Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 17:36:53 (6650)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég trúi því mætavel þegar hæstv. ráðherra segir að þessi mál hafi verið rædd í ráðuneytinu. Ég er bara að segja að þess sér ekki stað, við sem erum að fjalla um þetta í þinginu sjáum það ekki. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur oft orðað það þannig að menn þurfi að hafa öll gögn í málinu og hafa sannfæringu fyrir því að verið sé að fara rétta leið. Ég hef sem sagt ekki séð þau hvað þetta snertir. En látum það liggja á milli hluta.

Hitt er þá spurningin: Er hægt að vinna áfram að málinu? Hæstv. ráðherra gaf í skyn í lok andsvars síns að ekkert kæmi í veg fyrir að það yrði gert. Mín spurning er í lokin: Er þá hægt að búa einhvern veginn þannig um hnútana við afgreiðslu þessa máls að það verði gert og menn hafi sannfæringu fyrir því að það verði að minnsta kosti ígrundað í framhaldinu?