Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:49:19 (11384)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra kærlega fyrir þessa ræðu. Hann fór yfir feril og tímalínu málsins og gerði það mjög vel, allt frá því að þingsályktunartillagan var samþykkt á sumardögum 2008 og til dagsins í dag

Hann kom víða við jafnframt og fór í lokin að tala um Vegagerð ríkisins og sameiningu í Farsýsluna. Ég ætla að geyma þá umræðu þar til það mál kemur á dagskrá vegna þess að það er mjög umdeilt, og ætla að einbeita mér að því máli sem er hér á dagskrá.

Nú telur ráðherrann að breyttar forsendur séu fyrir þessu verkefni vegna þess að nú hefur ríkisstjórnin kynnt framtíðarverkefni næstu ára. Segja má að þótt ríkisstjórnin kynni framtíðarsýn sé það kannski ekki bindandi fyrir nýja ríkisstjórn því það styttist mjög í kosningar. Ráðherra telur að röðunin hafi orðið önnur vegna þess að þarna eru komnar inn á áætlun stórframkvæmdir sem á að taka fram fyrir og annað sem á t.d. að fjármagna með nýju veiðileyfagjaldi.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hvers vegna hæstv. innanríkisráðherra beitir sér ekki fyrir því að þessi framkvæmd sem við ræðum hér, Vaðlaheiðargöng, fari inn í samgönguáætlun eins og hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði til í morgun. Það plagg er alltaf í skoðun og þó að þessi hugmynd hafi komið fram í aðdraganda hrunsins og samþykkt þingsályktunartillaga um að fara í þessar framkvæmdir, hvers vegna er alltaf litið á það sem einhverja heilaga, óbreytanlega staðreynd? Er ekki skynsamlegast að ræða um þetta saman? Ráðherra fór aðeins yfir það. (Forseti hringir.) Er ekki tímabært að taka það skref?