Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 863. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1577  —  863. mál.
Tillaga til þingsályktunarum úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu.

Flm.: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Björn Valur Gíslason,
Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Þráinn Bertelsson,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu.

Greinargerð.


    Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið þegar kalda stríðið var í algleymingi og heimsmyndin dregin skörpum skilum milli tveggja andstæðra fylkinga. Stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, standa nú ekki lengur með vopnabúr sín hvort á móti öðru heldur hafa hagsmuna- og hernaðarátök á heimsvísu tekið á sig gjörbreytta mynd.
    Atlantshafsbandalagið hefur einnig tekið miklum breytingum í tímans rás en þó ekki með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið í ljósi breyttrar skipanar heimsmála. Í stað þess að slíðra sverðin í þágu friðar við lok kalda stríðsins hefur Nató farið í útrás með gríðarlegri hernaðaruppbyggingu um víða veröld.
    Bandalagið er löngu hætt að skilgreina sig sem einungis bandalag um sameiginlegar varnir aðildarríkja. Í stað þess að horfa til beinnar árásar á eitthvert aðildarríkja bandalagsins, og skuldbindingar annarra aðildarríkja að hrinda slíkri árás, er nú litið á meinta ógn við einstök aðildarríki sem ógn og jafnvel árás á önnur. Með túlkun bandalagsins á ógn við öryggi um víða veröld fylgir nær opin heimild um hernaðaríhlutun, enda beitir Nató sér um heim allan í mun ríkari mæli en áður. Sú hefð hefur nú fest sig í sessi að Atlantshafsbandalagið taki við herleiðöngrum og stríðsbrölti forusturíkja sinna. Má færa fyrir því sterk rök að bandalagið sé herskárra og háskalegra en nokkru sinni fyrr.
    Ísland gumar að því að vera herlaust og friðsamt land. Á sama tíma leggur Ísland beint eða óbeint blessun sína yfir hernaðaraðgerðir á vegum bandalagsins sem stofnað er til í því skyni að verja grímulausa hagsmuni forusturíkja þess. Kjarnorkuvopn eru enn sem fyrr hluti af viðbúnaði Natós og hornsteinn í stefnu bandalagsins, en Nató áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Friðlýsing íslenskrar lögsögu gegn kjarnorkuvopnum og kjarnorkuknúnum farartækjum kann að reynast torsótt svo lengi sem Ísland er aðili að Nató.
    Með loftárásum Atlantshafsbandalagsins á Líbíu er Ísland enn á ný orðið beinn aðili að styrjaldarátökum. Blóði drifin saga Natós og forusturíkja þess í bæði Írak og Afganistan ætti með réttu að vera fullt tilefni til þess að fólk allra flokka á Alþingi sameinaðist í þeirri kröfu að Ísland segði sig úr bandalaginu. Í stað þess er Ísland nú aðili að enn einni herförinni í fjarlægu landi. Á þessu augnabliki er útilokað að segja til um hvernig hernaðurinn í Líbíu muni þróast en ýmislegt í þessum stríðsrekstri minnir óhuggulega á upphaf innrásarinnar í Írak. Eins og venja er orðin þegar innrás er gerð í framandi olíuríki voru loftárásir Nató á Líbíu réttlættar með því að vernda ætti líbískan almenning. Reynslan sýnir hins vegar að lofthernaður eykur líkurnar á mannfalli meðal óbreyttra borgara. Mannfall almennings í Líbíu eykst, borgaraleg skotmörk eru hluti af meintum vörnum og börn eru fórnarlömb ígrundaðra árása.
    Það er brýnt að Ísland sýni í verki að það er sjálfu sér samkvæmt, herlaust og andvígt hernaðarofbeldi. Öllum er ljóst að þær ógnir sem helst steðja að Íslandi eru ekki hernaðarlegs eðlis. Þjóð sem vill vera herlaus og friðsöm á að halda sig utan hernaðarbandalaga. Eftir hálfa öld og óforsvaranleg voðaverk er mál að linni. Því ber að segja Ísland úr Nató.
Fylgiskjal I.


Einar Ólafsson:


NATO eftir kaldastríðið: árásargjarnt hernaðarbandalag heimsvaldasinna.

(21. apríl 2007. Uppfært 7. október 2009. – Sótt á vefinn 26.5.2011: notendur.centrum.is/~einarol/natoeftirkalda_punktar.htm).    Með lokum kalda stríðsins breyttist staða NATO. Það var sagt vera varnarbandalag Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku gegn yfirvofandi hættu frá Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra. Af hinum yfirlýsta óvini er nú vart meira en skugginn eftir.

