140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:07]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er vanbúið og því er siglt fram á skjön við allar eðlilegar leikreglur. Víða í fátækari borgum heimsins eru götusalar sem selja ýmiss konar varning á gangstéttum og hafa í fæstum tilvikum leyfi til þess en reyna að bjarga sér. Sams konar háttur er nú viðhafður hjá hæstv. ríkisstjórn gagnvart Hreyfingunni því að það sem hæstv. ríkisstjórn leggur áherslu á í dag er að þjóna undir Hreyfinguna og tiktúrur hennar í áherslum í stjórnmálum Íslands. Um þetta snýst starf Alþingis í dag. Það er ekki björguleg staða, virðulegi forseti.

Það er með ólíkindum að umræður um nýja stjórnarskrá skuli eiga sér forsendur í því sem nú er lagt upp með gegn niðurstöðu Hæstaréttar, gegn leikreglum sem íslenska samfélagið hefur sett. Á hverju er von þegar hæstv. ríkisstjórn Íslands vanvirðir og hunsar niðurstöður Hæstaréttar og ætlar á þeim grunni að búa til nýja stjórnarskrá? Þó að ekki væri nema vegna þeirra vinnubragða er þessi aðferð fyrir neðan allar hellur og ekki boðleg Íslendingum. Á einfaldri íslenskri tungu má segja að það sé svindlað á leikreglunum til að þjóna undir Hreyfinguna.

Í málflutningi hæstv. forsætisráðherra áðan birtist spegilmynd af því sorglega ferli sem nú er í gangi þar sem ráðherra staðfesti að ríkisstjórnin ætti í samningaviðræðum við Hreyfinguna. Það verður gaman að vita hvort Ríkisútvarpið mun segja frá þessu í fréttum. Væntanlega ekki vegna þess að þetta er frétt. Þetta er ekki málflutningur, þetta er frétt, og það verður eftir því tekið hvaða döngun fréttastofa Ríkisútvarpsins, með þá vaktmenn sem þar eru fyrir ríkisstjórnina, hefur í sér til að segja frá hlutum á Alþingi eins og vera ber. Það eru samningaviðræður við Hreyfinguna, í þessu tilviki um stjórnarskrá Íslands. Af hverju vill ekki hæstv. ríkisstjórn semja við aðra stjórnarandstöðuflokka, þ.e. ekki aðra heldur bara stjórnarandstöðuflokkana því að Hreyfingin er ekki lengur stjórnarandstöðuflokkur, eins og vera ber um verklag við gerð nýrrar stjórnarskrár? Þar eru engin ágreiningsatriði í málum sem skipta miklu en það er ágreiningur um eðlilegt verklag.

Þess vegna er með ólíkindum að nú byggist allt á því eins og gert hefur undanfarin missiri að ríkisstjórnin sé að semja við Hreyfinguna um annað málið af þeim sem hún lagði mesta áherslu á. Hið fyrra var að landsdómur gengi eftir og það mál er búið en þá er eftir hitt málið og öll orka hæstv. ríkisstjórnar Íslands fer í þetta mál.

Hvers eiga landsmenn að gjalda? Hvers eiga að gjalda þær þúsundir Íslendinga sem eru atvinnulausar, nærri tugur þúsunda Íslendinga sem hefur flæmst úr landi vegna atvinnuleysis? Hundruð fyrirtækja eiga undir högg að sækja vegna sinnuleysis stjórnvalda, hvers eiga þau að gjalda? Hvers eiga heimilin að gjalda þegar þessi mál verða stærstu málin?

Stjórnarskrá Íslands eins og hún er í dag er ekkert óbrúkleg. Hana má alveg lagfæra en það truflar ekkert sem þarf að gera til að stjórna Íslandi af markvísi og festu til árangurs fyrir þjóðina í heild. Þessi upplausn er mjög knýjandi þrýstingur á Alþingi Íslendinga og um leið á forseta þings okkar um að reyna að skipa þannig málum að tíminn nýtist í mál sem eru brýn og þörf og hrópa á úrlausn.

Hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Valgerður Bjarnadóttir sagði fyrir helgi að þetta væri spurning um það hvort tillaga stjórnlagaráðs ætti að verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Bíðum við, þjóðfundur var haldinn, ágætisfundur og eðlilegur, skilaði nokkrum tugum tillagna sem nánast allar voru almenns eðlis um réttlæti, gott heilbrigðiskerfi, menntakerfi og annað sem skiptir máli í okkar samfélagi og er almenn viðmiðun og hugsun fólks hvar sem er á landinu, byggist á venjulegu brjóstviti og skynsemi, þörfum og þrám sem eru hluti af okkar lífsmunstri. En það að stofna síðan til stjórnlagaráðs sem dæmt er ógilt af Hæstarétti eru ekki vinnubrögð sem hægt er að fagna. Það verður að harma þau.

Eini eðlilegi ferillinn í þessu máli er að vinna á grundvelli sáttar um breytingar. Eins og ég nefndi áðan eru þar engin ágreiningsatriði sem skipta máli. Það er allir sammála um til að mynda eignarrétt Íslendinga á auðlindum landsins en það er vandasamt að setja það inn í stjórnarskrá þannig að það haldi gagnvart alþjóðasamningum og alþjóðareglum. Þess vegna á að staldra við í þessu efni og Alþingi á að taka málið til sín, Alþingi á að skipa nefnd sérfræðinga, lærðustu manna og reyndustu. Þeir þurfa ekki endilega að hafa stórar gráður en þeir þurfa að hafa reynslu og verkvit. Þessi hópur getur tekið einhvern ákveðinn tíma til að setja upp tillögu að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi vélar um og afgreiðir. Það getur síðan farið, og á að gera, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi hráskinnsleikur við brot á leikreglum er vanvirðing við Alþingi Íslendinga, vanvirðing við íslenska þjóð. Þetta veldur því meðal annars að mínu mati, virðulegi forseti, að jafnvel forseti Íslands er farinn að yfirbjóða Alþingi í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins með því að gefa í skyn að ef hann hefði aðstöðu til mundi hann setja í þjóðaratkvæðagreiðslu frumvarpið um fiskveiðistjórn við Ísland. Hvaða vinnubrögð eru það að stilla þannig Alþingi Íslendinga upp við vegg áður en málið er afgreitt á hv. Alþingi? Þetta er ekki heldur boðlegt, þetta er vanvirðing við Alþingi Íslendinga og forseti Íslands á ekki að vanvirða Alþingi Íslendinga.

Þetta er hluti af málum sem koma upp þegar svona upplausn ríkir. Það verður sýndarmennska, það verður uppboðstaktík á málum sem eru allt of alvarleg til að menn geti leyft sér slíkt.

Hvaða glóra er í því, virðulegi forseti, að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu sem er ekki hægt að greiða atkvæði um vegna þess að hún er ekki tillaga heldur uppkast? Hún er uppkast að einhverjum hugmyndum sem er erfitt að útskýra og erfitt að skilja. Hver og einn getur lagt sína merkingu í það, og hvaða glóra er í að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkt? Til þess þyrfti tillagan að vera markviss, klár og kvitt og þá unnin af bestu vitund og þekkingu allra sem eiga til að koma við samningu stjórnarskrár fyrir lýðveldið okkar. Nei, á sama tíma og þetta á sér stað liggja í láginni umræður um mikilvæg mál, til að mynda rammaáætlun sem var komið samkomulag um í mjög vönduðu vinnuferli. Þorri, langstærstur hluti, þess hóps sem vélaði um var sammála um niðurstöðuna. Svo voru einhverjir sérstakir einstaklingar í þessum hópi sem ætluðu aldrei að semja um neitt og eru enn á tánum að brjóta niður það sem þessi nefnd sem fjallaði um rammaáætlun lagði til. Þá koma einnig til skjalanna sérvitringar innan hæstv. ríkisstjórnar og fara að blanda sér inn í það sem búið var að ná samkomulagi um.

Virðulegi forseti. Þetta er alveg það sama og hefur átt sér stað við breytingar á fiskveiðistjórninni þar sem stóri hópurinn var kominn að niðurstöðu um ákveðið verklag sem menn þurftu einfaldlega að pússa og hnýta upp og setja lokahrygginn í en þá fóru sérvitringar innan ríkisstjórnarinnar að blanda geðþóttaákvörðunum inn í, trufla framgang málsins og setja allt í upplausn. Það er því miður sá vandi sem við glímum við í íslensku samfélagi í dag.

