Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 18:06:55 (11352)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta mér þann rétt sem ég hef til að tjá mig um þetta mál. Ég tel að þingmenn eigi að tjá sig efnislega um mál og fagna því sérstaklega að þingmenn úr meiri hlutanum tali sig hása um þetta mikilvæga mál vegna þess að þeir hafa ítrekað komið hingað upp og latt okkur hina frá því að tjá okkur í málum.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson flutti hér ágæta ræðu en ég get ekki betur skilið en hann sé sammála því að ráðast eigi í Vaðlaheiðargöng. Ég get ekki betur skilið en gera eigi það fyrr en seinna en hann vill einfaldlega leggja hlutafé inn í félagið, ekki taka lán heldur leggja inn í félagið hlutafé, að fjárhæð 2 milljarðar ef ég skil hv. þingmann rétt. Og talar svo um að ekki eigi að kalla fjárfestingu lán. Nú skil ég hv. þingmann ekki alveg, svo að ég segi bara alveg eins og er, vegna þess að menn hafa tekið lán fyrir fjárfestingum. Ég held að menn geri það alla jafnan. Þegar ég kaupi mér hús þá tek ég lán en ég kalla það fjárfestingu að kaupa mér hús, ég tek sem sagt lán fyrir fjárfestingunni. En við skulum láta þetta liggja milli hluta.

Haldnar hafa verið margar ræður um að þetta sé ekki einkaframkvæmd. Ég held að verið sé að teygja þetta hugtak út og suður, virðulegi forseti. Í samgönguáætlun sem var samþykkt 29. maí 2008, samgönguáætlun fyrir árið 2007–2010, var fjallað um Vaðlaheiðargöng. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í gildandi samgönguáætlun 2007–2010 er gert ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði fjármögnuð með sérstakri fjáröflun. Nú liggur fyrir, hver sú fjáröflun er. Göngin verða fjármögnuð í einkaframkvæmd með veggjöldum.“

Þetta er eina hugtakið sem er til um þessa einkaframkvæmd. Ég hef ekki skilið hana öðruvísi en svo að menn séu að fjármagna þetta með veggjöldum, þaðan sé þetta hugtak einkaframkvæmd komið.

Á fund fjárlaganefndar komu menn frá Háskólanum á Akureyri. Þeir sögðu að þeir könnuðust einfaldlega ekki við að heimamenn hefðu talað um að þetta væri 100% einkaframkvæmd. Þeir segja að aðkoma ríkisins hafi legið fyrir í alllangan tíma með einum eða öðrum hætti. Hv. þm. Mörður Árnason, sem nú hefur vikið úr sal, gerði þá kröfu áðan að ég mundi horfa á hann einbeittum augum meðan hann fjallaði um þetta mál og ég verð að gera sömu kröfu til hans. Hann sagði að þetta væri öðruvísi en með Hvalfjarðargöng. Þau hefðu verið í einkaframkvæmd, það hefði verið 100% einkaframkvæmd. Honum láðist að geta þess að ríkið samþykkti að greiða fyrir hluta af þeim vegtengingum sem þurfti til að Hvalfjarðargöng yrðu að veruleika. Ef ég man rétt, virðulegi forseti, þá voru þetta á bilinu 300–400 millj. kr. sem mundu reiknast sem tæpur milljarður á núverandi verðlagi. Og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kinkar kolli þannig að ég tel mig fara nokkuð rétt með tölur.

Er þá hægt að segja um Hvalfjarðargöng að þau hafi verið 100% einkaframkvæmd ef ríkið hefur komið þar að? Ríkissjóður og alþingismenn voru meira að segja reiðubúnir að ganga svo langt að veita ríkisábyrgð til að hægt væri að fjármagna framkvæmdir frekar. Nú man ég þetta ekki alveg rétt en ég man þó að aldrei þurfti til þessarar ríkisábyrgðar að koma og hún var aldrei nýtt á nokkurn hátt. En hvernig sem á þessu stóð þá stóð að minnsta kosti vilji til þess á Alþingi að aðstoða við þetta með einum eða öðrum hætti.

Eru Vaðlaheiðargöng mikilvæg og á að taka þau fram fyrir Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng? Ég held að Vaðlaheiðargöng séu mikilvæg framkvæmd. Ef við horfum til samgönguáætlunar held ég hins vegar að við eigum fyrst að fara í Norðfjarðargöng og svo Dýrafjarðargöng. Ég held að þannig sé forgangsröðunin. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra komið fram og sagt það ítrekað í fjölmiðlum að Vaðlaheiðargöng eigi ekki að standa þessum tveimur samgöngubótum fyrir þrifum. Með öðrum orðum hefði allur vafi verið tekinn af um það að verið sé að taka Vaðlaheiðargöng fram fyrir.

