140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 54/2010 um breytingar á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

352. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XVIII. viðauka um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna við EES-samninginn.

Fram kemur í tillögunni að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, sem áðan var greint frá, frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn.

Hv. utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið á fundum sínum og fengið á sinn fund nokkra aðila. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta þessa ákvörðun. Er markmið hennar að tryggja með skýrari hætti en áður var gert rétt launafólks til upplýsinga og samráðs vegna starfsemi sem fram fer í fleiri en einu aðildarríki og þar sem fleiri en 1.000 manns starfa.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp hæstv. velferðarráðherra um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999, fjalla um það efni. Eftir framlagningu kemur frumvarpið að líkindum til umfjöllunar í velferðarnefnd.

Nefndin fjallaði, eins og áður sagði, um málið á sínum fundum og var það samþykkt samhljóða af hv. þingmönnum Árna Þór Sigurðssyni, formanni nefndarinnar, Gunnari Braga Sveinssyni. Illuga Gunnarssyni, Merði Árnasyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni og Þuríði Backman.

Fjarverandi voru hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Hér er lagt til að tillagan verði samþykkt.