Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 17:00:41 (6638)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins til fyllingar fyrri ræðu minni, þar sem ég fjallaði um þau sjónarmið sem ég hef í þessu máli, gera að umtalsefni þá vinnu sem lögð var til grundvallar áður en þetta mál fór af stað, sem var vinna nefndar samgönguráðherra um framtíðarskipan stofnana samgöngumála þar sem fjallað er um allmarga valkosti varðandi sameiningar stofnana á þessu sviði. Rétt er að hafa í huga að sú vinna fór fram áður en dómsmálaráðuneytið og samgönguráðuneytið voru sameinuð í innanríkisráðuneyti en hún fjallar um nokkra valkosti, fimm meginvalkosti, um sameiningu stofnana, eða leiðir sem unnt væri að fara.

Í fyrsta lagi fjallar hún um óbreytta stofnanaskipan, í öðru lagi heildarsameiningu allra samgöngustofnana, í þriðja lagi svokallað hlutverkaskipulag, en það er sú leið sem farin er í þeim frumvörpum sem hér eru til umfjöllunar, í fjórða lagi sérfræði- og sérgreinaskipulag og í fimmta lagi hlutverkaskipulag á sviði stjórnsýslu en sérfræðiskipulag á öðrum sviðum, þ.e. fimmti valkosturinn í þeim tillögum sem nefndin hafði til umfjöllunar.

Í niðurstöðum nefndarinnar segir um þá leið sem farin er í þessum frumvörpum, með leyfi forseta:

„Kostir og gallar hlutverkaskipulags eru teknir saman í töflu 17. Taflan sýnir umtalsverða kosti en einnig að slík endurskipulagning er flókin og felur í sér talsverða áhættu. Nefndin mælir ekki með þessum valkosti en hins vegar er sá þáttur sem tengist sameiginlegri stjórnsýslustofnun hluti af valkosti 5.“

Um þann valkost segir síðan í skýrslu nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Nefndin mælir með þessum valkosti og telur hann best til þess fallinn að stuðla að hagræðingu og bættum árangri í samgöngumálum samhliða því sem lögð verði áhersla á markvissara hlutverk samgönguráðuneytis og samgönguráðs varðandi stefnumótun og forgangsröðun verkefna.“

Þetta er leið sem er nefnd leið 5.5 í þessari skýrslu og þegar málið var til umfjöllunar á síðasta þingi afgreiddi þáverandi samgöngunefnd frá sér tillögu um breytingu á frumvarpinu þar sem gert var ráð fyrir að við bættist eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Eigi síðar en 1. febrúar 2012 skal innanríkisráðherra leggja fyrir ríkisstjórn og Alþingi áætlun um frekari sameiningu ríkisstofnana og drög að samkomulagi við viðeigandi ráðherra ríkisstjórnarinnar þess efnis að áætlun ráðherrans megi fram ganga. Skal framangreind áætlun miða við að sameiningu ríkisstofnana verði að fullu lokið fyrir lok árs 2013. Hvað sameiningarkosti varðar skal í áætlun ráðherra einkum litið til kafla 5.5 í skýrslu nefndar samgönguráðherra um framtíðarskipan stofnana samgöngumála – greining og valkostir.“

Það varð sem sagt niðurstaða nefndarinnar þá að leggja það til við innanríkisráðherra að farið yrði í frekari vinnu hvað þetta snertir, sérstaklega með tilliti til þeirrar leiðar sem var kölluð 5.5 og ég gerði grein fyrir áðan. Þess vegna sakna ég þess að sú vinna virðist ekki hafa farið fram og mér vitanlega hefur engin skýrsla eða engin greinargerð verið lögð fyrir ríkisstjórn eða Alþingi um þetta efni eins og meiri hluti samgöngunefndar ætlaðist til að yrði gert. Ég hlýt að inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvernig á því stendur að ráðuneytið hafi ekki nýtt tímann til undirbúnings þessu máli með því að fara í þá vinnu og líka að leita eftir viðhorfum til þess að fara þá leið almennt sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu og kölluð er leið 5.5. Í skýrslu nefndarinnar virðist hún hafa langflesta kosti og fæsta galla þó að réttilega sé tekið fram að hún geti verið flókin, einkum vegna þess að þar var um að ræða sameiningu verkefna þvert á ráðuneyti.

Nú hafa ráðuneyti verið sameinuð og Landhelgisgæslan er undir sama ráðuneyti og Siglingastofnun. Mér finnst, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að tíminn hafi ekki verið vel nýttur hvað þetta varðar. Ég mundi telja að það væri gagn að því ef umhverfis- og samgöngunefnd mundi milli umræðna fjalla aðeins um það og hugsanlega leita einhvers konar samkomulagsleiðar þannig að málið gæti fengið afgreiðslu með breiðari samstöðu, að leita einhverra leiða eins og meiri hluti samgöngunefndar lagði til á síðasta þingi, að það yrði þá haldið áfram við að skoða sérstaklega þessa leið sem nefnd samgönguráðherra lagði til sem sína tillögu.

Í skýrslu þeirrar nefndar er formlega lagt til að komið verði á fót öflugri og samhæfðri stjórnsýslustofnun sem taki til allra samgöngugreina. Að mynduð verði sameinuð stofnun hafs og standa með sameiningu Siglingastofnunar, Landhelgisgæslu og Fiskistofu og tilfærslu verkefna frá öðrum stofnunum, svo sem Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun. Að stjórnsýsluverkefni Vegagerðar verði færð til sameiginlegrar stjórnsýslustofnunar en að öðru leyti verði starfsemi stofnunarinnar svipuð og nú er. Og að rekstur stærri flugvalla, flugstöðva og flugleiðsögu verði áfram í formi opinbers hlutafélags.

Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort nefndin getur skoðað hvort hægt sé að leita eftir og ná fram breiðari samstöðu með því að bæta þá inn í frumvörpin einhvers konar bráðabirgðaákvæði eins og gert var við afgreiðslu málsins á síðasta þingi til að halda megi áfram að vinna þetta mál fyrst og fremst með hagsmuni þeirra málefna og málaflokka sem hér eru undir í huga. Eins og komið hefur fram í máli ýmissa ræðumanna í þessu efni þá er ekki gott að búa við mikla óvissu um langa hríð um framtíðarskipulag þessara mála og það er heldur ekki gott að fara af stað með svona viðamiklar stjórnkerfisbreytingar ef um þær er ekki þokkalega góð samstaða.