Ég get alveg upplýst það hér að ef ég teldi svo vera þá held ég að heimamenn fyrir norðan væru líka reiðubúnir að draga sig í hlé og hleypa þessum verkefnum af stað. Hugmyndin er nefnilega ekki, eins og ég skil heimamenn og þá sem standa að þessu verki, að Vaðlaheiðargöng hafi áhrif á önnur jarðgöng. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að það glymur í þingsalnum trekk í trekk að þetta muni standa öðrum verkefnum fyrir þrifum.

En af hverju getum við þá farið af stað með Vaðlaheiðargöng? Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson rakti forsöguna og kom inn á það að um alllangan tíma hefði verið unnið að þessu verkefni alveg frá árinu 1998 þegar þingsályktunartillagan var lögð fram. Menn voru vissulega farnir að ræða þetta löngu áður vegna þess að Víkurskarð er vissulega farartálmi hvað sem öðrum fjallvegum og farartálmum líður. Hægt er að ráðast í þessa framkvæmd vegna þess að íbúar á Norðurlandi eru reiðubúnir að greiða fyrir umferð í gegnum göngin. Íbúar á Norðurlandi hafa sagt: Við ætlum ekki að leggja þetta á skattborgara landsins. Við ætlum að standa undir fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

Um tíma stóð til að fjármagna vegi kringum höfuðborgarsvæðið með sambærilegum hætti. Um það var hins vegar engin samstaða. Sunnlendingar lýstu sig ekki reiðubúna að greiða sérstaka vegtolla fyrir að aka yfir Hellisheiði. Ég virði skoðun þeirra en mikil og eindregin samstaða er um það á Norðurlandi, ekki bara í Eyjafirði heldur líka í Þingeyjarsýslum öllum, að þannig verði málum háttað með Vaðlaheiðargöng. Þetta er mergur málsins. Ríkisendurskoðun kom á fund fjárlaganefndar og gerði ekki athugasemdir við það hvernig málum yrði háttað varðandi ríkisreikning og er það vel vegna þess að við eigum að vanda okkur og ég hef verið talsmaður þess. En þeir bentu á að þetta væri eign ríkisins. Ríkið mundi eignast göngin þegar lánstíminn væri á enda. Ég vil benda á að jafnvel þó að menn tali um 25 ár þá er heimild til að lengja í þeim lánum og Norðlendingar eru reiðubúnir að greiða lengur fyrir akstur í gegnum göngin ef umferð þar reynist minni en varfærnustu umferðarspár segja til um. Ég held að við verðum að taka tillit til alls þessa, virðulegi forseti. Afkoma ríkisins hefur alltaf legið fyrir með einum eða öðrum hætti.

Ég skal samt viðurkenna að margt hefur verið sagt um Vaðlaheiðargöng sem stenst því miður ekki skoðun. Því verða þeir sem eiga sæti í ríkisstjórninni að bera ábyrgð á. Samfylkingin lagði til dæmis fram þá tillögu fyrir kosningarnar 2007 að Vaðlaheiðargöng ættu að vera gjaldfrjáls og þau ættu að koma strax. Ekki reyndist fótur fyrir því enda kom í ljós þegar einn þingmaður kjördæmisins tók við lyklunum að samgönguráðuneytinu að hann gat ekki staðið við þær fullyrðingar sínar. Það eru svona fullyrðingar sem ég held að hafi eyðilagt svolítið fyrir þessu góða máli og gert að verkum að meiri ágreiningur er um það en efni standa til.

Segjum sem svo að við tækjum Vaðlaheiðargöng inn á samgönguáætlun. Þá held ég að þau fari aftar í röðina en bæði Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, það er eðlilegt, og jafnvel aftar en aðrar jarðgangaframkvæmdir og einhverjar vegabætur. Það þarf til dæmis að endurnýja Ólafsfjarðargöng, breikka þau með tíð og tíma. En þá liggur fyrir að ríkið mundi að sjálfsögðu greiða fyrir framkvæmdina í botn og það mundi ekki kosta eins og það að aka í gegnum Vaðlaheiðargöng. Það væri eins ósanngjarnt og hugsast gæti. Þá stöndum við frammi fyrir þessari spurningu: Er þetta kannski besta leiðin fyrir ríkissjóð? Í staðinn fyrir að þurfa að borga fyrir framkvæmdina 100% í 10–25 ár getur ríkissjóður farið af stað með framkvæmd, tekið fyrir henni lán og farið fyrr í hana en ella vegna þess einmitt að menn eru reiðubúnir að borga fyrir þá umferð sem á að fara í gegn. Ég held að menn ættu að vera sanngjarnir hvað það varðar að þetta er langhagkvæmasta og ódýrasta lausnin fyrir ríkissjóð.

