Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:51:34 (11385)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er alveg sammála þessu. Það hefur komið fram áður að þegar þetta mál fór út úr ríkisstjórn var það ekki með samþykki mínu. Ég hef sterkan fyrirvara í þessu máli eins og ég hef gert grein fyrir í ræðustól. Ég er alveg sammála því að þessi framkvæmd á með réttu að fara inn í samgönguáætlun. Auðvitað gæti það vegið þar, og mundi að sjálfsögðu gera það, sem ákveðinn flýtikostur við þessa framkvæmd að hún yrði að hluta til fjármögnuð með veggjöldum. Það gæti gert það. Ég hef hins vegar trú á því að ef við horfum á þessa framkvæmd með hliðsjón af öryggi á vegunum þá komi hún ekki mjög ofarlega á blaðið.

Ég ítreka að veggjaldaþátturinn gæti að sjálfsögðu skipt miklu máli ef við mundum forgangsraða þessu máli á vegáætlun. Þá þurfum við bara líka að gera það og kalla hlutina alveg réttum nöfnum.

Ég vek líka athygli á ábendingu eða varnaðarorðum Vegagerðarinnar um að það sé óhyggilegt að vera með tvenn göng í framkvæmd í einu, eins og ég sagði áðan. Ég ítreka að við þurfum að hugsa til þeirrar staðreyndar líka. Þetta hefði horft öðruvísi við ef við hefðum haldið okkur við þá hugsun að ráðast ekki í Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöng fyrr en eftir 2015 eins og ráðgert var í þeirri samgönguáætlun sem ég kynnti í vetur.