Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:15:11 (11375)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þó svo að ég hafi verið eitthvað að atast í hv. þingmanni utan úr sal verð ég sammála honum um að það er vitanlega gríðarlega mikilvægt að setja fjármuni í að eyða hættulegustu vegköflunum, gatnamótum og stöðum sem þekktir eru á landinu öllu og ekki síður í Reykjavík en annars staðar, það er alveg hárrétt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvers vegna hann telur að sú aðferðafræði sem hér er notuð hafi ekki verið notuð á höfuðborgarsvæðinu við að fara í framkvæmdir eins og til dæmis Sundabraut og verkefni sem eru klárlega gríðarlega mikilvæg fyrir Reykvíkinga og alla landsmenn til að tryggja auðvelda aðkomu að höfuðborginni og tengja hana betur við landið.

Annað sem skiptir líka máli fyrir höfuðborgina, þannig að það sé bara sagt og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur vakið athygli á, er hvað gerist ef einhvers staðar verður eldgos eða jarðskjálfti eða eitthvað slíkt, til dæmis í Bláfjöllum, hvert eiga höfuðborgarbúar að fara? Það er stór spurning. Menn muna eftir hátíðarhöldunum á Þingvöllum þegar sumir komust ekki einu sinni þangað, komust bara í bensínstöð til að fá sér pulsu. (VigH: Það er ekki …) (ÁPÁ: Sumir komust bara á klósettið.) Já, þetta eru stórar spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur og því er eðlilegt að kalla eftir svörum frá hv. þingmanni Reykvíkinga um hvers vegna hann telur að ekki hafi verið farið eftir þeirri aðferðafræði að ráðast í gríðarstór verkefni sem bíða á höfuðborgarsvæðinu, bæði þær sem tryggja öryggi höfuðborgarbúa og auðvelda þeim að fara út á land.