Opinbert hlutverk NATO
    Samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum er hlutverk bandalagsins að leysa milliríkjadeilumál sem aðilar kunna að lenda í (1. gr.) og standa saman gegn vopnaðri árás á einn eða fleiri aðila samningsins í Evrópu, Norður-Ameríku, Tyrklandi (eftir að það varð aðili) og Norður-Atlantshafi, þ.e. því svæði sem aðildarríkin eru á (5. og 6. gr.). Auk þess er sagt í 2. gr. að aðilar skuli „styrkja frjálsar þjóðfélagsstofnanir sínar, með því að koma á auknum skilningi á meginreglum þeim, sem þær stofnanir eru reistar á“. Hverjar þessar „meginreglur“ eru er ekki skilgreint, en væntanlega átt við kapítalískt skipulag. Hins vegar ná þær varla í raun til lýðræðislegra stjórnarhátta, þrátt fyrir orðalagið „frjálsar þjóðfélagsstofnanir“, í ljósi þess að bæði Portúgal og Grikkland áttu aðild að bandalaginu meðan þar voru við völd ólýðræðislegar herforingjastjórnir.

Helstu breytingar á NATO eftir lok kaldastríðsins
    Það sem gerst hefur eftir lok kalda stríðsins er einkum tvennt:
     Í fyrsta lagi:
    NATO stækkar til austurs. Frá 1999 hafa tólf lönd, sem áður lágu austan járntjaldsins, gengið í NATO og eitt ríki er nú í aðildaráætlun. Einnig eru fjögur ríki í viðræðum sem eru undanfari aðildaráætlunar.
    Þótt einnig hafi verið tekin upp jákvæð samskipti við Rússland og fleiri fyrrverandi Sovétlýðveldi sem enn standa utan NATO (Partnership for Peace 1994) er Rússlandi líka ögrað, annars vegar með þessari stækkun til austurs (áður voru austantjaldsríkin milli NATO og Sovétríkjanna, nú er NATO komið að landamærum Rússlands) og hins vegar með uppsögn Bandaríkjanna á ABM-sáttmálanum um takmörkun eldflaugavarna árið 2002, uppsetningu gagneldflaugastöðva í Póllandi og Tékklandi og bandarískum herstöðvum og hernaðarlegri aðstöðu í ríkjum Austur-Evrópu og fyrrverandi Sovétlýðveldum í Asíu. Ríkisstjórn Baracks Obama tilkynnti reyndar í september 2009 að dregið yrði úr umfangi hins fyrirhugaða gagnflaugakerfis.
     Í öðru lagi:
    NATO er farið að starfa utan þess svæðis sem afmarkast af aðildarríkjunum. Þróunin er þessi:
     *      1992: NATO tekur að sér það hlutverk í fyrrverandi Júgóslavíu árið 1992 að hafa eftirlit með vopnasölubanni Sameinuðu þjóðanna og sérstökum efnahagslegum refsiaðgerðum gagnvart Serbíu og Svartfjallalandi. Með því tekur NATO í fyrsta sinn að sér hlutverk utan svæðis aðildarríkjanna.
     *      Ágúst til september 1995: NATO stendur í fyrsta skipti að meiriháttar hernaðaraðgerðum með Operation Deliberate Force í Bosníu.
     *      Desember 1995. Eftir Dayton-samkomulagið felur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna NATO að hafa umsjón með alþjóðlegu friðargæsluliði í Bosníu og Hersegóvínu (Evrópusambandið tók við þessu hlutverki í desember 2004).
     *      Mars 1999. NATO gerir í fyrsta sinn beina innrás með loftárásunum á Júgóslavíu.
     *      Apríl 1999. Á leiðtogafundi NATO í Washington er friðargæslu og mannúðarhjálp bætt á hlutverkaskrá NATO.
     *      Maí 2002: Á utanríkisráðherrafundi NATO í Reykjavík er tekin ákvörðun um að nauðsynlegt sé að mæta og takast á við ógnanir við öryggi aðildarríkjanna, hvaðan sem þær stafa. (Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra kallaði þetta í skýrslu vorið 2004 „grundvallarbreytingu á afstöðu bandalagsins frá því sem verið hefur“.)
     *      Ágúst 2003: NATO tekur í fyrsta sinn að sér hlutverk utan þess svæðis sem á NATO- máli er kallað Evrópu-Atlantshafssvæðið. Þetta hlutverk er umsjón friðargæslu í Afganistan (ISAF).
    NATO hefur ekki enn komið að „friðargæslu“ í Írak, en árið 2004 var hins vegar ákveðið að NATO tæki að sér að aðstoða Írak við þjálfun öryggissveita sinna og jafnframt nýtur pólska herliðið, sem er í Írak, aðstoðar NATO.
    Í samræmi við ákvörðunina frá 1999 um friðargæslu og mannúðarhjálp sendi NATO hjálparsveitir til Pakistan eftir jarðskjálftana þar í október 2005 og sumarið 2005 hóf NATO friðargæslu í Darfúr að beiðni Afríku-bandalagsins. Rétt er að hafa í huga að Bandaríkin vinna markvisst að því að treysta stöðu sína á horni Afríku og hafa nýtt sér ástandið í Sómalíu í því skyni.
    Það hlýtur að vekja spurningar um hvers eðlis friðargæsla NATO er þegar hún kemur í kjölfar innrásar forysturíkis bandalagsins í viðkomandi landi (Afganistan), þess ríkis sem fer samkvæmt skipuriti bandalagsins með hernaðarlega stjórn þess, og felst í raun í að verja þá stjórn sem innrásarliðið kom upp í landinu (vegna ástandsins í landinu hafa kosningar í raun aðeins verið málamynda). Er þetta þá friðargæsla eða einfaldlega hernám? Getur virkilega verið að NATO sé ekki að ganga erinda Bandaríkjanna í Afganistan? Það er ekki síður umhugsunarvert að eftir innrás sína í Júgóslavíu tók NATO að sér í umboði Sameinuðu þjóðanna að sjá um öryggismál í Kósovó og hefur haft þar hátt í 20 þúsund manna „friðargæslulið“ (KFOR). Rétt er að geta þess að það sem fyrst og fremst var óaðgengilegt fyrir Júgóslavíu í Rambouillet-samningunum 1999 var krafan um hersetu NATO í Júgóslavíu.

