Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 18:01:17 (11347)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög áhugaverðir hlutir sem hv. þm. Mörður Árnason veltir upp, áhugaverð umræða. Einn vinkillinn á henni gæti verið sá að ef ríkari svæði, eins og hv. þingmaður kallaði það, beita svona leiðum umfram önnur svæði losnar um leið um fjármuni hjá ríkinu til að auka fjárfestingar sínar á þeim svæðum sem hafa minni möguleika til að innheimta veggjöld. Það má líka velta því fyrir sér.

Spurningar hv. þingmanns vekja auðvitað athygli á því að við höfum ekki farið í gegnum þessa umræðu hér á þinginu. Við erum augljóslega ekki tilbúin með aðferðafræði til að slá máli á svona hluti og nota síðan sem mælikvarða á það hvort við veitum ákveðnum framkvæmdum forgang fram yfir aðrar. Þess vegna vil ég ítreka að ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli eigum við að fara af stað en með öðrum hætti en hér er lagt upp með. Ég tel mikilvægt að það sjónarmið komi alveg skýrt fram.