Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 21:48:02 (11407)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann til viðbótar. Hv. fjárlaganefnd var falið að fara yfir frumvarp hæstv. fjármálaráðherra og það sem snýr að þessari ríkisábyrgð. Menn hafa talað um hvort þetta sé einkaframkvæmd eða ríkisframkvæmd. Alveg klár niðurstaða í mínum huga studd af Ríkisábyrgðasjóði, Ríkisendurskoðun, Vegagerðinni og Seðlabankanum — þetta er ríkisframkvæmd, ekki einkaframkvæmd. Það er bara verið að setja þetta í einhvern búning sem ég kann ekki að útskýra hvað á eiginlega að þýða. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann geti tekið undir niðurstöðuna í áliti okkar sem við höfum verið að ræða, að það beri að sjálfsögðu að vísa málinu aftur til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem það færi í eðlilegan farveg í samgönguáætlun og tekið yrði tillit til þess hvað veggjöldin þýða sem er auðvitað pósitívt fyrir verkefnið í heild sinni. Er hv. þingmaður sammála þessu?