Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 16:50:31 (6637)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[16:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins yfir þá möguleika sem ég tel að séu á frekari sameiningum en hér er lagt til. Ég náði ekki að gera það í fyrri ræðu minni þar sem ég hafði ekki tíma til þess. Þar vil ég nefna þrjár stofnanir: Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Landhelgisgæsluna.

Verkefnin sem unnin eru í þessum stofnunum mundu henta vel mjög vel öðrum stofnunum. Þá gætum við farið í frekari breytingar og gert þetta með öðrum hætti. Rætt hefur verið að einnig mætti taka Varnarmálastofnun og fleiri ágætar stofnanir inn í dæmið en ég ætla aðallega að fjalla um þessar þrjár stofnanir. Það eru þó ef til vill fleiri stofnanir sem þetta á við um.

Ef við förum aðeins yfir verksvið Siglingastofnunar má sjá að það skarast við verksvið Fiskistofu. Á Fiskistofu eru gefin út veiðileyfi undir skipaskrárnúmerum fyrir öll skip í landinu. Siglingastofnun gefur út haffærisskírteini fyrir öll skip í landinu og það er líka gert eftir skipaskrárnúmerum. Ef það væri gert á sama staðnum yrðu þar augljós samlegðaráhrif. Grunnurinn er sá sami, þarna er verið að gefa út annars vegar haffærisskírteini og hins vegar veiðileyfi fyrir skipaflotann, hvort tveggja eftir skipaskrárnúmerum.

Síðan gætum við skoðað verksvið Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar. Það sem fyrst kemur upp í huga minn er eftirlit á sjó sem er að hluta til á hendi Fiskistofu og að hluta hjá Landhelgisgæslunni. Þar tel ég að gætu náðst fram samlegðaráhrif með því að nýta kraftana betur. Síðan er nokkuð sem ég hef talað lengi fyrir, ég byrjaði að ræða það strax árið 2009 en hef ekki fengið mikinn hljómgrunn hingað til, það eru samlegðaráhrifin með samvinnu Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslunnar við að reka skipaflota.

Í dag eru hafrannsóknaskipin undir Hafrannsóknastofnun og þar er jafnframt reksturinn á þeim. Síðan er Landhelgisgæslan með þyrlurnar og skipin eins og við þekkjum. Ég hef verið þeirrar skoðunar — ég lagði það árið 2009 til en fékk litlar þakkir fyrir, reyndar fékk ég ekki skammir frá öllum en frá nokkuð mörgum — að við ættum að skoða þann möguleika að selja nýja varðskipið og nýta nýja hafrannsóknaskipið til að sinna störfum varðskipsins. Það þóttu ekki gáfulegar tillögur, en skipið kostar rúma 5 milljarða. Þá spyr ég: Hvaða gagn er að því að hafa stór og mikil skip, hvort sem það er nýlega hafrannsóknaskipið og nýja varðskipið okkar, þegar við getum ekki verið með þau í rekstri og þurfum að binda þau við bryggju?

Af því að ég hef verið lengi til sjós hef ég oft horft upp á það að einn daginn kemur varðskipið siglandi til að fylgjast með því sem gerist á miðunum þar sem bátarnir eru, eftirlitsmenn koma um borð og skoða, gera ýmsar úttektir og sinna öryggismálum í leiðinni. Síðan kemur hafrannsóknaskipið siglandi sömu leið daginn eftir, næsta dag eða þar næsta dag í sömu erindagerðum til að skoða og rannsaka. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu við þær aðstæður sem nú eru að nýta til að mynda nýja hafrannsóknaskipið í hvort tveggja, að færa það undir Landhelgisgæsluna og hafa þar annars vegar fiskiskipstjóra og það vísindasamfélag sem því fylgir og hins vegar eftirlit á sjó. Það er ekkert sem mælir gegn því að mínu mati, það er bara viðhorfsbreyting. Ég sé mikil samlegðaráhrif í því. Auðvitað vitum við núna hversu dýrt það er að gera út skipin hvað varðar eldsneytið og annað. Þarna yrðu ákveðin samlegðaráhrif. Ég vildi að sjálfsögðu að við gætum verið með hvort tveggja en um það er ekki val núna því að á sama tíma þurfa þeir sem stýra landinu á þessum erfiðu tímum að taka mjög stórar ákvarðanir, til að mynda að skera mjög harkalega niður í heilbrigðisþjónustu og loka líknardeildum. Það er hægt að halda marga svona ræður en það er spurning um forgangsröðun í ríkisfjármálum.