Núna er talað um það, virðulegi forseti, að það þurfi að vopna íslensku lögregluna. Ég bendi á að í skúffu Alþingis, í nefnd, liggur tillaga frá mér og fleirum um úttekt á Schengen-samningunum með það fyrir augum að við segjum okkur úr Schengen vegna þess að við gerum ekkert nema tapa á því, fjárhagslega, þjóðfélagslega og félagslega. Það væri miklu nær að hleypa því máli í umræðu. Hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, lýsti því yfir að hann væri sammála þeirri hugmynd og tillögu sem ég lagði fram. Það væri miklu nær að við segðum okkur nú þegar úr Schengen, spöruðum peninga og legðum niður hjal um það að vopna íslenska lögreglu. Þetta er bara eitt af ótal málum sem mætti nefna.

Sjómannaafslátturinn bíður ofan í skúffu, það að tryggja sjómönnum sömu réttindi og öðrum stéttum landsins, að hafa fríðindi af vinnu fjarri heimilum sínum. Nú er stefnan sú að sjómannastéttin á Íslandi verði eina stéttin á Íslandi sem fái ekki notið slíkra hlunninda. Allar aðrar stéttir eiga að njóta þeirra. Skyldi fréttastofa Ríkisútvarpsins segja frá þessu? Nei, það er slorlykt af þessu máli og þá er ekki sagt frá því.

Nú standa öll spjót að hjarta Íslands. Það er því miður ríkjandi í hættulegum mæli hatur, upplausn, stjórnleysi og óvinafögnuður meðal landsmanna. Þjóðfélag sem býr við slíkar aðstæður nær ekki árangri sem skyldi. Það er svo margt sem dregur máttinn úr fólki og vonina, og ef stjórnvöld bregðast því að taka af ábyrgð og festu á hlutum, hvort sem er til vinsælda eða óvinsælda, fer svo margt úrskeiðis sem getur verið erfitt að laga og verður sár sem seint grær, kannski aldrei.

Virðulegi forseti. Það eru ekki vönduð vinnubrögð í þessum efnum, þau eru óvönduð. Í líkingamáli eru það vönduð vinnubrögð þegar snjöll hagleikskona möndlar heklunál sína og fetar nálina í gerð blúndudúks. Það eru líka vönduð vinnubrögð þegar hrært er í góða uppskrift af pönnukökum. Allt skiptir þetta máli og af þessu gæti hæstv. ríkisstjórn lært. En hún vill ekki læra og hæstv. forsætisráðherra er fyrsti forsætisráðherrann í sögu lýðveldisins sem stjórnar með olnbogunum. Það er ekki björgulegt og ekki gott til afspurnar fyrir skipstjórann í brúnni að ætla að vera með olnbogann á stýrinu. En þannig olnbogar ríkisstjórnin sig áfram og eyðir tímanum í samninga við ágætisfólk því að götusalar víða um heim eru ágætisfólk og fólk eins og annað, en það er ekki það sem þarf að vera viðmiðunin í vinnubrögðum. Það verður að vera háleitara og meira markmið sem er boðlegt því að þurfa ekki að hlaupa undan ef einhverjir bílar kerfismerktir keyra um göturnar.

Það er líka hluti af þessu, virðulegi forseti, að það hefur verið talað um búsáhaldabyltinguna. Hér varð engin búsáhaldabylting og það vita allir sem fylgdust með. Hér varð bylting þar sem þingmenn úr hópi Vinstri grænna höfðu samið við þingmenn úr hópi Samfylkingar um að skapa upplausn til að Samfylkingin gæti vikið úr ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og farið undir sæng með Vinstri grænum. Það var búsáhaldabyltingin. Þetta var ekki spurning um potta og pönnur heldur einhver sængurver.

Virðulegi forseti. Hugmyndin og framkvæmdin að þjóðfundi var ágæt og þar var safnað saman grunnhugmyndum. Það mikilvægasta í stöðunni í dag er að Alþingi taki málið í sínar hendur, skipi nefnd fróðustu manna til að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá og síðan afgreiði Alþingi það mál og vísi til þjóðarinnar.