Skipulagsbreytingar á NATO – skilvirkara hernaðartæki
    Í samræmi við þetta nýja hlutverk NATO hafa verið gerðar breytingar á innra skipulagi NATO til að gera það skilvirkara. Farið var að ræða þessar breytingar fljótlega eftir lok kalda stríðsins en eftir 11. september 2001 var farið að drífa í þeim. Bandarískum stjórnvöldum þótti NATO ekki nógu skilvirkt tæki í hinum nýja veruleika. Það sem hér er einkum ástæða til að nefna eru hinar svokölluðu viðbragðssveitir (Nato Response Force – NRF) sem eiga að gera herafla NATO viðbragðsfljótari og nýtilegri í hernaðaraðgerðum. Áður var hlutverk NATO fyrst og fremst að samhæfa varnir og herafla NATO ríkjanna. Í þessu felst mjög mikilvæg breyting. Rétt er líka að minna á að kjarnorkuvopn eru enn sem áður hluti af viðbúnaði NATO, og gegn tillögum um kjarnorkuvopnalaust Ísland hefur verið bent á að það samræmist ekki aðildinni að NATO.

Samvinna NATO út á við – m.a. aukin samvinna við Ísrael
    Á undanförnum áratug hefur NATO lagt áherslu á aukna samvinnu út á við:
    Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace – PfP) hófst árið 1994 og í kjölfarið var sett á fót Evró-Atlantshafsráðið (EAPC) sem er samráðsvettvangur 46 ríkja, þ.e. NATO-ríkjanna og annarra ríkja í Evrópu og á svæði fyrrum Sovétríkjanna. Stefnt er að því að styrkja tengslin við Kákasus-svæðið og Mið-Asíu, sem og Norður-Afríku og Miðausturlönd. Rétt er að geta þess að með Samstarfi í þágu friðar er ýtt undir frekari vígbúnað en með svokölluðu Áætlanagerðar- og endurskoðunarferli eru þátttakendum settar kröfur um samhæfni og vígbúnað og er þeim hjálpað við að koma sér upp vígbúnaði í samræmi við það.
    Sama ár var einnig komið á laggirnar samráði við Miðjarðarhafsríki, Mediterranean Dialogue, en aðild að því eiga Alsír, Máritanía, Marokkó, Túnis, Egyptaland, Jórdanía og Ísrael.
    Á leiðtogafundinum í Istanbúl í júní 2004 var samþykktur nýr samráðsvettvangur með Istanbúl-samstarfsáætluninni (Istanbul Cooperation Initiative) og þar með frekari starfsemi NATO í Miðausturlöndum. Með því hefur verið komið á samstarfi við ýmis ríki við Persaflóann. Í umfjöllun í NATO-fréttum veturinn 2005, er komist svo að orði: „… nú má skipta stefnu NATO gagnvart Miðjarðarhafssvæðinu og nágrenni þess niður á þrjár stoðir, þ.e.a.s. Miðjarðarhafssamráðið, Istanbúl-samstarfsáætlunina og afskipti af Írak.“
    Í umfjöllun um samstarfsverkefni NATO í NATO-fréttum vorið 2004 segir svo um Miðjarðarhafssamráðið: „Í dag hefur landfræðilegt umfang öryggissamstarfs NATO og samráðsríkjanna stækkað til austurs, allt til Afganistan og jafnvel lengra. Hinni svonefndu „Clinton-nálgun“ gagnvart suður- og austur-Miðjarðarhafssvæðinu, þar sem áhersla var lögð á viðræður, samninga, byggingu trausts og efnahagslega hvatningu, hefur verið varpað fyrir róða og í staðinn tekin upp stefna sem felst meðal annars í hindrunaraðgerðum og íhlutun. Íhlutunarstefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum fylgir viðleitni til þess að breyta gildismati í þessum heimshluta og færa það nær lýðræðishugsun Vesturlanda.“
    Í kjölfar loftárásanna á Júgóslavíu ákvað leiðtogafundurinn í Washington 1999 að koma á laggirnar samstarfi í Suðaustur-Evrópu og kæmu að því öll ríki á svæðinu nema Júgóslavía, en henni yrði hleypt að þegar aðstæður leyfðu. Það hefur nú þegar verið gert eins kemur fram hér að framan.
    Þá hefur komið fram t.d. í máli þáverandi framkvæmdastjóra NATO, Jaap de Hoop Scheffer, og sendiherra Bandaríkjanna hjá NATO, Vaktar Nuland, áhugi á nánara samstarfi við ríki eins og Ástralíu, Nýja Sjálandi, Suður Kóreu eða Japan, og Aznar, fyrrum forsætisráðherra Spánar, lagði beinlínis til haustið 2005 að Ísrael, Japan og Ástralíu verði boðin aðild og tekið upp náið samstarf við Kólumbíu og Indland.
    Að undanförnu hafa tengsl milli NATO og Ísraels verið að styrkjast. Nánast engin tengsl voru þarna á milli þar til samráðshópnum við Miðjarðarhafið var komið á 1994. En árið 2001 varð Ísrael fyrst ríkja Miðjarðarhafssamráðsins til að undirrita samkomulag um öryggismál við NATO og í mars 2005 fór fyrsta sameiginlega heræfing Ísrael og NATO fram á hafinu undan ströndum Ísraels. Í maí 2005 fékk Ísrael aðild að þingmannasamkomu NATO og í júní tóku ísraelskar hersveitir þátt í heræfingum NATO bæði á Miðjarðarhafinu og í Úkraínu.
    Það hefur verið til umræðu að NATO taki þátt í friðarferlinu í deilu Palestínu og Ísraels og í NATO-fréttum veturinn 2005 var komist svo að orði að „álitsgjafar og sérfræðingar [hafa] bæði lagt til að NATO veiti Ísrael öryggistryggingu og að bandalagið gegni hlutverki í friðargæslu milli fullvalda palestínsks ríkis og Ísrael.“ Það virðist vera meðvitaður ásetningur í hinni nýju stefnu NATO að líta framhjá mótsögninni sem felst í því að taka að sér friðargæsluhlutverk á svæði þar sem bandalagið er í beinu bandalagi við annan aðila átakanna ef ekki sjálft beinlínis annar aðilinn.

