Loftslagsmál

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 19:25:50 (8674)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

loftslagsmál.

751. mál
[19:25]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um loftslagsmál.

Tilefni frumvarpsins er að meginstefnu tvíþætt:

Annars vegar er lagt til að sett verði heildarlöggjöf um loftslagsmál í þeim tilgangi að gefa loftslagsmálum tilhlýðilegan gaum sem sjálfstæðum málaflokki meðal umhverfismála. Með því er málaflokknum mörkuð viðeigandi staða í íslenskri lagaflóru og fyrsta skrefið stigið í átt að því að sameina undir einum hatti sem flestar reglur sem hafa það að markmiði að stemma stigu við loftslagsvanda samtímans eða aðlaga okkur að afleiðingum hans. Gert er ráð fyrir því að frekari breytingar verði lagðar til á næstu missirum þar sem reglur sem nú eiga heima undir ýmsum öðrum lagabálkum en eiga vegna efnisins betur heima undir löggjöf um loftslagsmál verði fluttar til.

Hins vegar er lagt til að innleiddar verði reglur um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir sem eru hluti af EES-samningnum. Þessar reglur hafa að hluta til verið innleiddar í íslenskan rétt nú þegar með lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda, eins og þeim var breytt með lögum nr. 64/2011. Gert er ráð fyrir að frumvarp þetta, verði það að lögum, leysi lög nr. 65/2007 af hólmi, þó þannig að nokkur ákvæði verði látin halda gildi sínu þar til þau hafa runnið sitt skeið.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þau að lagt er til að meðal markmiða laganna verði að stuðla að aðlögun að loftslagsbreytingum en slíkt markmið hefur ekki áður verið að finna í lögum. Með aðlögun að loftslagsbreytingum er átt við aðgerðir sem miða að því að styrkja þá þætti mannlegs samfélags og umhverfisins sem viðkvæmir eru fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Aðlögunin snýst um að undirbyggja þessa þætti fyrir afleiðingar loftslagsbreytinga en einnig um að nýta þá möguleika sem í slíkum breytingum geta falist. Þá er í frumvarpinu lagt til að lögbundin verði skylda til að gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, hún kostnaðarmetin og uppfærð með reglubundnum hætti.

Lagt er til að skipuð verði sérstök nefnd til að hafa umsjón með því að áætluninni verði hrint í framkvæmd, koma með tillögur og vera ráðherra til ráðgjafar auk þess að skila ráðherra árlegum skýrslum um stöðu mála. Þetta er að mestu í samræmi við núverandi framkvæmd en með frumvarpinu er lagt til að hún verði lögfest auk þess sem skýrari rammi er settur um verkefnið.

Þá er í frumvarpinu lagt til það nýmæli að stofnaður verði loftslagssjóður sem hafi það hlutverk að styðja við verkefni er stuðlað geti að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og aukinni þekkingu almennings á loftslagsbreytingum af manna völdum, afleiðingum þeirra og mögulegum aðgerðum til að sporna við þeim. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði fjármagnaður með tekjum sem íslenska ríkið fær af uppboðum á losunarheimildum sem því verður úthlutað.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að innleiddar verði reglur viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir sem settar voru með tilskipun 2009/29/EB, um endurskoðað viðskiptakerfi ESB, og fylgigerðum hennar. Þessi innleiðing er til viðbótar innleiðingu grunnreglna viðskiptakerfisins í tilskipun 2003/87/EB og reglna um að fella flugstarfsemina undir kerfi samkvæmt tilskipun 2008/101/EB sem þegar hafa verið innleiddar með lögum nr. 65/2007 eins og þeim var breytt með lögum nr. 64/2011.

Helstu nýmæli eru þau að fram til 1. janúar 2013 munu tilteknir nýir geirar iðnaðar á Íslandi falla undir viðskiptakerfi ESB, þar með talið álframleiðsla, járnblendi og steinullarframleiðsla auk fiskimjölsframleiðslu með olíukötlum. Viðskiptakerfið mun þá einnig ná til fleiri lofttegunda en koldíoxíðs, þar með talið perflúorkolefna. Þetta þýðir að nær allur iðnaður á Íslandi sem losar gróðurhúsalofttegundir mun þurfa að skila inn losunarheimildum í samræmi við losun sína á undangengnu ári. Fyrirtækjum eru að einhverju leyti úthlutaðar losunarheimildir endurgjaldslaust en þurfa að kaupa þær að hluta til á markaði í samræmi við reglur viðskiptakerfisins.

Í frumvarpinu er skýrt tekið fram að framtíðarréttur til úthlutunar losunarheimilda verður ekki skilinn frá þeirri starfsemi sem rétturinn byggir á. Með því er ætlunin að tryggja að ekki geti komið upp sú staða að fyrirtækin skipti um eigendur en rétturinn til ókeypis úthlutunar losunarheimilda sitji eftir hjá fyrri eiganda svo dæmi sé nefnt. Gert er ráð fyrir því að ráðherra setji reglugerðir til nánari útfærslu ákvæða frumvarpsins. Sem dæmi má nefna reglur um skráningarkerfi losunarheimilda, uppboð losunarheimilda, árangursviðmið sem ráða munu endurgjaldslausri úthlutun og reglur um vöktun, skýrslugerð og vottun gagna.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.