Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 17:35:43 (3982)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem er á þskj. 306, 278. mál þessa þings.

Megintilgangur þessa frumvarps er að bregðast við athugasemdum frá svonefndu FATF-fyrirbæri, sem hefur á enskunni langan titil, ef forseti leyfir mér að lesa: Financial Action Task Force on Measures against Money Laundering and Terrorist Financing, skammstafað FATF. Þetta er alþjóðlegur framkvæmdahópur sem vinnur að aðgerðum er miða að því að koma í veg fyrir að fjármálakerfi séu notuð til að þvætta fé og fjármagna hryðjuverk.

Ísland gekk til þessa samstarfs haustið 1991 og er því skuldbundið til að samræma löggjöf sína og starfsreglur að tilmælum FATF. Starf þessa alþjóðlega framkvæmdahóps og tilmæli hans hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa reyndar tilskipanir Evrópusambandsins þessu tengdar verið samræmdar tilmælunum þannig að um eitt og hið sama er að ræða.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og miða að því að uppfylla þessi tilmæli varða raunverulegan eiganda að baki viðskiptum eða starfsemi. Lagt er til að tilkynningarskyldir aðilar verði skyldaðir til að leita ávallt upplýsinga um hver sé raunverulegur eigandi í hverju tilviki fyrir sig auk þess sem lagt er til að skilgreining laganna á raunverulegum eiganda verði bætt í þeim tilgangi að víkka út gildissvið hennar.

Þá er lögð til sú breyting á viðurlagaákvæði laganna að heimilt verði að beita framkvæmdastjóra eða aðra aðila sem stjórna daglegum rekstri lögaðila viðurlögum. Einnig er með frumvarpinu lagt til að skilgreint verði sérstaklega hvaða skilríki geta talist vera viðurkennd persónuskilríki í skilningi 5. gr. laganna.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu hafa undanfarið borist ábendingar frá fjármálafyrirtækjum um að æskilegt sé að tekinn verði af allur vafi um að rafræn skilríki geti talist vera gild persónuskilríki samkvæmt ákvæðinu og því er lagt til að rafræn skilríki af háu öryggisstigi skuli falla þar undir.

Loks eru lagðar til smávægilegar breytingar vegna laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, sem samþykkt voru í september 2011.

Þetta er meginefni þessa litla frumvarps, frú forseti, og ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.