Ný reglugerð um sorpbrennslur

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 13:36:48 (6578)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

ný reglugerð um sorpbrennslur.

[13:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Eins og fyrirspyrjandi rakti ágætlega er það svo sem ekki nýtt mál sem um hér ræðir eins og sumir vilja vera láta, það er ekki eins og það komi eins og þruma úr heiðskíru lofti því að þegar á fyrstu dögum ársins 2011 kom tillaga frá Umhverfisstofnun um að fella þessi sérákvæði niður í ljósi þeirrar umræðu og þeirra vangaveltna sem þá voru uppi í tengslum við díoxínmengun. Á þeim fundi sátu fulltrúar bæði frá sorpbrennslustöðvunum á Klaustri og í Vestmannaeyjum með forstjóra Umhverfisstofnunar. Forstjóri Umhverfisstofnunar gerði grein fyrir því að hann hefði lagt þetta til við ráðherra á þeim tíma.

En varðandi heildarsýnina á málið, sem er gríðarlega mikilvæg, að við horfum ekki bara á hvern stað fyrir sig, setjum við bráðlega í fyrsta skipti fram heildstæða landsáætlun um málefni sem varðar meðhöndlun úrgangs í landinu. Í þeirri áætlun höfum við, þ.e. stjórnvöld á landsvísu, ekki skoðun á fjölda sorpbrennslustaða eða urðunarstaða, en með auknum kröfum um að urðunarstaðir uppfylli allar reglugerðir um urðun og að brennslustöðvar uppfylli reglugerðir um brennslu er ljóst að urðunarstaðir munu stækka og ófullkomnar sorpbrennslur munu leggjast af. Það er hluti af þróun sem felur í sér metnað í þessum efnum.

Lögð er áhersla á að taka í auknum mæli efnisflokka út úr hefðbundnu förgunarferli. Við leggjum áherslu á að til að mynda lífrænn úrgangur fari í sérstakan farveg og að annað sem hægt er að koma í endurvinnslu fari í þann farveg. Það er heildarmarkmið að draga skipulega úr myndun úrgangsefna, koma þeim úrgangi sem myndast í endurnotkun og endurnýtingu og að nauðsynlegri förgun verði háttað þannig að hún nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem allra skemmstum tíma. Það er heildarviðfangsefnið. Við gerð þessarar landsáætlunar er miðað við forgangsröðun sem tekur mið af þeirri heildarsýn, þ.e. að allt sé undir, (Forseti hringir.) meðal annars að ófullkomnar sorpbrennslustöðvar heyri sögunni til.