Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 16:17:56 (6635)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[16:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í umræðu síðustu tveggja hv. þingmanna áður en ég byrja ræðu mína. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að við hefðum átt að nýta tímann í sumar til að skoða, eins og klárlega kemur fram í nefndarálitinu sem var lagt fram í maí á síðasta ári af þáverandi meiri hluta samgöngunefndar, þá vörðuðu leið sem þar er sett fram og vitnað er til svokallaðrar Gíslanefndar eða skýrslu sem var unnin fyrir samgönguráðuneytið á sínum tíma um frekari sameiningar en rætt er um hér. Ég tek líka heils hugar undir það að þá hefðum við skoðað þann möguleika sem hv. þingmaður viðraði í ræðu sinni um að skoða það sérstaklega að hafa haf- og strandsvæðin í sérstofnun. Ég þarf ekki að þylja upp þau rök sem hv. þingmaður fór yfir til að ná utan um það hvað það varðar, hvort heldur sem snýr að auðlindamálum, umhverfismálum, mengunarmálum eða öðru. Ég er því þeirrar skoðunar að við eigum að ganga lengra í sameiningum.

Við ræðum hér um samgöngustofnanirnar tvær, annars vegar Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og hins vegar Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála. Þær stofnanir verða reistar á grunni fjögurra núverandi stofnana. Ég hef miklar efasemdir um að fara í þessar sameiningar. Það er ekki vegna þess að ég sé á móti sameiningu stofnana, ég er alls ekki á móti því, en ég held hins vegar og það er mín bjargfasta trú og skoðun að skynsamlegra sé að fara aðrar leiðir en þær sem hér er lagt upp með.

Það hefur komið fram í umræðunni og við þekkjum það í gegnum tíðina að þegar verið er að ræða um sameiningu stofnana er fyrirséð, og það sjá allir, að á fyrstu árum sameiningarinnar mun hagræðingin ekki koma fram strax heldur kemur hún fram á seinni stigum eða seinni árum. Skýrsla frá Ríkisendurskoðun segir einmitt að í 85% tilvika hafi þetta ekki gengið eftir og það sé vegna þess að undirbúningurinn sé ekki nægilega góður í stærstum dráttum.

Við þekkjum líka þær eftiráskýringar, ef ég má orða það svo, að ef hagræðingin hafi ekki náð fram að ganga sé þjónustustigið betra. Þetta eru svona þær eftiráskýringar sem heyrast oft. Við erum með nýleg mál sem ég ætla að fara yfir á eftir sem benda akkúrat í þá veru að við höfum því miður allt of lítið lært og ekki tekið tillit til ábendinga frá til dæmis Ríkisendurskoðun um hvernig við eigum að standa að sameiningu stofnana áður en farið er af stað.

Ég velti þeirri spurningu upp að þegar verið er að fara í sameiningu stofnana eru hafðar rýmri fjárheimildir á fyrstu árum til að mæta þeim einskiptiskostnaði sem er alveg fyrirséður og ekki neinar deilur um það, þetta kæmi fram eftir fjögur eða fimm ár — en mætti þá ekki velta þeirri spurningu upp hvort ekki væri sjálfsagt að fara fram á eðlilegar hagræðingarkröfur í þeim stofnunum sem um ræðir og nota kannski frekar þennan stofnkostnað eða einskiptisaðgerð til þess að hlífa velferðarkerfinu. Það mætti líka taka þá umræðu í staðinn fyrir að segja: Hagræðingin mun bara koma seinna, þá verðum við vonandi farin að rétta úr kútnum. Það er hægt að fara mjög djúpt í þessa umræðu.

Það sem ég hef efasemdir um — ég er ekki með fullyrðingar, ég hef engar forsendur til að fullyrða að þessi hagræðing muni ekki ganga eftir en ég hef mikinn fyrirvara á því. Ég fór yfir það í andsvörum við hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur áðan að þau gögn sem liggja að baki því að sú hagræðing náist fram, sem talað er um í frumvarpinu og er í raun og veru markmiðið að ná, hefur þingið í þessu tilfelli ekki skoðað og rýnt nægilega vel og ekki yfir höfuð skoðað. Frá ráðuneytinu komu upplýsingar um, eins og kemur fram í textanum, að spara megi 50% í yfirstjórnunarkostnaði, sem lækkar um 11% í heildarkostnaðinum. Ég er ekki að halda því fram að ráðuneytið hafi ekki rétt fyrir sér, en af hverju get ég ekki fengið að sjá gögnin? Það er ég sem þarf að taka ákvörðun eins og aðrir hv. þingmenn. Hvers vegna fáum við ekki að rýna gögnin? Hvers vegna fáum við ekki að meta og skoða hvar í raun og veru hagræðingin og sparnaðurinn á að eiga sér stað? Hér er bara almennur texti. Ef ég má, með leyfi forseta, vitna í textann þá stendur orðrétt þar:

