Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 19:47:26 (11370)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna jarðgöng undir Vaðlaheiði.

Ég tel afskaplega mikilvægt að við förum út í samgönguframkvæmdir af ástæðum sem ættu að vera augljósar, en þessar eru kannski ekki augljósar öllum. Það vekur að vonum athygli þegar hugmyndir um stærri vegaframkvæmdir koma frá hæstv. ríkisstjórn eða stjórnarmeirihlutanum.

Ég held að almennt megi segja að góð reynsla hafi verið af jarðgangagerð á Íslandi og sú framkvæmd sem hefur verið fjármögnuð með veggjöldum, þ.e. önnur þeirra, þær eru held ég tvær, hefur gengið mjög vel.

Ef ég man rétt var hugmyndin sú að Reykjanesbrautin yrði fjármögnuð með veggjöldum en um það urðu miklar deilur. Þá er ég ekki að tala um tvöföldunina heldur áður fyrr. Ef ég man rétt þá sprengdu einhverjir í skjóli nætur upp þann skúr sem var notaður til að innheimta veggjaldið. Í kjölfarið var hætt við þá leið og var hún ekki tekin upp aftur fyrr en menn fóru út í framkvæmdir við Hvalfjarðargöng, sem ég held að hafi verið 1988.

Hugmyndin að fjármagna samgönguframkvæmdir með veggjöldum, í það minnsta var það réttlætingin þegar farið var í Hvalfjarðargöng á sínum tíma, var að menn hefðu val. Hægt var að keyra fyrir fjörðinn ef menn vildu það og menn geta það svo sannarlega áfram og eftir reyndar mjög góðum vegi og þó að hann sé frekar varhugaverður eins og hann liggur er hann lagður bundnu slitlagi sem þótti mikil bylting þegar það var gert. Ég hef keyrt þann veg ansi oft á ævinni, ólst upp í Borgarnesi og ég fór oft með foreldrum mínum til Reykjavíkur. Ég man tímana tvenna hvað varðar þær samgöngur. Þegar ég fór í fyrsta skipti frá Borgarnesi til Reykjavíkur og til baka var sáralítið lagt bundnu slitlagi. Það var ekki fyrr en komið var til Reykjavíkur sem maður komst á slíka vegi. Þá var engin Borgarfjarðarbrú, það voru bara síkisbrýrnar og svo sannarlega engin Hvalfjarðargöng, bara malarvegir og einbreiðar brýr. Ef hestamannamót voru á Hvítárvöllum mátti fólk setja sig í þolinmæðisgírinn og bíða lengi eftir því að hestar kæmust leiðar sinnar og ég tala nú ekki um þegar langar bílalestir voru í báðar áttir við Hvítárbrú og síkisbrýrnar.

Virðulegur forseti. Það er mjög stutt síðan þetta var en sem betur fer hefur verið lyft grettistaki í samgöngumálum á síðustu 20–30 árum og við erum komin á þann stað að flestir umferðarmeiri þjóðvegir eru lagðir bundnu slitlagi, en við höfum hins vegar ekki staðið okkur í því að hanna þá þannig að þeir séu eins öruggir og mögulegt er.

Hér er ekki um það að ræða að taka veg sem er ekki lagður bundnu slitlagi. Sú leið sem á að stytta er lögð bundnu slitlagi þótt þeir vegir sem þar eru mættu vera öruggari. Það veldur miklum vonbrigðum þegar maður skoðar þær tillögur sem lagðar eru fyrir varðandi þessa framkvæmd að menn munu áfram keyra hættulegasta vegarslóðann þrátt fyrir að farið verði í framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng sem flest bendir til.

Það er ekki hægt að segja að við séum að forgangsraða í þágu umferðaröryggis — þá á ég við að við tækjum hættulegustu vegina fyrst. Í samgöngumálum okkar erum við ekki að fara þá leið þó að við höfum öll tæki til þess. Ég kem aðeins inn á umferðaröryggismál á eftir.

Það sem veldur mér áhyggjum í þessu og mér finnst vera partur af gamalli tíð, sem ég hélt að við værum að reyna að vinna okkur út úr, er að ekki er hægt að sjá að þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar gangi upp. Mér finnst kannski alvarlegast að þeir sem berjast harðast fyrir þessu tala eins og það sé í lagi, eða það er réttlætingin sem maður heyrir fyrir þessari framkvæmd, að forsendurnar gangi ekki upp, þ.e. hinar fjárhagslegu forsendur. Þá er allt tínt til og menn nefna tekjur ríkisins af þessu og annað slíkt, þ.e. skatttekjur, þetta verði mjög ódýr framkvæmd sem kosti um 9 milljarða því að það muni alltaf einhverjir keyra í gegnum göngin og þó svo það fari á versta veg snúist það um 4–5 milljarðar eða eitthvað slíkt.

