Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 17:24:13 (11328)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:24]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég sagði í upphafi þessa þingfundar í dag einmitt um fundarstjórn forseta að mér þætti afar óeðlilegt hvernig raðað væri á dagskrá í dag. Það eru gríðarlega stór og mörg brýn mál hjá öllum nefndum sem hafa verið afgreidd út úr nefnd fyrir þó nokkuð löngu síðan og bíða þess endalaust að komast á dagskrá. Þetta mál er nýafgreitt úr fjárlaganefnd og er slengt hér fram, og eins og hefur staðið upp úr í ræðum svo margra sem hér hafa tekið til máls er eðlilegt og í reynd nauðsynlegt að sé rætt í samhengi við samgönguáætlun í heild sinni, jarðgangaáætlun í heild sinni, en það sé ekki látið líðast að eitt risavaxið púsluspil sé tekið út fyrir (Forseti hringir.) og öll heildarmyndin hunsuð. Það er ekki hægt, herra forseti, og því tek ég undir (Forseti hringir.) þessa kröfu hv. þingmanns.