Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 13:37:31 (11243)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:37]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, framsögumaður 1. minni hluta, notaði sem samlíkingu við þetta mál niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Athyglisvert. Það má segja að á bak við þetta liggi kannski 2007-hugsun. Þar var auðvitað gagnrýnt að slakað væri á kröfum og reglum, lagasniðganga, heimilað með lögum að slaka á kröfum til að koma til móts við áhættufjárfestingu og áhættusækni bankanna. Hér eru viss teikn á lofti um það, t.d. varðandi það að hluti af lögum um ríkisábyrgð er tekinn úr sambandi, málið er rekið hér sem fjármögnunarmál en ekki samgöngumál og það fer til fjárlaganefndar. Málið er sett í annan búning en það á raunverulega að hafa. Ég vildi inna hv. þm. Kristján Þór Júlíusson eftir skoðunum hans á þessum ummælum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, hvort hann finni líkindi með þessu máli og samlíkingu við gagnrýni í (Forseti hringir.) rannsóknarnefndarskýrslunni.