Það má vel vera að hægt sé að leggja hlutina upp með þessum hætti en í upphafi var þetta kynnt og lagt þannig fram að hér væri um einkaframkvæmd að ræða, ríkið þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu. Menn nefndu Hvalfjarðargöngin og þessa framkvæmd í sömu andrá. Það gengur ekki upp, þetta er ekki slík framkvæmd. Ég var fylgjandi Hvalfjarðargöngunum og það hefur gengið afskaplega vel með þau en í þessu tilfelli verður ekki séð að við getum farið Hvalfjarðargangaleið. Það er alveg sama hverjir hafa skoðað þetta, hvort það er Ríkisábyrgðasjóður eða aðrir aðilar, menn komast alltaf að þeirri niðurstöðu að forsendurnar séu of veikar.

Ef við hugsum þetta út frá sjálfum okkur, sleppum vaxtastiginu og öðru slíku sem er að vísu gríðarlega mikilvægt, og höfum það eins einfalt og það getur orðið þá þarf hver og einn að svara að þessu: Muntu greiða 1.000 kr. fyrir að spara þér 10–11 mínútna keyrslu? Það er grunnspurningin. Ég er ansi hræddur um að fæstir muni gera það, sérstaklega ekki á þeim tímum ársins þegar veður er gott og ekkert ýtir á að fólk fari í gegnum göngin. Það segir okkur að litlar líkur eru á því að þetta gangi upp.

Þeir aðilar sem hafa skoðað þetta og komið með, að mér finnst, málefnalega gagnrýni hafa stundum verið úthrópaðir fyrir það, sem mér finnst slæmt og slæmt dæmi um íslenska umræðuhefð. Þeir hafa bent á að skynsamlegra væri að fara aðrar leiðir. Þeir benda á frændur vora, Norðmenn, sem setja frekar fjármagn eða hlutafé í slík verkefni og fara jafnvel þá leið að ryðja ekki veginn, þ.e. valkostinn eins og fyrir Víkurskarðið, á veturna. Væri sú leið farin mundi sparast kostnaður og sömuleiðis yrði fólk að fara í gegnum göngin og það mundi hjálpa til við að fjármagna þau þó að það lenti þá á því fólki. Það er fólkið sem berst hvað harðast fyrir þessu og af ástæðu. Ég get alveg skilið baráttu fólks á þessu svæði fyrir samgöngubótum en mér finnst ótrúlega dapurlegt að eftir að þetta hefur farið í gegnum hv. nefndir þingsins hafi ekki komið raunhæfari áætlanir um hvernig eigi að ná þessu fram. Mér hefði fundist miklu eðlilegra að hingað kæmu forsendur sem flestir gætu sætt sig við og menn legðu þá bara heiðarlega á borðið að það þyrfti 2 eða 3 milljarða, ég veit það ekki, í þetta verkefni.

Það er alveg sama hvernig menn leggja þetta niður fyrir sér þeir komast alltaf að þeirri niðurstöðu að forsendurnar ganga ekki upp. Ef við ætlum að sætta okkur við það í þessu verkefni hljótum við að gera það í öllum öðrum verkefnum líka. Ef það er orðin regla hér að okkur finnist sjálfsagt að fara út í verkefni, sama hvaða verkefni það er, vitandi að veikar forsendur séu fyrir fjármögnun þess, hvar ætlum við þá að stoppa? Ef það er í lagi í sambandi við Vaðlaheiðargöng hlýtur það sama að eiga við um öll önnur samgöngumannvirki.

Við erum í þeirri stöðu að það er mikil vöntun á umferðarmannvirkjum. Mínar áherslur eru einfaldlega þær að hafa forgangsröðun í þá átt að taka fyrst og fremst hættulegustu vegarkaflana innan þéttbýlis og á þjóðvegunum alls staðar á landinu og reyna að útrýma þeim. Þær áherslur er því miður hvorki að finna í þessu verkefni né í samgönguáætlun. Búið er að taka út helstu þjóðvegi landsins. Ég held að það sé búið að merkja um 370 talsins út frá alþjóðlegum stöðlum sem eru notaðir um allan heim, svokallaðir EuroRAP-staðlar, sem ég hvatti hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarsson, til að fara í á sínum tíma. Sem betur fer fór hann í það og þess vegna erum við með þessar upplýsingar. En við erum ekki að fara í þá vegferð.

Þvert á það sem menn halda er hægt að koma í veg fyrir umferðarslys með hönnun umferðarmannvirkja. Ef þau eru rétt hönnuð eru minni líkur á umferðarslysum. Nú skyldi einhver spyrja: Hvað kosta umferðarslys á Íslandi á ári? Ég áttaði mig á því að það væru háar upphæðir og miðað við þær upplýsingar sem ég hef bestar hleypur kostnaðurinn á tugum milljarða. Menn segja á milli 20 og 30 milljarða. Tilfinningalegur kostnaður er auðvitað ekki inni í því heldur bara kostnaður heilbrigðiskerfisins. Mér þykja þetta vera ótrúlega háar tölur en á von á því að við fáum betri upplýsingar um þetta fljótlega. Ef þetta er rangt, ég hef þetta eftir því fólki sem ég treysti og þekkir hvað best til, segjum að kostnaðurinn sé helmingurinn af þessu þá breytir það því ekki að ef við náum niður þeim kostnaði erum við með mun meiri fjármuni milli handanna hvort sem við mundum nota þá í aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar eða í að bæta umferðarmannvirki.

