröngan hóp starfsmanna stofnunarinnar.
    Líklegast vill kirkjuþingsmaðurinn að ríkið og þjóðin skipti sér ekki af því hvernig hann og hans félagar á kirkjuþingi fara með sameiginlegan trúararf okkar allra hinna.
    Allt þetta knýr frekar á um að sá siðlausi samningur milli ríkis og þjóðkirkjustofnunarinnar sem gerður var fyrir aðeins þrettán árum, verði rækilega endurskoðaður. Þjóðin má ekki leyfa neinum að ræna hinum kirkjusögulega arfi hennar. Íslendingar, stöndum vörð um okkar sameiginlegu auðlindir.