Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Fimmtudaginn 10. maí 2012, kl. 22:20:50 (9705)


140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum, og nefndarálit með breytingartillögu frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til samræmis við tilmæli og ábendingar FATF sem er alþjóðlegur framkvæmdahópur sem vinnur að aðgerðum til að koma í veg fyrir að fjármálakerfi séu notuð til að þvætta fé og fjármagna hryðjuverk. Til að ná þessu markmiði er almennt gert ráð fyrir að tilgreindir aðilar þekki deili á viðskiptavinum sínum og starfsemi þeirra og tilkynni það til bærra yfirvalda verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.

Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu verði að greindum skilyrðum heimilt að undanþiggja greiðslustofnanir ákvæðum laganna en slíkar stofnanir voru felldar undir gildissvið laganna með lagabreytingu á árinu 2011, en greiðslustofnanir eiga skv. 6. gr. frumvarpsins að heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skilgreiningu laganna á „raunverulegum eiganda“ verði breytt og gildissvið hennar víkkað út. Í b-lið 3. gr. er hert á skyldu tilkynningarskyldra aðila til að afla í hverju tilviki fyrir sig fullnægjandi upplýsinga um hver sé raunverulegur eigandi. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir að þegar um lögaðila ræði skuli leggja sjálfstætt mat á hvort upplýsingar um viðskiptamann og raunverulegan eiganda séu réttar og fullnægjandi. Breytingar sem lagðar eru til í 4. og 5. gr. varða kröfur sem gerðar eru til könnunar á áreiðanleika viðskiptamanna.

Í 7. gr. er lagt til að heimilt verði að beita framkvæmdastjóra eða aðra aðila sem stjórna daglegum rekstri lögaðila sektum ef um brot gegn ákvæðinu er að ræða. Í athugasemdum frumvarpsins segir að hér sé um grundvallarbreytingu á viðurlagaákvæðum laganna að ræða. Loks er í frumvarpinu aukið við lögin skilgreiningu á því hvað teljist til viðurkenndra skilríkja og þar undir felld rafræn skilríki á háu öryggisstigi, samanber b-lið 2. gr.

Frumvarpið mæltist almennt vel fyrir hjá viðmælendum nefndarinnar og kemur fram í athugasemdum að við samningu þess hafi verið haft samráð við fulltrúa nefndar um aðgerðir gegn peningaþvætti sem og Neytendastofu og Auðkenni ehf. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja, embætti ríkislögreglustjóra, Fjármálaeftirlitinu, innanríkisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi fasteignasala, Lögmannafélagi Íslands, auk fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Enn fremur ber að geta þess að engar athugasemdir bárust frá Persónuvernd um þetta mál.

Nefndin hefur farið yfir málið og rætt það og leggur til breytingar við frumvarpið á d- og m-lið 1. mgr. 2. gr. laganna sem felst í því að fella umboðsaðila og útibú greiðslustofnana undir gildissvið laganna. Breytingin er lögð til með hliðsjón af athugasemd Fjármálaeftirlitsins og til samræmis við 23. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, en þar er eftirlitinu falið tiltekið eftirlit með umboðsaðilum og útibúum greiðslustofnana. Fjármálaeftirlitið bendir á í umsögn sinni að umboðsaðilar í skilningi framangreinds eigi bæði við um umboðsaðila innlendra og erlendra greiðslustofnana.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með með breytingum sem gerð er grein fyrir á þskj. 1094.

Margrét Tryggvadóttir sem sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi styður álitið.

Guðlaugur Þór Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Helgi Hjörvar, formaður og framsögumaður, Skúli Helgason, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, Lilja Mósesdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Telma Magnúsdóttir, Magnús M. Norðdahl og Eygló Harðardóttir.