Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 17:38:53 (3983)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi til að byrja með spyrja hæstv. ráðherra út í 2. gr., b-lið.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Viðurkennd persónuskilríki: Gild persónuskilríki sem gefin eru út af stjórnvöldum eða eru viðurkennd af stjórnvöldum. Til gildra persónuskilríkja skulu teljast vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands og rafræn skilríki sem innihalda fullgild rafræn vottorð sem varðveitt eru á öruggum undirskriftarbúnaði, sbr. III. og IV. kafla laga um rafrænar undirskriftir.“

Eftir því sem ég best veit hafa menn þurft að framvísa persónuskilríkjum áður en þegar maður fer yfir þetta veltir maður því fyrir sér hvaða persónuskilríki voru notuð áður ef það þarf að taka þetta sérstaklega fram. Ég hafði í það minnsta ekki hugmyndaflug til að ímynda mér einhver önnur skilríki og kannski hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um það í hverju breytingin felst.