Eftir hrun Sovétríkjanna: hnattvæðing kapítalismans og Bandaríkin sækjast eftir ítökum í Austur-Evrópu, Mið-Austurlöndum og Mið-Asíu
    Það þarf að hyggja að tvennu sem fer í gang eftir lok kaldastríðsins.
     Í fyrsta lagi hnattvæðingin: Eftir lok kalda stríðsins, þ.e.a.s. eftir að Sovétríkin og önnur kommúnistaríki austantjalds hrundu kringum 1990, varð til hugtakið „hin nýja heimsskipan“ (new world order). Það var líka þá sem hugtakið „alþjóðasamfélagið“ skaust inn í umræðuna en vilji þess er í raun dulnefni fyrir vilja Bandaríkjanna. Hin nýja heimskipan var kapítalískt alþjóðasamfélag á forsendum heimsvaldaríkjanna og auðstétt þeirra, einkum Evrópusambandsins, Japans og Bandaríkjanna og undir forystu þess síðastnefnda. Þetta er megininntak hnattvæðingarinnar. Alþjóðaviðskiptastofnuninn varð til til að setja reglur fyrir hið alþjóðlega kapítalíska efnahagskerfi og ryðja úr vegi þeim reglum sem einstök ríki höfðu sett og hindruðu frjálst fjármagnsflæði og óheft aðgengi stórfyrirtækjanna um allan heim. Allur heimurinn skyldi undirgangast hina nýju heimsskipan, sem var ekkert annað en kapítalismi án undantekninga. Þá fyrst yrði kominn tími fyrir friðsamlega sambúð ríkja.
    Í öðru lagi skapaðist með hruni Sovétríkjanna færi á því fyrir Bandaríkin og með samþykki og stundum stuðningi annarra heimsvaldasinnaðra ríkja að ná tökum á Austur-Evrópu, Mið-Asíu og Mið-Austurlöndum – með allri olíunni sem þar beið neðanjarðar. Austantjaldsríkin komu hvert af öðru yfir til NATO og Evrópusambandsins, yfir í hið kapítalíska samfélag. Serbíu/Júgóslavíu þurfti að tukta til og hernema Afganistan og Írak – og Íran.
    NATO er verkfæri í þessu ferli.