„Þó að ávallt sé álitaefni hvaða forsendur skuli notaðar við mat á mögulegri hagræðingu, bendir framangreind greining til þess að ekki sé óvarlegt að áætla að möguleikar á beinni innri hagræðingu við myndun Farsýslunnar séu a.m.k. 10–15% af rekstrargjöldum.“

Þessi texti er skrifaður inn í frumvarpið. Þetta er forsendan fyrir því að menn ætla að fara að fækka stofnunum og sameina stofnanir. En ég vek athygli á því að í sama frumvarpi er annar texti sem kveikir enn fleiri viðvörunarljós gagnvart þessum hluta. Þar kemur fram, af því nú er verið að búa til tvær stofnanir, og orðrétt segir: „Ekki liggur þó fyrir áætlun um það hvernig hagræðingin muni skiptast á milli Farsýslunnar og Vegagerðarinnar.“ Þá hljóta spurningar að vakna þegar ekki liggur fyrir, ef ætlunin er að spara um 10–11% í heildarhagræðingu með því að fara þessar breytingar og búa til tvær stofnanir, hversu mikið og hvernig hvor stofnun á að spara. Þetta hlýtur að gera kröfu til hv. þingmanna og hv. umhverfis- og samgöngunefndar að skoða þessa hluti frekar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að markmiðin eru oft göfug þegar menn tala um að með faglegu starfi verði betri þjónusta. En þá bendi ég á og ætla ekki að hafa langa ræðu um það að miklar efasemdir eru nefnilega um það líka að það muni ganga eftir. Það er nefnilega svo. Það er ekki sjálfgefið að menn geti hlaupið í skjól og sagt: Það spöruðust ekki peningar en þjónustan er auðvitað betri, markvissari og skynsamlegri. — Við verðum að staldra aðeins við, virðulegi forseti.

Fram kom á fundi hv. samgöngunefndar hinnar fyrri, sem ég átti sæti í og tók þátt í að fjalla um málið þá þó að ég eigi ekki sæti í umhverfis- og samgöngunefnd núna, að bara hjá einni stofnuninni er 200 millj. kr. biðlaunaréttur. 200 milljónir í biðlaunarétt hjá einni stofnun af þessum fjórum. Ég velti fyrir mér hvort þetta allt sé tekið inn eða hvort eftiráskýringar komi þegar hagræðing gengur ekki eftir.

Af hverju skyldi ég hafa svona miklar efasemdir um þetta? Ég ítreka að ég er ekki með fullyrðingar um neitt en ég vil undirstrika eitt við síðustu sameiningu sem gerð var með sameiningu ráðuneytanna. Við munum öll eftir því. Af mörgum hverjum þóttu það nú vönduð vinnubrögð í stjórnarmeirihlutanum sem talaði fyrir þeirri sameiningu og þeirri vinnu. En það var auðvitað ekki þannig og það vissu allir. Þetta var ákveðið með skömmum fyrirvara, hent út á örfáum vikum og ráðuneytin látin sameinast. Ég tel reyndar að það hafi verið kraftaverk hjá því ágæta fólki sem starfar í ráðuneytunum að hafa þó komið því til leiðar.

Eitt af því sem gert var í þeirri vegferð var að sameina tvö ráðuneyti, þ.e. innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið. Við munum að þegar það var gert fengu þessi tvö ráðuneyti minni niðurskurð á sumum stöðum, eins og á aðalskrifstofunum, til þess einmitt að bregðast við þeim einskiptiskostnaði sem er viðurkenndur og allir gera sér grein fyrir. Á fundi fyrir hálfum mánuði í hv. fjárlaganefnd gerði fulltrúi frá fjármálaráðuneytinu grein fyrir þeim veikleikum sem voru í fjárlögum 2011 og væntanlega í fjárlögum 2012. Þá kom eitt áhugavert dæmi upp, það er aðalskrifstofa velferðarráðuneytisins. Hún var sem sagt neikvæð á síðasta ári, 2011, um 46 milljónir. Það stefnir í sama á þessu ári, samt var forsendan fyrir hagræðingunni sú að auðvitað hefði stjórnsýslan og framkvæmdarvaldið þann vilja að geta sjálft tekið til í eigin ranni áður en ætlast er til að aðrir fari að gera það. En hver er síðan niðurstaðan? Niðurstaðan er aukin fjárútlát. Það er niðurstaðan í þessu tilfelli.

