Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 21:08:24 (11395)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á undanförnum hálfum mánuði hef ég tekið við undirskriftum úr Fjarðabyggð þar sem hvatt er til þess að Norðfjarðargöngum verði flýtt. Ég hef tekið við undirskriftum á Vestfjörðum þar sem hvatt er til að gerð Dýrafjarðarganga verði hraðað og þau reyndar sett fram fyrir Norðfjarðargöng, gagnstætt því sem tillögur samgönguáætlunar kveða á um. Mér væri það mikið gleðiefni ef okkur tækist að flýta þessum framkvæmdum. Sjálfum finnst mér ekki koma til greina, ef kostur er á því að ráðast í gerð þessara ganga fyrr en áður hefur verið ráðgert, að seinka því. Mér fyndist það mikið gleðiefni. Ég veit að þar tala ég fyrir munn okkar allra hér í þingsal að við viljum sjá þessar samgöngubætur (Forseti hringir.) á Austurlandi og einnig á Vestfjörðum.