Fáein orð um loftárásirnar á Júgóslavíu 1999
21. apríl 2007

    Það er vert í lokin að hyggja aðeins nánar að innrásinni í Júgóslavíu 1999. Leifarnar af Júgóslavíu undir forsæti Milosevic þrjóskuðust við að ganga í hinn kapítalíska hnattvædda klúbb. Undir því yfirskini að þjóðarmorð væri í gangi í Kósóvó og að Milosevic vildi ekki ganga að þeim samningi sem var lagður fyrir hann í Rambouillet, samningi sem var í raun óaðgengilegur, var NATO látið grípa í taumana og hefja loftárásir á Júgóslavíu. Sagt var að þetta væri krafa „alþjóðasamfélagsins“. Staðreyndin var sú að veturinn 1998–99 var frekar friðsamlegt í Kósóvó og starf eftirlitssveita ÖSE gekk bara prýðilega þótt örðu sé oft haldið fram, það var ekkert þjóðarmorð í gangi, ekki einu sinni skipulegar þjóðernisofsóknir, og flóttamannastraumurinn hófst fyrst eftir að loftárásirnar byrjuðu. Enn eru forystumenn Samfylkingarinnar og fleiri kratar að réttlæta samþykki sitt við loftárásunum með þessari tilvísan, síðast Jón Baldvin Hannibalsson um síðustu helgi og taldi þetta til marks um ágæti NATO og hversu úrelt það væri að vera á móti því. Loftárásir NATO á Júgóslavíu er hins vegar skýrasta dæmið um subbulegt hlutverk NATO eftir lok kaldastríðsins. Og þá er líka rétt að geta um að á leiðtogafundinum í Washington í apríl 1999 var gefið grænt ljós á árásir á fjölmiðla og í kjölfarið voru gerðar árásir á sjónvarpsstöðina í Belgrad. Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson áttu þátt í þeirri ákvarðanatöku. Með því hafa þeir líklega gert sig seka um stríðsglæpi eins og Elías Davíðsson hefur leitt rök að.
Fylgiskjal II.


Sverrir Jakobsson:

Byrði hvíta mannsins og stríðsþátttaka Íslands.