Mér finnst sérkennilegt að á sama tíma og ríkisstjórnin setur fram áætlanir um að fresta í 10 ár öllum stærri vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu, sem kemur eingöngu niður á Reykjavík, finnst mönnum sjálfsagt að fara í verkefni sem er ekki með betri fjárhagslegan grundvöll en hér er um að ræða.

Ég vil vekja athygli á því að hættulegustu vegarkaflarnir, hættulegustu vegamótin, í þéttbýli á Íslandi eru eiginlega öll í Reykjavík. Nú kynni einhver að segja: Það þarf að gera rosalega stór umferðarmannvirki — eða eitthvað slíkt. (Gripið fram í.) Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kallar að ég sé í kjördæmapoti. Ég er þingmaður Reykvíkinga, það er hárrétt, og menn geta kallað mig hvað sem er en ég vil útrýma hættulegum vegarköflum þó að þeir séu í Reykjavík. Það er oft hægt að gera það með tiltölulega litlum tilkostnaði. Auðvitað kosta samgöngumannvirki mikið en hringtorg í stað umferðarljósa og annað slíkt er mun betri leið. Á ekkert af þessu er hlustað. Það eru engar áætlanir um að forgangsraða í þágu umferðaröryggis, því miður. Ég hef svo sem ekki heyrt neinn hv. þingmann eða hæstv. ráðherra tala gegn því prinsippi en svo sjáum við samgönguáætlun. Það er allt á sömu bókina lært. Ég held að 200 milljónir séu settar í umferðaröryggismál í samgönguáætlun. Með fullri virðingu fyrir því þá dugar það skammt ef menn forgangsraða ekki í þágu umferðaröryggis.

Á Íslandi hefur alvarlegum umferðarslysum fjölgað. Við höfum náð árangri í mörgu sem varðar umferðaröryggi en þessum slysum hefur fjölgað, ekki mikið og örugglega er hlutfallslega einhver fækkun miðað við aukningu umferðar. En hvað er á bak við sérhvert alvarlegt umferðarslys, hvað þýðir það? Það þýðir að viðkomandi nær aldrei fullum bata og því miður er oft um að ræða varanleg örkuml.

Sama hvernig ástandið er í þjóðfélaginu mundi maður ætla að hægt væri að sameinast um að forgangsraða í þágu umferðaröryggis. Það ætti sérstaklega að eiga við þegar minna er um fjármuni eins og nú er. Þá mundi maður ætla að breið og góð pólitísk samstaða væri um það á Alþingi, en svo er ekki. Nú gæti einhver sagt: Hv. þingmenn hugsa bara um sitt kjördæmi — og þess vegna sé þetta ekki hægt. Þingmenn eru kosnir af fólki sem býr á ákveðnum svæðum og ég geri engar athugasemdir við það að hv. þingmenn líti til sinna svæða og segi: Hér er eitthvað að og það þurfum við að bæta — og það á sérstaklega við um samgöngumannvirki. Ég hefði hins vegar viljað sjá hv. þingmenn leggja áherslu á að taka út hættulegustu vegina, hættulegustu vegarspottana, áhættumestu svæðin í sínum kjördæmum. Ef við kæmumst á þann stað að rífast um það værum við komin mjög langt.

Ef einhver spyr mig: Ertu á móti Vaðlaheiðargöngum? — er ég ekki á móti þeim. Ég er ekki á móti neinum góðum samgöngumannvirkjum og styttingum á vegalengdum eða ég ætla ekki að segja að ég sé ekki á móti neinum, það er ekki rétt, stundum eru auðvitað umhverfisástæður og ýmsar aðrar ástæður sem vega þyngra, en mér finnst þau vinnubrögð meiri hluta hv. fjárlaganefndar að koma ekki með raunverulegan ábyrgan valkost eftir að hafa farið yfir málið fyrir neðan allar hellur. Ég held að þessi vinnubrögð hv. þingmanna séu það sem hefur skaðað hvað mest í þessu máli. Það er engum greiði gerður með því að vinna hlutina með þessum hætti. Þeir hv. þingmenn sem skrifa undir nefndarálit meiri hlutans skulu aldrei koma og tala um hversu mikilvægt það er að styrkja þingið og bæta vinnubrögðin (Forseti hringir.) því að þetta er skólabókardæmi um hvernig ekki á að vinna á hv. Alþingi.