Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 21:40:38 (11403)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það hefur á undanförnum árum verið þáttur í kannski viðreisn landsins og nútímavæðingu íslensks stjórnkerfis að endurhugsa þetta ríkisábyrgðakerfi. Ríkisábyrgðir voru veittar hér áður nokkuð tilviljanakennt og án mikillar umhugsunar í hvert skipti. Þetta var gagnrýnt verulega og hefur verið unnið í þessu máli af töluverðu viti, eins og má reyndar sjá af áliti sem kemur frá ábyrgðarmönnum Ríkisábyrgðasjóðs um þetta frumvarp.

Ég tel að það þurfi miklu betri rökstuðning, miklu skýrari rök fyrir því að þetta verkefni njóti þessarar ívilnunar. Hér hafa verið deilur, t.d. um ríkisábyrgð fyrir flugfélög í vanda, vegna þess að menn hafa tekið þá prinsippafstöðu að það eigi ekki að gera þetta nema mjög mikið liggi við, vegna þess að þetta eru fjármunir almennings sem hér liggja undir og ekki einhverjir peningar úti í bæ.

Mér hefur komið til hugar að hægt væri að samþykkja þetta frumvarp einmitt án þessara ríkisábyrgðarákvæða þannig að vissulega mætti veita lánið, það væri hugsanleg málamiðlun, (Forseti hringir.) að vissulega mætti veita lánið en alls ekki á þessum forsendum, og væri fróðlegt að vita hvað hv. þingmanni finnst um þá hugdettu.