(Skrifað 1. og 2. apríl. Hugrás – vefrit hugvísindasviðs.)I


    Sunnudaginn 27. mars 2011 samþykkti Atlantshafsbandalagið að taka við yfirstjórn hernaðaraðgerða í Líbýu. Með þessari samþykkt er Ísland enn á ný orðið aðili að styrjaldarátökum og hefðu fæstir getað spáð því fyrir um síðastliðin áramót. Orsakanna fyrir þessari þróun er að leita víða, ekki einungis í Líbýu, og gæti verið gagnlegt að rifja upp helstu vörður á þeirri leið. Frumforsenda þess að borgarastyrjöld braust út í Líbýu er almenn uppreisn í Arabaheiminum sem hófst skömmu eftir áramót. Í umfjöllun fjölmiðla er oftast nær fjallað um þessi lönd sem þjóðríki að evrópskri fyrirmynd. Sú nálgun segir þó ekki alla söguna. Lönd Norður- Afríku og Austurlanda nær hafa iðulega tilheyrt sömu ríkisheild og eiga þar afleiðandi sameiginlega sögu. Þau voru hluti af Rómarveldi, síðan tilheyrðu þau ríki kalífanna og að lokum réðu Ósmanar þar ríkjum í margar aldir.
    Þjóðríki Arabaheimsins urðu til á fyrri hluta 20. aldar þegar stórveldi Evrópu tóku að skipta á milli sín leifum Ósmanaríkisins. Bretar sölsuðu undir sig Egyptaland, Írak og Jórdaníu; Frakkar Sýrland og Líbanon en Ítalir lögðu undir sig Líbýu. Yfirráð Ítala hófust fyrir réttum 100 árum, árið 1911, þegar Ítalir hertóku héruðin Tripolitaniu, Fezzan og Cyrenaicu. Þeir beittu m.a. lofthernaði og mun það vera fyrsta dæmið um slíkt í mannkynssögunni. Árið 1934 sameinuðu Ítalir svo héruðin undir hinu forna rómverska heiti Líbýa. Landstjóri nýlendunnar var flugkappinn Italo Balbo, þá tiltölulega nýkominn frá opinberri heimsókn á Íslandi. Er stundum litið á hann sem föður Líbýu.
    Að undanförnu hefur alda mótmæla skekið nánast allan Arabaheiminn, sem fellur að mestu leyti saman við gamla Ósmanaríkið. Einungis harðsvíruðustu einræðisstjórnir, í Sádi- Arabíu og Marokkó, hafa náð að kæfa mótmælin í fæðingu. Upphaf mótmælanna var í Túnis þar sem einvaldi landsins, Ben Ali, var steypt í lok janúar. Næstur til að hrökklast frá völdum var einvaldur Egyptalands, Hosni Mubarak. Þessar stjórnarbyltingar voru afleiðing blóðugra mótmæla, en brotthvarf einvaldanna kom í veg fyrir harðari átök. Í þremur öðrum löndum, Jemen, Bahrain og Líbýu var mótmælendum hins vegar svarað með hörku. Hið sama er uppi á teningnum í Sýrlandi þar sem mótmælin hófust síðar, en þeirra hefur orðið vart víðar, t.d. í Alsír og Írak.
    Eitt af einkennum mótmælahreyfingarinnar í Arabaheiminum var að hún var sjálfsprottin og beindist ekki síst að þjóðarleiðtogum sem hafa verið dyggir bandamenn Vesturlanda. Það var því ekki óvænt að þau myndu reyna að grípa inn í þróunina og reyna að snúa henni sér í hag. Það gerðist þó ekki í Bahrain þar sem her Sádi-Arabíu réðst inn í landið og gerði uppreisnina þar með að milliríkjamáli. Grundvallarviðmið Vesturlanda virðist vera það sama og áður, að ekki megi styggja Sádí-Arabíu. Í Jemen vörðust stjórnvöld af mikilli hörku og fljótlega kom upp klofningur meðal fyrrverandi ráðamanna þar sem hluti þeirra gekk í lið uppreisnarmanna. En í Jemen er bandarísk flotastöð og greinilegt er að bandarísk stjórnvöld leggja allt kapp á að viðhalda stöðugleika í landinu, jafnvel þó að það hafi í för með sér áframhaldandi stjórn einvaldsins Abdullah Saleh, sem hefur verið þar við völd í 33 ár.
    Í Líbýu leiddust mótmælin hins vegar út í borgarastyrjöld þar sem uppreisnarmenn náðu yfirráðum yfir borginni Benghazi í Cyrenaicu. Augljóst er að fylgi þeirra er mest þar, í austurhluta landsins. Þar hefur styrkur islamista einnig verið mestur og Ghaddafi einvaldur Líbýu var fljótur að lýsa uppreisnina verk al-qaeda og gerði sér vonir um skilning af hálfu Vesturlanda. Hann var hins vegar þegar í stað harðlega gagnrýndur af nokkrum vestrænum ráðamönnum, m.a. Sarkozy Frakklandsforseta, Hague utanríkisráðherra Bretlands og Hilary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Sömu aðilar höfðu þó áður hvatt uppreisnarmenn í Túnis og Egyptalandi til að sýna stillingu og utanríkisráðherra Frakka hafði meira að segja boðið einvaldinum Ben Ali aðstoð Frakka við að bæla niður uppreisnina. En nú átti s.s. að reka af sér slyðruorðið.
    Í byrjun mars hóf stjórnarher Líbýu sókn gegn uppreisnarmönnum sem höfðu þá á valdi sínu flestar stærri borgir landsins. Þeir voru fljótlega hraktir þaðan nema í Cyrenaicu þar sem þeir héldu fótfestu. Ljóst er að hér skipti ættbálkaskipulag Líbýu miklu máli. Stærsti ættbálkur landsins, Warhalla, hafði upphaflega hallast á sveif með uppreisnarmönnum en ýmsir forystumenn hans lýstu nú yfir stuðningi við Ghaddafi. Þá þegar voru breskir leyniþjónustumenn komnir til Líbýu þar sem þeir voru handteknir af uppreisnarmönnum – tala bresk yfirvöld um „misskilning“ í því efni. Hinn 10. mars, eftir að stjórnarherinn hafði hertekið borgina Zawiyah, helsta vígi uppreisnarmanna í vesturhluta landsins, lýsti Frakklandsforseti því yfir að hann viðurkenndi stjórn uppreisnarmanna sem löglega stjórn landsins. Bandaríkjastjórn var þá hikandi, enda er ekki hægt að segja að hernám Bandaríkjanna á Afganistan og Írak hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt. Meðal bandarískra ráðamanna eru því margir sem eru staðráðnir í því að skuldbinda ekki Bandaríkin til enn eins hernaðarævintýris af þessu tagi og hefur Robert Gates varnarmálaráðherra verið helsti talsmaður þessa hóps.