Ef umferðarspár ganga eftir munu göngin standa undir sér 100%. Ef verstu spár rætast hins vegar, og við eigum að sjálfsögðu að skoða þær og taka tillit til þess, þá fær ríkið framkvæmd á 70–100% afslætti. Menn hafa talað um að verið sé að taka þetta fram fyrir aðrar vegaframkvæmdir. Ef þetta er gert verður hægt að ráðast í aðrar samgöngubætur eftir þennan tíma þegar Vaðlaheiðargöng ættu að fara af stað og ég held að menn ættu að vera sanngjarnir með þetta.

Margt hefur verið sagt um umferðaröryggi sem eykst vissulega við gerð Vaðlaheiðarganga. Ég hef verið þeirrar skoðunar að menn eigi að fara varlega í að bera saman einstaka vegarspotta víðs vegar um landið og ég held að þeir sem berjast fyrir Vaðlaheiðargöngum átti sig á því að til eru hættulegri vegarspottar sem þarf að ráðast í og það þarf að ráðast í vegabætur til að reyna að fækka slysum víðs vegar um landið. En Vaðlaheiðargöng eru vissulega samgöngubót og þau munu auka umferðaröryggi.

Talað hefur verið um að umferðin muni ekki fara í gegnum Víkurskarð. Ég held að menn átti sig einfaldlega ekki á staðháttum. Þegar Víkurskarðsvegurinn var lagður þá var önnur leið fær, akvegurinn yfir Vaðlaheiði sjálfa. Ég get upplýst hlustendur og Alþingi um að sá vegur er enn fær á sumrin. Ég hef meira að segja farið yfir hann á fólksbíl. Samt lagðist umferð um einn af þessum fallegustu akvegum landsins nánast algerlega af þegar vegurinn um Víkurskarð kom. Ég hef það fyrir víst að umferð um þennan gamla veg sé nánast engin í dag. Menn spara ekki sérstaklega mikinn tíma með því að fara veginn um Víkurskarð, hann er bara miklu öruggari en gamli Vaðlaheiðarvegurinn var.

Þegar menn ræða umferðarspár þá skulum við velta því fyrir okkur hverjir eru bestu sérfræðingarnir þegar kemur að því. Það er Vegagerðin. Þegar við tökum þær spár sem Vegagerðin hefur gert þá verðum við að vera sanngjörn og horfa til þess að Vegagerðin hefur yfirleitt verið mjög varfærin í spám sínum. Við getum tekið umferð um Héðinsfjarðargöng sem voru mjög umdeild, ekki ósvipuð og Vaðlaheiðargöngin eru nú og jafnvel Hvalfjarðargöngin voru á sínum tíma. Þau voru vissulega umdeild en umferðin hefur aukist um allt að 100% frá því sem Vegagerðin spáði. Ég held að við getum verið bjartsýn, virðulegi forseti, þegar kemur að þessari miklu og góðu framkvæmd sem mun vissulega bæta lífsskilyrði á köldu svæði í atvinnulegu tilliti, mikil og breið samstaða er um það meðal sveitarfélaga á Norðurlandi. Við þingmenn kjördæmisins, sem erum sammála um þessa vegaframkvæmd, þolum það að vera kallaðir kjördæmapotarar en ég verð að segja fyrir mitt leyti að þegar slíkt er sagt um allt það ágæta fólk sem býr á Norðurlandi og er sammála um þessa framkvæmd þá staldra ég aðeins við. Ég held að við ættum frekar að ræða mál efnislega í staðinn fyrir að vera að kalla alls konar þannig orð fram í umræðuna.

Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram í þingsal. Ég er ósammála mörgu sem fram hefur komið, sérstaklega því að málið eigi heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Ég held að málið eigi alls ekki heima þar vegna þess að þetta snýr að ríkisábyrgð fyrst og fremst. Málið hefur verið rætt í samgöngunefnd, var inni á samgönguáætlun fyrir árið 2007–2010. Þar var málið samþykkt með 54 samhljóða atkvæðum. Mikil samstaða hefur verið um að hleypa þessu verkefni af stokkunum. Sá ágreiningur sem vísað er til núna er að vísu minni en ég taldi að hann yrði. Færri þingmenn hafa komið upp og tekið til máls, sömu þingmenn og eru í andsvörum og vilja finna þessu allt til foráttu. Umhverfis- og samgöngunefnd ákvað að taka málið til sín. Ég tel að hún hafi ekki haft heimild til þess. Ég held að við ættum að horfa til þess að nefndir séu ekki að fjalla um sambærileg mál. Ég veit að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er sammála mér um að við eigum að auka agann á Alþingi hvað þetta varðar, ég gef mér að hann sé það. Ég skil ekki alveg þær handahreyfingar hans sem ég sé nú, en ég lýk máli mínu.