Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 14:26:03 (11276)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisábyrgðasjóður fer í umsögn sinni yfir ýmsa þætti varðandi forsendur málsins. Stærsti áhættuþátturinn við lánveitingu til Vaðlaheiðarganga hf. er endurfjármögnunin og vaxtakostnaður. Ég hef tekið undir þá skoðun Ríkisábyrgðasjóðs. Varðandi ýmsa aðra þætti í þeirra umsögn var farið mjög ítarlega yfir þá í nefndinni og ég get staðið heils hugar að því sem fram kemur í nefndaráliti.

Ég hef lesið frumvarpið mjög vel og öll fylgigögn þess, en það kom mjög skýrt fram í máli fjármálaráðherra þegar hún talaði fyrir málinu og í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins í nefndinni að það yrði ekkert því til fyrirstöðu að lánið yrði veitt áfram. Ég er sannfærð um að svo verður og (Forseti hringir.) það sem ég tel mikilvægt, að gert verði strax ráð fyrir því í lánsfjáráætlun ríkissjóðs.