    Hinn 12. mars fundaði Arababandalagið og lýsti yfir stuðningi við flugbann yfir Líbýu. Var þar komið tilefnið sem Frakkar og Bretar höfðu verið að leita að. Fundinn sóttu aðeins 11 af 22 aðildarríkjum bandalagsins og tvö þeirra, Alsír og Sýrland, voru raunar andvíg tillögunni. Um órofa samstöðu Arabaheimsins var því ekki að ræða. En þessi stuðningur var eflaust meginforsenda þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um flugbannið. Fimm ríki studdu þó ekki tillöguna (Þýskaland, Kína, Indland, Rússland og Brasilía), m.a. á þeim forsendum að hana mætti nota sem átyllu til hernaðaríhlutunar. Tvö ríki sem greiddu tillögunni atkvæði sitt (Suður-Afríka og Líbanon) hafa síðar lýst því yfir að þau hafi ekki litið svo á að með því væru þau að styðja loftárásir.
    Hinn 19. mars hófust svo loftárásir á Líbýu og tóku Frakkland og Bandaríkin strax forystuna í þeim hernaði. Þegar kom í ljós að þær aðgerðir nutu ekki stuðnings alþjóðasamfélagsins. Til viðbótar við þau ríki sem áður eru nefnd fordæmdu mörg Afríkuríki árásirnar og Afríkubandalagið hvatti til vopnahlés. Kemur þar ýmislegt til. Í fyrsta lagi hefur Líbýustjórn gert margt til að efla bandalagið og styðja við bakið á því fjárhagslega. Í öðru lagi hafði reiði uppreisnarmanna ekki síst beinst gegn svo kölluðum „málaliðum“ Ghaddafis en þeir koma einkum frá Afríkulöndum. T.d. var ráðist gegn Afríkumönnum í Benghazi og margir þeirra drepnir, undir því yfirskyni að þeir væru málaliðar. Í þriðja lagi hefur Afríkubandalagið unnið að tillögum til að sætta stríðandi fylkingar í Líbýu og gekkst fyrir ráðstefnu í því skyni. Eftir að loftárásirnar hófust mættu uppreisnarmenn hins vegar ekki að samningaborðinu. Kannski kom þó mest á óvart að framkvæmdastjóri Arababandalagsins dró í land með stuðning sinn við árásirnar og þrjú af fjórum Arabaríkjum sem höfðu lofað hernaðaraðstoð (konungsríkin Sádi-Arabía, Marokkó og Jórdanía) hafa enn ekki staðið við það loforð.
    Þeir ráðamenn á Vesturlöndum sem höfðu verið talsmenn loftárása sýndu strax með ummælum sínum að ætlunin væri að útvíkka upphaflegt markmið loftárásanna og steypa stjórninni í Tripoli af stóli. Hér á því að endurtaka leikinn frá Afghanistan og Írak. Um þetta hefur þó ekki náðst almenn samstaða og einkum hafa hershöfðingjarnir sem leiða árásirnar verið tregir til að lýsa yfir þessu markmiði. Ljóst er að engin samþykkt Sameinuðu þjóðanna né nokkur bókstafur í alþjóðalögum myndi geta réttlætt slíkt markmið.
    Loftárásirnar á Líbýu höfðu vernd almennra borgara að yfirvarpi. Reynslan sýnir hins vegar að lofthernaður eykur líkurnar á mannfalli meðal almennra borgara, auk þess sem að ekkert stríð hefur ennþá unnist á lofthernaði einum saman. Markmiðið fyrir því að beina hernaðaraðgerðum í þennan farveg virðist því að koma í veg fyrir mannfall af hálfu vestrænna hermanna en ekki almennings í Líbýu. Þegar í fyrstu vikunni sýndu skoðanakannanir að aðgerðirnar nutu lítils stuðnings almennings á Vesturlöndum. Meirihluti aðspurðra í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Rússlandi kvaðst andvígur þeim, en í Frakklandi er hins vegar stuðningur við þær. Enn hafa hernaðaraðilar útilokað landhernað en hafa nú opnað á vopnasölu til uppreisnarmanna. Ekki er nokkur leið að sjá að það myndi samræmast samþykkt öryggisráðsins um að stuðla að vernd almennra borgara.
    Eftir að loftárásirnar hafa staðið yfir í 14 daga hefur lítið breyst. Í upphafi sóttu uppreisnarmenn til vesturs og nutu þar loftverndar Vesturveldanna sem tóku þar með beina afstöðu með þeim í borgarastyrjöldinni. Þeir hafa hins vegar verið hraktir tilbaka aftur og ekkert útlit fyrir að þeir geti unnið hernaðarsigur án frekari aðstoðar. Átökin eru ekki í öllum tilvikum á milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna; dæmi eru um að óbreyttir borgarar hafi gripið til vopna til að verja sig gegn báðum þessum hópum. Hugsanleg niðurstaða gæti því orðið skipting Líbýu í fleiri en eitt ríki. Mannfall í átökunum hefur verið verulegt en þó eru allar tölur á reiki. Áberandi er viðleitni vestrænna fjölmiðla til að hunsa allar fréttir um mannfall óbreyttra borgara í Líbýu.

