Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:07:51 (11371)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég tek undir það að líkamstjón verður kannski aldrei metið almennilega til fjár og við ættum fyrst og fremst að einblína á þá staði þar sem mestu slysahætturnar eru. Þegar ég var að læra skaðabótarétt árið 2007 að mig minnir var eitt mannslíf metið á 100 millj. kr. Það væri fróðlegt að uppreikna það til dagsins í dag. Ríkissjóður verður náttúrlega af himinháum upphæðum í skatttekjum þegar banaslys verða á hættulegum vegköflum og ég tala nú ekki um slys með miklum örkumlunum.

Það var ekki það sem ég ætlaði að spyrja um heldur lokaorð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar en hann ræddi um að þingið ætti að vanda sig og aðgreina sig frá framkvæmdarvaldinu. Það kemur fram í minnihlutaáliti 1. minni hluta sem hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Illugi Gunnarsson skrifa undir, að þegar lífeyrissjóðirnir hurfu frá verkefninu haustið 2010 og kærðu sig ekki um að taka þátt í því og töldu sig ekki fá nógu mikla ávöxtun á verkið, tók umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis málið upp aftur að eigin frumkvæði haustið 2011, í fyrra. Hún óskaði jafnframt eftir því að óháðum aðilum úti í bæ yrði falið að kortleggja sem best hagsmuni ríkisins, áhættu og óvissuþætti. Nú varð ekkert úr þessari beiðni vegna þess að framkvæmdarvaldið, þá hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, tók verkefnið til sín og valdi sjálft stofu til að vinna þetta fyrir sig. Hvað finnst þingmanninum um þessi vinnubrögð, að þegar nefnd (Forseti hringir.) óskaði eftir óháðri skýrslu greip hæstv. ríkisstjórn inn í málið og valdi ráðgjafa sjálf?