Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:17:20 (11376)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson séum sammála um að samgöngur eru fyrir alla. Ef maður býr í Reykjavík finnur maður meira fyrir því ef samgöngum er ábótavant hér. En landsbyggðarfólk keyrir um í Reykjavík og öfugt. Ef eldsneytisgjaldstefna ríkisstjórnarinnar væri aðeins öðruvísi mundum við gera miklu meira af því að keyra um landið. Það hefur aldrei verið hagkvæmara að ferðast um landið og ég veit að fólk hefur mikinn áhuga á því.

Það skiptir engu máli, það er alltaf jafnalvarlegt hvort sem Norðlendingur slasast eða í Reykjavík eða Reykvíkingur slasast á Norðurlandi eða Austurlandi, það er bara svo blóðugt og sorglegt til þess að vita að við gætum svo oft komið í veg fyrir með litlum tilkostnaði, með breyttri forgangsröð, betri hönnun að fólk á öllum aldri, sérstaklega ungt fólk, slasist og sé örkumla um alla ævi. Við verðum að fara að hugsa út frá þessu.

Þegar hv. þingmaður spyr svo velti ég fyrir mér: Ef þetta frumvarp verður samþykkt eigum við þingmenn Reykvíkinga eða aðrir að hlaupa til og reyna að búa til félög utan um einstakar vegaframkvæmdir, Hlíðarfót eða Sundabraut eða hvað það nú er? Og þegar menn segja: Heyrðu, þetta gengur ekki alveg upp í krónum og aurum, þá segja menn: Ef þetta fer á versta veg verður þetta allt svo hlutfallslega ódýrt. Allt það sem gert er skapar fordæmi og það er ekki gott fordæmi að fara þessa leið.