II


    Ísland varð ekki hluti af átökunum í Líbýu fyrr en NATO yfirtók stjórn hernaðaraðgerða sl. sunnudag. Þegar ályktun öryggisráðsins um loftferðabann var rædd í ríkisstjórn voru loftárásir t.d. ekki hafnar. Eigi að síður kom Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fram í fjölmiðlum og gaf í skyn að ríkisstjórn Íslands styddi loftárásirnar. Það var að sumu leyti óvænt afstaða þar sem flokkur hans, Samfylkingin, var andvíg innrásinni í Írak 2003 og þróun mála þar hefur sýnt að sú andstaða átti fullan rétt á sér. Á þeim tíma var jafnframt gagnrýnt að tveir menn hefðu ákveðið stuðning Íslands við stríð, en núna virtist utanríkisráðherra ætla að gera það einn síns liðs. Samstarfsflokkur Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, Vinstrihreyfingin-græn, brást seint við en miðvikudaginn 23. mars kom þó fram, af hálfu formanns flokksins, að stuðningur við loftárásir hefði hvorki verið ræddur né samþykktur í ríkisstjórn. Hinn 25. mars samþykkti svo stjórn vinstrigrænna ályktun þar sem samþykkt var andstaða við loftárásirnar. Aðrir flokkar hafa enn ekki séð ástæðu til að álykta um loftárásirnar eða halda einn einasta fund af því tilefni. Þó er margt sem stjórnmálaflokkar sem vilja hafa trúverðuga utanríkisstefnu þurfa að taka afstöðu til; t.d. hvort ályktun um flugbann hafi átt rétt á sér, hvort loftárásirnar séu í samræmi við ályktunina og hvort rétt sé að leggja út í hernaðaraðgerðir með jafn óljós markmið að leiðarljósi.
    Á fundi NATO 27. mars var því utanríkisráðherra meðvitaður um að annar ríkisstjórnarflokkurinn styddi ekki hernaðaraðgerðir en samþykkti eigi að síður aðild NATO að þeim. Það var raunar á nýjum forsendum þar sem haft var eftir utanríkisráðherra: „Einstök lönd sem höfðu þegar hafið aðgerðir höfðu, að mínu mati, farið út fyrir umboðið sem ályktun öryggisráðsins veitti og þess vegna tel ég að yfirtaka NATO á samræmingu aðgerða tryggi að þær verði algjörlega innan marka öryggisráðsins.“ Ef marka má þetta þá mun Ísland nú stilla sér við hlið þeirra NATO-ríkja sem vilja halda aftur af loftárásum, en þar fara fremst í flokki Tyrkland og Þýskaland. Á Íslandi hefur þó lítil umræða átt sér stað um ólýðræðislegar forsendur hins upphaflega stuðnings við loftárásirnar og engin um stefnubreytingu utanríkisráðherra sem er þó ótvíræð framför. Fréttir af umræðum á alþingi benda raunar til að alþingismenn hafi hvorki kynnt sér umræðu um þetta stríð erlendis né skilji hvernig aðild Íslands að málinu er háttað.
    Sú staðreynd að fulltrúi frá herlausu landi situr á fundum erlendis og tekur ákvarðanir um það hvort hermenn frá öðru landi eigi að varpa sprengjum á þriðja landið vekur óneitanlega upp spurningar um erindi Íslands í NATO. Hernaðarbandalagið hefur fyrir löngu breyst úr því sem það taldi sig vera á árum kalda stríðsins, bandalag um sameiginlegar varnir aðildarríkja. Þess í stað er það orðið að hernaðarverktaka, klúbbi helstu vopnavelda heims, sem tekur að sér hernað gegn löndum sem ógna ekki öryggi aðildarríkjanna á neinn hátt. Loftárásir á Júgóslavíu og Líbýu tengjast ekki landvörnum Íslands með neinum hætti, hvorki beinum né óbeinum. Þessi þversögn blasir við en hinn pólitíski meirihluti á Íslandi hefur kosið að takast ekki á við hana heldur að sniðganga hana í lengstu lög; með sama hætti og íslenskum ráðamenn horfðust ekki heldur í auga við þann veruleika að herstöðin á Miðnesheiði var úrelt og einungis spurning um tíma hvenær hún yrði lögð niður. Tregða íslenskra ráðamanna til að læra þar af sögunni er sambærileg við tregðu þeirra erlendu ríkisstjórna sem studdu stríð gegn Afghanistan 2001 og Írak 2003, en halda að Líbýa árið 2011 verði einhvern veginn allt öðruvísi.
    Í fjölmiðlaumræðu hafa loftárásirnar verið varðar með þeim rökum að þjóðarmorð hafi verið í uppsiglingu. Iðulega er þá vísað í fordæmi frá 10. áratugnum, úr borgarastyrjöldum í Bosníu og Rwanda til að réttlæta íhlutun (á meðan lærdómurinn frá Afghanistan og Írak ætti að vera öllu nærtækari). Á bak við liggur krafa um að Vesturlönd eigi að beita hernaðarmætti sínum til að stilla til friðar í heiminum og þá jafnframt óbein réttlæting fyrir þau að viðhalda gríðarlegum hernaðaryfirburðum auðugustu þjóða heims. Rökin fyrir vestrænni íhlutunarstefnu eru hins vegar hæpin, ekki einungis vegna þess að þau sögulegu dæmi sem oft eru tekin sanna ekki það sem þeim er ætlað að sanna. Hún snýst fyrst og fremst um það að sá sterkasti eigi að ráða; að réttlæti í heiminum eigi að spretta úr byssuhlaupi þess sem á öflugustu vopnin.
    Loftárásir Vesturlanda á Líbýu eru vanhugsuð hernaðaraðgerð. Átyllan er sú að vernda eigi óbreytta borgara en loftárásir auka óhjákvæmilega hættuna á mannfalli meðal þeirra. Tvískinnungurinn er augljós gagnvart því sem er að gerast í Líbýu annars vegar og hins vegar ástandinu í Jemen, Bahrain og Sýrlandi. Forsendur þeirra Sarkozys og Camerons, aðalhvatamanna loftárásanna, eru óljósar en ljóst er að Bandaríkjastjórn er efins um framhaldið. Almenningur á Vesturlöndum styður ekki loftárásir og virðist tilbúnari til að læra af reynslunni frá Írak heldur en vestrænar ríkisstjórnir. Meginforsenda aðgerðanna virðist vera tilraun Vesturlanda til að ná stjórn á lýðræðisbyltingunni í Arabaheiminum og beina henni á braut sem hentar þeim. Afleiðingin er hins vegar sú að umsetnar ríkisstjórnir í Bahrain, Jemen og Sýrlandi hafa aukið hörku gegn mótmælendum á meðan umheimurinn er upptekinn af Líbýu. Á endanum snýst stríðið um þá grundvallarstaðreynd að Vesturlönd hafa komið sér upp miklu vopnabúri og þau hafa einnig selt ríkisstjórn Líbýu mikið af vopnum. Öðru hvoru þarf að finna átyllu til að nota vopnin.