Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 17:40:06 (3984)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Ég vona að ég geti svalað fróðleiksþorsta hv. þingmanns í þessu tilviki. Ég skil þetta þannig að það sem við bætist hér séu viðurkennd rafræn skilríki af háum gæðaflokki. Það þarf varla að velkjast í vafa um að menn hafa viðurkennt áður helstu skilríki sem almennt eru tekin gild eins og vegabréf, nafnskírteini og önnur slík viðurkennd opinber skilríki. En það hefur sem sagt leikið vafi á eða menn vilja taka af allan vafa um það að viðurkennd rafræn skilríki, sem eru þannig úr garði gerð að þau eru áreiðanleg og ekki þarf að veljast í vafa um að viðkomandi sé sá sem hann segist vera við framvísun þeirra, séu gild persónuskilríki. Við þekkjum hvernig um það er búið í rafrænum skilríkjum, samanber rafrænar undirskriftir með kortum sem staðfesta hver viðkomandi er, að þau skuli sömuleiðis teljast til slíkra viðurkenndra skilríkja þegar þarf að sannreyna að aðili sé sá sem hann hefur gefið upp að hann sé. Þetta tengist að sjálfsögðu rekjanleika í viðskiptum þar sem grunur kann að vera uppi um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, þá þarf að liggja ljóst fyrir hvað séu viðurkennd skilríki. Með þessu frumvarpi er verið að ganga betur frá því að þessu leyti á grundvelli ábendinga frá fjármálafyrirtækjum, að rafræn skilríki af þessum gæðum skuli teljast þar með.