Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 17:45:22 (3987)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd munum senda málið út til umsagnar milli umræðna og leita eftir viðbrögðum. Þetta er ákaflega mikilvægt málasvið og mikilvægt að við fylgjum alþjóðlegri þróun og þróum löggjöf okkar hratt og vel því að það eru sannarlega stundaðir stórfelldir glæpir sem eru alþjóðlega á þessu sviði og margir eru með mikla færni í því að finna nýjar og nýjar leiðir og mikla fjármuni til þess að kosta þróun nýrra leiða. Þess vegna er nauðsynlegt að mæta því jafnharðan í þróun löggjafarinnar. Við þekkjum þá umræðu sem fram fór í tengslum ógæfu okkar í efnahagsmálum, áhyggjur manna af því að hér væri slík starfsemi stunduð og mikilvægi þess að girða fyrir hana og alla þá spillingu sem henni fylgir.

Það hittist vel á að ekki eru of mörg stjórnarmálefni í efnahags- og viðskiptanefnd nú þegar nýr efnahags- og viðskiptaráðherra kemur til starfa. Ég bind þess vegna vonir við að takast megi á tiltölulega skömmum tíma að fjalla um málið og taka það síðan til 2. umr. og efnislegrar umfjöllunar að nokkrum vikum liðnum.