Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 18:07:51 (3994)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[18:07]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög áhugaverð ábending að kannski ætti að hafa Persónuvernd með eða talsmenn slíkra sjónarmiða. Ég geri ekki lítið úr því sem hv. þingmaður nefnir að auðvitað þarf líka að gæta þeirra sjónarmiða um leið og menn vilja, geta lagt sitt af mörkum og fylgst með því hvort einhver hætta sé á því að ólögleg starfsemi af þessum toga eigi sér stað. En það verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið. Menn verða að gera það upp við sig hvort þeir ætla þá að sinna einhverju slíku eftirliti, fylgjast með hlutum, geta rakið færslur o.s.frv. ef einhver ástæða kemur upp til að gera slíkt, en um leið er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að rjúfa ekki friðhelgi einkalífs og brjóta ekki eðlileg persónuverndarsjónarmið.

Ég hef á köflum verið frekar hallur á þá hliðina að menn hafi jafnvel farið offari á köflum, þó sennilega frekar í aðgerðum til að stemma stigu við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, þ.e. að í gegnum flokkun samtaka og svartlistun einstaklinga hafi í sumum tilvikum verið gengið ansi langt í mesta hita leiksins þegar menn voru hvað uppteknastir af því á síðastliðnum 10–15 árum eða 5–10 árum að herða baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi. Evrópuráðið hefur fjallað dálítið um þau mál á köflum og verið þeirrar skoðunar að menn hafi gengið fulllangt því að það er mjög alvarleg gjörð að frysta eigur manna og loka fyrir greiðslukort þeirra o.s.frv. á grundvelli þess eins að þeir hafi lent inn á svörtum lista sem búinn er til á grunni mismunandi góðra upplýsinga. Að sjálfsögðu eru þau sjónarmið þarna líka og ber að gæta að þeim og mér finnst sjálfsagt mál að hv. þingmenn skoði það. Ef það verður niðurstaða manna að til greina komi að Persónuvernd geti átt erindi inn í starfið (Forseti hringir.) skal ég ekki leggjast gegn því.