Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 15:34:09 (6628)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þm. Róbert Marshall hafi rétt fyrir sér. Mér finnst hins vegar töluvert skorta á að sýnt hafi verið fram á það með sannfærandi hætti á vettvangi þingsins að þau áform um hagræðingu og sparnað sem hér er lagt upp með séu líkleg til að skila árangri. Ég held að í sjálfu sér sé ekki grundvallarágreiningur um þá meginstefnu frumvarpsins að fækka stofnunum á þessu sviði. Ég held ekki. Mér hefur heyrst í umræðum, bæði síðasta vetur og í vetur, að ágætissamstaða sé um ákveðin meginmarkmið í þessu sambandi. Menn hafa hins vegar áhyggjur af útfærslunni, að lagt sé upp í þennan leiðangur án þess að búið sé að tryggja að þau góðu markmið sem að er stefnt geti náðst. Það eru slíkir þættir sem ég vil vekja athygli á í þessari umræðu, en ekki að deila í sjálfu sér um þá meginstefnu frumvarpsins að við getum fækkað stofnunum á sviði samgöngumála.