Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 875. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1642  —  875. mál.
Tillaga til þingsályktunarum sameiningu háskólastofnana og rekstur tveggja öflugra háskóla.

Flm.: Baldur Þórhallsson, Valgerður Bjarnadóttir, Björgvin G. Sigurðsson,


Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stórefla rannsóknir og kennslu á háskólastigi með því að stuðla að sameiningu háskóla landsins. Fjárlög fyrir árið 2012 taki mið af því að fé verði veitt til reksturs tveggja öflugra háskóla. Þannig verði starfræktar tvær vísindastofnanir á landinu með nokkrar starfsstöðvar sem hafi getu til að vinna að rannsóknum og bjóða upp á háskólakennslu eins og best gerist í heiminum. Verkefni háskólanna er að koma sér saman um hvernig sameiningu þeirra er best háttað.

Greinargerð.

    Á undanförnum árum hefur nokkur árangur náðst í sameiningu rannsóknastofnana á landinu en á sama tíma hefur háskólum fjölgað. Á árunum 1997–2007 urðu fimm nýjar stofnanir að háskólum og tvær til viðbótar hófu kennslu á háskólastigi. Formlegt samstarf þessara háskóla er mjög takmarkað. Þrjár atrennur voru gerðar til sameiningar. Einungis ein þeirra gekk eftir.
    Þrjár skýrslur voru unnar árið 2009 sem allar nefna kosti þess að sameina háskólana, þ.e. skýrsla erlendrar sérfræðinefndar (Education, Research and Innovation policy: A new direction for Iceland), skýrsla verkefnisstjórnar vísinda- og háskólamála og skýrsla rýnihóps menntamálaráðherra um aðgerðir í háskóla- og vísindamálum. Erlenda sérfræðinefndin mælir sérstaklega með rekstri tveggja háskóla á landinu og rekur kosti þess fyrirkomulags.
    Samvinna háskólanna er mikilvæg en sameining er miklu betri kostur hvort sem litið er til vísindastarfs eða háskólakennslu. Einnig getur umtalsverður sparnaður falist í sameiningu.
Aukið samstarf opinberra háskóla sem verið er að vinna að er vissulega mikilvægt og skref í rétta átt eins og sá rammasamningur um samstarf í stoðþjónustu sem undirritaður var 9. maí sl. ber vott um. Fyrirkomulag núverandi samstarfsvettvangs opinberra háskóla leggur hins vegar ekki grunninn að sameiningu háskólanna á næstu missirum. Innan samstarfsvettvangsins er eingöngu rætt um samvinnu á afmörkuðum sviðum. Þar er ekki rætt um sameiningu háskólanna.
    Sameining háskólastofnana er það viðkvæmt mál að frumkvæðið verður að koma frá Alþingi. Háskólar eiga að vera akademískar stofnanir. Akademísk stofnun skapar vettvang fyrir samræður vísindamanna innbyrðis og samræður vísindamanna við stúdenta. Grunnur öflugs vísindasamstarfs eru stærri háskólar þar sem akademísk umræða að hætti Sókratesar getur farið fram í krafti fjölda vísindamanna og getu til að stunda umfangsmiklar alþjóðlegar rannsóknir.