Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 15:32:17 (6627)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:32]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til að halda því fram að þetta séu skynsamlegar ráðstafanir sem hér er verið að grípa til, enda hefur verið unnið í þeim anda allt frá því hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sat í stóli samgönguráðherra. Það var unnið í anda þessarar hugmyndafræði þegar samfylkingarmaður var í stóli samgönguráðherra og áfram er unnið í þessum anda nú þegar þingmaður Vinstri grænna er í stóli innanríkisráðherra. Væntanlega, ef til þess kæmi að framsóknarþingmaður yrði innanríkisráðherra, yrði örugglega unnið í þessum sama (VigH: Passaðu upp á þinn flokk.) anda þó að ólíklegt sé að til þess komi.

Þess vegna finnst mér ástæða til að koma hingað upp vegna þess að hér er mikið skynsemismál á ferðinni. Það er verið að sameina þekkingu á framkvæmdasviði samgöngumála, sem í grunninn eru sömu efnistökin ef svo má að orði komast, og sameinaða þekkingu og aðgerðir á sviði stjórnsýsluhluta samgöngumála. Þess vegna er skynsamlegt að gera þetta á þennan hátt.

Þegar menn vitna til þess að ekki hafi verið horft til úttektar Ríkisendurskoðunar og tekið nógu mikið tillit til kostnaðar eða kostnaðarauka verður að halda því til haga að hér er jafnframt verið að fara að ráðleggingum Ríkisendurskoðunar sem fór í gegnum rekstur þessara stofnana og skoðaði það sérstaklega. Þar að auki hefur komið í ljós að þó svo að kostnaður aukist á fyrstu árum eftir sameiningu er yfirleitt alltaf um sparnað að ræða þegar til lengri tíma er litið. (VigH: Rangt.) Það er það sem máli skiptir í þessu máli. (VigH: Kratavæðing.)