Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:10:18 (11412)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það er rétt að fjárfestar hafi ekki trú á verkefninu er augljóst að settar hafa verið rangar tölur inn í excel-skjalið í upphafi því að ef fjárfestar meta það svo að verkefni með þessa ávöxtun beri sig ekki er augljóst að það vantar einhverjar kostnaðarbreytur þar inn í eða þá að rangar tölur séu settar inn varðandi til dæmis bílafjölda um göngin o.s.frv. Var til dæmis skattpíningarstefna ríkisstjórnarinnar varðandi eldsneytisverð sett inn í breytuna? Verð á eldsneyti hefur aldrei verið eins hátt og nú. Er búið að mæla hversu mikið umferð um þennan veg hefur minnkað eftir að miklar álögur voru settar á bensín o.s.frv.? Það er það sem þetta snýst um, ef kostnaðarbreyturnar eru ekki allar settar inn í upphafi verður ávöxtunarkrafan röng.

Ég skil það ef hv. þingmaður getur ekki upplýst hvaða banki vann þetta og sem fulltrúar komu frá á fund fjárlaganefndar. Ég veit að það er trúnaður um ýmis mál í fjárlaganefnd en ef ekki var óskað trúnaðar þarna væri gaman að þingmaðurinn upplýsti okkur um hvaða banki þetta er. En í sambandi við þá fjármálareglu sem varað er við að brotin sé með þessu verkefni segir mér svo hugur um að eftir að þessi ríkisstjórn tók við og hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hóf að dæla út ríkisábyrgðum hægri, vinstri vegna SpKef, Farice sæstrengsins og Sjóvár-Almennra og annars hafi sú regla verið brotin þó að ekki sé allt upplýst enn um það mál. Það stendur til dæmis í því nefndaráliti sem ég vísaði í áðan frá hv. þingmanni að í lokafjárlögum 2010 þurfti að virkja ríkisábyrgð og bókfæra upp á tæpa 28 milljarða. Það er náttúrlega ekkert vit í þessu.