Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 17:53:19 (11341)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessu er auðsvarað. Jú, ég tel að það þurfi að gera vegna þess að hér er ekki um að ræða einkaframkvæmd heldur ríkisframkvæmd sem ríkissjóður Íslands fjármagnar að langstærstum hluta. Það breytir engu hvort við köllum þá aðferðafræði lán eða eitthvað annað. Fjármögnunin er af hálfu ríkisins. Þess vegna og af þeim ástæðum á að fjalla um þetta í samhengi við aðrar framkvæmdir ríkisins á þessu sviði.

Ég hef síðan bent á að ástæða er til að horfa með öðrum augum á þessa framkvæmd vegna þess að hér er hægt að taka inn veggjöld. Það veitir henni aukinn þunga og aukið vægi í samanburði við aðrar framkvæmdir. Ég skora á þá hv. þingmenn sem vilja styðja þetta frumvarp vegna þess að þeir vilja þessa framkvæmd, að íhuga aðeins hvort ekki séu til aðrar leiðir sem ná þessu markmiði (Forseti hringir.) en brjóta ekki á þeim meginsjónarmiðum sem verða að gilda um meðferð ríkisfjármála.