Við skulum því fara hægt og vera ekki með miklar fullyrðingar um hvort þetta muni ganga eftir. Ég tel það bara vera eðlilega kröfu til þingsins og hv. þingmanna sem ætla að greiða atkvæði um þetta mál, hvort sem það er þetta eða eitthvað annað, að menn vandi vinnubrögðin. Ekki er vanþörf á því að ekki er um það deilt, alla vega ekki mikið í þinginu, að brýnasta verkefni okkar er að ná tökum á ríkisfjármálum. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, án þess að ég ætli að detta í eitthvert svartsýnisraus, að ég hef miklar áhyggjur af því að það muni verða mjög erfitt að loka því gati sem eftir er þar.

Síðan skulum við ræða aðeins um það sem ég hef nefnt hér, ég vil fara í frekari sameiningar. Núverandi hv. umhverfisnefnd hefur eiginlega byggt niðurstöður sínar, tel ég, að mestu leyti á vinnu fyrri samgöngunefndar, enda sjáum við að einungis fulltrúar frá ráðuneytinu komu á fund umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu málsins núna. Farið er jú yfir umsagnir annarra aðila og síðan er nefndarálitið sem fylgdi við fyrri afgreiðslu málsins látið núna fylgja með sem fylgiskjal þar sem farið er mjög vandlega yfir atriði. Því er mjög athyglisvert að átta sig á því að þar kemur einmitt fram álit meiri hlutans, hann tekur undir þau varnaðarorð sem ég hef verið að flytja, og segir, með leyfi forseta: „Meiri hlutinn telur hagræðingarmarkmið frumvarpanna líkleg til að ganga eftir.“ Líkleg til að ganga eftir. Meiri hlutinn á þeim tíma var ekki sannfærðari en svo að hann taldi þau líkleg.

Síðan hnykkir þáverandi meiri hluti einmitt á því atriði að það megi ekki staldra við þarna heldur verði að stíga skrefið lengra, vegna þess að ég held að ég geti fullyrt það að allir hv. þingmenn sem áttu sæti í samgöngunefnd hafi einmitt séð frekari möguleika til að draga úr ríkisútgjöldum og fara í enn frekari sameiningar. Það var skilningur flestra, ég ætla ekki að alhæfa að það hafi verið allra. Enda má lesa það út úr meirihlutaálitinu á sínum tíma að þetta væri fyrsta skrefið af tveimur eða fyrra skrefið af tveimur alla vega, ef ekki fleirum.

Það kemur einnig fram í því nefndaráliti að meiri hlutinn taldi á þeim tíma ekki hægt að ganga lengra vegna þess að þetta gangi þvert á ráðuneyti. Það stendur skrifað í meirihlutaálitinu, það sé í raun og veru réttlætingin á því að stíga þetta fyrsta skref og síðan muni innanríkisráðuneytinu og hæstv. ráðherra verða falið að stíga frekari skref. Það er meira að segja orðað með þeim hætti að það eigi að varða leiðina og vísað til þeirra skýrslu sem ég fór yfir áðan frá svokallaðri Gíslanefnd að fara í frekari sameiningar. En þá velti ég því fyrir mér: Er það virkilega svo að þessir ráðuneytismúrar séu enn þá? Ég hef það oft á tilfinningunni að það séu í rauninni svona tíu fjármálaráðuneyti, eins og ráðuneytin eru mörg, sem séu einhvern veginn að verja sig en ekki sé stefnt að sameiginlegum hagsmunum, sérstaklega hvað snýr að ríkisfjármálunum.

Það virðist vera niðurstaða þingsins, ef það er svo, að ekki sé hægt að sameina frekar vegna þessara múra eða girðinga sem eru á milli ráðuneyta. Mér finnst það algjörlega óviðunandi.

Ég sé marga möguleika á að sameina enn frekar. Það er meira að segja sett inn í nefndarálitið til að undirstrika þetta algjörlega, að sett er inn breytingartillaga með ákvæði til bráðabirgða við afgreiðsluna 31. maí af hálfu meiri hlutans sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eigi síðar en 1. febrúar 2012 skal innanríkisráðherra leggja fyrir ríkisstjórn og Alþingi áætlun um frekari sameiningu ríkisstofnana og drög að samkomulagi við viðeigandi ráðherra ríkisstjórnarinnar þess efnis að áætlun ráðherrans megi fram ganga. Skal framangreind áætlun miða við að sameiningu ríkisstofnana verði að fullu lokið fyrir lok árs 2013. Hvað sameiningarkosti varðar skal í áætlun ráðherra einkum litið til kafla 5.5 í skýrslu nefndar samgönguráðherra um framtíðarskipan stofnana samgöngumála – greining og valkostir.“

Það er því algjörlega kristaltært að meiri hlutinn í samgöngunefnd á þeim tíma var algjörlega á þeirri línu, eins og ég hef farið yfir í ræðu minni, að miklir möguleikar væru til þess að sameina stofnanir og fá frekari samlegðaráhrif og sparnað í ríkisfjármálum. Það er alveg skýrt og hægt er að lesa það út úr nefndarálitinu. Þetta undirstrikar það að ákvæðið til bráðabirgða er sett til þess akkúrat eins og kemur fram í nefndarálitinu að varða leiðina fyrir hæstv. innanríkisráðherra. Það væri skilyrði fyrir því að samþykkja þessi frumvörp á þeim tíma sem er núna óbreyttur til umræðu hér.