Ég tel að þarna yrðu ákveðin samlegðaráhrif fyrir utan það að þá væri rekstur allra skipanna á einum stað en ekki tveimur og er töluverður sparnaður í því, ég er alveg sannfærður um það. Við gætum því náð fram meiri hagræðingu að ýmsu leyti.

Ég ætla að segja það eina ferðina enn þó að ég muni fá skammir fyrir það, að stærð varðskipanna hefur mjög lítið með öryggismál sjómanna að gera. Þegar þær aðstæður koma upp sem bregðast þarf að við, til dæmis að bjarga skipi í sjávarháska, er það alltaf skipið sem næst er sem mun verða að gera það. Eitt stórt skip siglandi í allri þessari lögsögu mun ekki geta bjargað einhverjum skipum langt í burtu. Það er alltaf það skip sem næst er sem mun gera það.

Ég vil taka það fram að mér finnst Landhelgisgæslan hafa staðið sig framúrskarandi vel í þeim verkefnum sem hún hefur leyst við erfiðar aðstæður (Gripið fram í: Rétt.) og með því að taka að sér í verkefni í útlöndum til að ná sér í sértekjur til að halda mannskap í þjálfun. En það er ekki lengur boðlegt hvernig málum er háttað, sérstaklega ekki öryggi sjómanna. Þá á ég aðallega við þyrlumálin því að þyrlurnar eru númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að öryggismálum sjómanna fyrir utan auðvitað Slysavarnaskóla sjómanna þar sem menn fá þekkingu, reynslu og kennslu. En þegar kemur að því að þurfa að bregðast við á ögurstundu eru það þyrlurnar sem skipta mestu máli. Því miður tel ég það bara tímaspursmál hvenær við fáum fréttir um mjög alvarlegt slys vegna þess að Landhelgisgæslunni er ekki gert fært að bregðast við þeim aðstæðum sem upp geta komið.

Það er líka mikilvægt að taka það inn í umræðuna að fjölgun ferðamanna til landsins og fleiri útköll vegna þess sem fólk lendir í vandræðum hafa sitt að segja í þessum efnum. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan við sáum hvað Landhelgisgæslan stóð sig vel við að bjarga tveimur mönnum uppi á jökli, en þetta er ekki lengur boðlegur lengur, það vantar fjármuni til verkefnanna. Það er búið að reyna að bregðast við og ég veit að hæstv. innanríkisráðherra, og þar með talið ráðuneytið, gerir allt sem hann getur til að bregðast við þessum málum en auðvitað fjallar þetta fyrst og fremst um ákvörðun Alþingis um að veita fé til verkefnanna. Þess vegna hef ég talað fyrir því að menn skoði þann möguleika að samnýta til dæmis skipaflotann og nota sparnaðinn til að sinna þeim brýnu verkum sem við sinnum klárlega ekki með fullnægjandi hætti í dag. Það er algerlega óboðlegt hvernig við stöndum að þessum málum núna.

Ég vil spyrja hv. innanríkisráðherra í lok ræðu minnar, vegna þess að ég veit að hann á eftir að koma hingað upp og halda ræðu, hvernig honum lítist á þær hugmyndir að skipa starfshóp til að fara yfir allar þær bollaleggingar sem fram hafa komið í umræðunni í dag frá mörgum hv. þingmönnum. Í umsögnum um málið kemur fram að hugsanlegt sé að skoða aðrar leiðir. Er ef til vill einhver möguleiki á því að ná samstöðu um að fara aðrar leiðir, alla vega að skoða kosti þeirra og galla, rýna betur í tillögurnar og vinna eftir því sem meiri hluti nefndarinnar leggur til núna og eins á fyrri stigum málsins? Ég tel að höfum tapað dýrmætum tíma þegar málið dagaði uppi í þinginu í haust. Er möguleiki á að skoða frekari sameiningar og að þetta sé bara fyrsta skrefið af mörgum, alla vega tveimur? Hvernig tekur hæstv. ráðherra í það að skipa starfshóp sem færi yfir þá hluti sem við ræðum hér þar sem við gætum mögulega náð fram enn meiri sparnaði og hagræðingu — ekki veitir ríkiskassanum af — og skapa sátt um málið? Þá yrði gert samkomulag um að klára málið á þessu ári og eins við þá sem hafa efasemdir um að fara þessa leið. Ég skil vel að það er verst fyrir starfsfólkið sem starfar í þessum stofnunum að þurfa að búa við óvissu ár eftir ár. Það er í raun ekki hægt að bjóða upp á það mikið lengur.