Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:22:12 (11379)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:22]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni, kannski einna helst vegna þess að hann talaði um þessa framkvæmd í samhengi við samgöngumál almennt og þau viðmið sem við höfum þar eins og til dæmis umferðaröryggi sem er gríðarlega mikilvægur þáttur. Það var einmitt þetta sem ég byrjaði að segja í dag undir liðunum fundarstjórn forseta, að þetta mál yrði að ræða í samhengi við samgönguáætlun í heild sinni, það yrði að skoða heildstætt ekki síst vegna þess að hér blasir við, eins og ítrekað hefur komið fram í dag, eina forsendan fyrir því að þessi framkvæmd var tekin fram fyrir aðrar mun brýnni framkvæmdir, er brostin. Sú forsenda var að framkvæmdin stæði undir sér sjálf. Hún er í það minnsta langt frá því vera hafin yfir eðlilegan vafa. Þess vegna hlýtur maður að flokka verkið sem ríkisframkvæmd sem eigi heima í samgönguáætlun og eigi að raðast þar eftir þeim forsendum sem þar eru hafðar til hliðsjónar.

Er hv. þingmaður sammála því að ræða eigi þetta verkefni í heild sinni innan ramma samgönguáætlunar og sem ríkisframkvæmd? Því er mikið hampað að verkið sé þjóðhagslega hagkvæmt. Reyndar efast ýmsir um forsendur þeirra útreikninga en það er annað mál. Þarf ekki að fara fram heildstæð úttekt á því hversu hagkvæmt það (Forseti hringir.) er fyrir þjóðarbúið að fækka alvarlegum slysum og þurfum við ekki að fara að hugsa hlutina (Forseti hringir.) út frá því frekar en út frá gildi vegtolla?