Þess vegna tel ég að það hafi verið mikil mistök að ekki hafi verið skipaður hópur til að fara yfir þessi mál núna, yfir sumarið og fram á haust, sem hefði einmitt skoðað atriði og eins þá tillögu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti á áðan, að koma á fót stofnun hafs og stranda. Skynsamlegra hefði verið að gera það og ná meiri sátt um þetta. Við vitum að það er algjör sjálfsblekking að halda því fram og segja: Jú, jú, þetta er bara fyrsta skrefið, svo förum við fljótlega í næstu skref. Það verður ekki þannig. Ef það yrði þannig væri það svo arfavitlaust vegna þess að ef menn ætla að taka þessar stofnanir núna í öllu því húsnæði sem þær eru í, leiguhúsnæði — ég held ég fari rétt með að það sé einungis Siglingastofnun sem eigi húsnæðið — og keyra þær inn í eina stóra stofnun og ætla svo að fara eftir einhvern stuttan tíma að búa til eitthvað enn meira og tvístra því. Auðvitað mun það ekki gerast. Það væri alla vega ekki skynsamlegt. Þá væri verið að henda peningum í svona vitleysu á sama tíma og verið væri að skera niður í heilbrigðiskerfinu og öðrum hlutum.

Ég hef verið verulega pirraður yfir því í gegnum tíðina þegar rætt er um til dæmis 6. greinar heimild í fjárlögum til Vegagerðarinnar að stækka húsnæðið og flytja úr Borgartúninu. Hvers vegna má ekki nýta húsnæðið á landsbyggðinni sem búið er að skera niður, hvort heldur sem er hjá Siglingastofnun eða Vegagerðinni? Því má ekki styðja við það? Þar standa húsin tóm en alltaf þarf að auka og stækka báknið í Reykjavík. Þá kemur alltaf sama skýringin: Það er ekki heppilegt að gera það núna, við skulum gera það næst, einhvern tímann seinna. Gerum það bara næst. Það eru léleg rök og haldlítil finnst mér. En það er alltaf sama sagan, það má ekki styrkja og styðja við þessar stofnanir.

Af því að ég veit að hæstv. innanríkisráðherra kemur hingað og heldur ræðu á eftir væri ágætt að hann færi yfir það hvort hann sæi einhverjar hömlur á því að hægt væri að styrkja þessar starfsstöðvar úti á landsbyggðinni. Þær standa margar hverjar tómar, hvort heldur er hjá Vegagerðinni eða hjá Siglingastofnun. Það er hægt að færa frekari verkefni til þeirra stofnana. Þær stofnanir hafa staðið sig mjög vel í þeirri þjónustu sem þær hafa verið að veita.

Mig langar að nefna eitt sem menn höfðu miklar efasemdir um. Þegar útibúið á Ísafirði hjá Siglingastofnun fékk það verkefni að gefa út öll haffærisskírteini fyrir skip á Íslandi fannst mönnum það alveg svakalega flókið, það væri eitthvað sem gæti ekki gerst að einhver stofnun vestur á Ísafirði ætti að fara að senda skírteinin um allt land en ekki héðan úr Reykjavík. Hver er reyndin? Reyndin er nefnilega mjög góð og það starfsfólk sem þar hefur starfað hefur staðið sig einstaklega vel.

Það á líka við um margar þær stofnanir hjá Vegagerðinni þar sem klárlega er hægt að færa til aukin verkefni. Þetta minnir mig dálítið á þegar við samþykktum sameininguna á landlækni og Lýðheilsustöð. Verið er að bruðla með peninga í flutninga og húsnæði, þó að einhver einskiptiskostnaður sé, á sama tíma og verið er að skera niður í heilbrigðisþjónustunni, í velferðarmálunum, úti á landsbyggðinni og náttúrlega alls staðar, það er ekki bara þar.

Þetta er vitlaus forgangsröðun. Þetta virðist vera fyrir einhverja pólitíkusa að geta sagt: Við fækkuðum ríkisstofnunum. Það var markmiðið. En hvort það hefur einhvern sparnað í för með sér er kannski ekki svo gott að fullyrða um fyrr en mörgum, mörgum árum seinna, en þá kæmi eftiráskýringin: Sparnaðurinn var kannski ekki aðalmarkmiðið heldur að auka og bæta gæði þjónustunnar. (Forseti hringir.)