Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:20:45 (11378)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið í lok andsvars síns. Ef við ætlum að gera þetta núna hljótum við að ætla að gera þetta almennt. Menn hljóta að hlaupa til og fara að stofna félög og ætlast til þess að hið sama verði gert varðandi einstakar vegaframkvæmdir sama hvar þær eru á landinu og þó svo að bent sé á að viðkomandi verkefni gangi ekki upp fjárhagslega og engin lán fáist í það vegna þess að það borgi sig ekki hljótum við að afgreiða öll málin (Gripið fram í.) vegna þess að við viljum þá fá eitthvað inn af vegtollum á móti. Verður það ekki þannig ef við ætlum að afgreiða þetta mál svona? Ekki ætlum við að taka eitt verkefni út og láta svo allt aðra reglu gilda um önnur verkefni. Er það það sem menn eru að biðja um? Menn komu hingað upp og sögðu: Þetta er einkaframkvæmd, ríkið þarf ekki að hafa áhyggjur af henni, skattgreiðendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af henni því að hún er fjármögnuð með veggjöldum.