Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:24:01 (11418)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:24]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er nú orðið kvöldsett en við höldum áfram að ræða um Vaðlaheiðargöng sem ég er sannfærður um að einhvern tíma muni tengja Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur við góðan Fnjóskadal, greiða för og verða lyftistöng og til uppbyggingar í atvinnulífi og mannlífi á þessu svæði. Ég tel að þegar að því kemur verði það þörf framkvæmd, ekki bara fyrir Eyfirðinga og Þingeyinga heldur fyrir alla landsmenn því að það skiptir verulegu máli að Eyjafjarðarsvæðið, miðnorðursvæðið, eflist og sé eins lífvænlegt og hægt er, ekki til þess að mynda mótvægi við Reykjavík eða suðvesturhornið heldur til þess að auðga mannlíf á Íslandi og halda byggð sem víðast um landið. Þróunin er í gagnstæða átt.

Hér hefur verið mikil umræða um þetta mál en hún hefur líka verið góð. Hún hefur verið málefnaleg að mestu leyti og það gerist ekki alltaf í umræðum. Má nú minna á, þó að það kunni að þykja dónalegt af sumum sem hér eru inni, nokkrar umræður síðustu daga og vikna sem ekki hafa breytt mjög mikið stöðu málanna sem umræðurnar voru um. En hér hefur það gerst, og hefur einn þegar haft sig í að ræða einmitt þá staðhæfingu, að mér finnst málið hafa breyst. Mér finnst málið hafa fengið annan svip, það sé nánast í öðrum farvegi í seinni hluta þessarar umræðu en var áður en hún hófst. Það hafa komið fram ýmis viðhorf og ýmsar upplýsingar sem ekki lágu fyrir áður, a.m.k. ekki með þeim hætti sem hér hafa verið settar fram, og líka hafa komið fram hugmyndir um afdrif þessa máls sem við ræðum, þessa þingmáls, um framhald þeirrar hugmyndar eða þeirra áætlana sem hér eru uppi og um næstu skref okkar í þinginu. Þetta tel ég mikilsvert.

Að hluta til held ég að þetta eigi kannski rætur að rekja til þess að í þessari umræðu hafa verið menn úr tveimur fagnefndum, annars vegar úr fjárlaganefnd sem er afgreiðslunefnd þessa máls, það kemur frá fjármálaráðherra og fjallar að formi til um fjárhagsleg málefni, og hins vegar hafa fulltrúar úr umhverfis- og samgöngunefnd verið mjög duglegir í stólnum, einir sex eða sjö hafa tekið til máls og jafnvel fleiri ef taldir eru tíðir varamenn á fundum. Auðvitað hafa aðrir en þeir sem sitja í þessum nefndum verið með í umræðunni. Það hefur helst vantað einlæga stuðningsmenn málsins og frumkvöðla þess en þeir hafa þó talað hér ýmsir, t.d. hv. þm. Björn Valur Gíslason. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson flutti líka snarpar ræður hér fyrr í dag. Ég held að þetta skipti verulegu máli og að við séum núna í þeirri stöðu að geta kannski yfir helgina aðeins talað saman um það hver kynnu að verða næstu skref í málinu og hvort það eigi að halda hér áfram í gegnum þingið og þá með hvaða hætti.

Ég ætla að loknum öllum þessum ræðum ekki að fara yfir málið skipulega, það hefur verið gert með ýmsum hætti, heldur taka frekar nokkra .þætti þess, annaðhvort vegna þess að mér þykir þörf á að koma að athugasemdum eða ábendingum eða vegna þess að það eru þeir þættir sem mér þykja sjálfum mikilvægastir og tel mig geta auðgað málið eitthvað með því að færa fram.

Af því að ég er í samgöngunefnd og er út af fyrir sig nýr þar, hef setið þar í vetur og síðasta þingvetur, staldra ég við sjálfa hugmyndina um veggjöld. Mér finnst rétt að við séum með hana í bakgrunninum og þá umræðu sem farið hefur fram um það hér. Ég ætla ekki að rekja hana sögulega en það er rétt að minna á það að ég held að fyrst hafi veggjöld á Íslandi í nútímasamfélaginu komið upp þegar Keflavíkurvegurinn hafði verið lagður árið 1965, fyrsta hraðbraut á Íslandi í raun og veru. Þá var hann fjármagnaður, a.m.k. að hluta til, með veggjöldum, ætli Marshall, vinur okkar, hershöfðingi hafi ekki komið þar við sögu líka, mig grunar það, hann kom við sögu flestra framkvæmda á Íslandi áratugina marga eftir stríð. Hann veitti meðal annars fé til Laugardalshallarinnar sem menn kynnu að hafa gleymt en það gerði hann með vinsamlegri milligöngu Gunnars Thoroddsens og Gísla Halldórssonar þannig að líklegt er að hann hafi komið nálægt þessu. Ég vona að forseti fyrirgefi þennan útúrdúr. Keflavíkurvegurinn var semsé fjármagnaður með veggjöldum að hluta til sem stóðu allt til 1972, í sjö ár.

Þessi veggjöld voru feikilega óvinsæl. Ég man úr æsku að eitt af því sem maður fékk alltaf að heyra þegar fólk af Suðurnesjum kom í heimsókn til Reykjavíkur, þá var alltaf svolítil umræða um veggjöldin, það var fólk af Suðurnesjum í fjölskyldu minni. Í blöðunum voru líka sífelldar umkvartanir um þetta á svæðinu. Þetta var lagt af eftir þessi sjö ár og ég held að það hafi verið vegna óvinsælda.

Sé ég rétt upplýstur varð svo ekki úr veggjöldum fyrr en með Hvalfjarðargöngunum um 1990 og það er auðvitað sú framkvæmd og þau veggjöld sem hafa mótað þessa umræðu eftir það. Ég held að það megi segja að sú veggjaldaumræða hafi á sínum tíma átt sér ákveðna niðurstöðu, menn hafi komist að samkomulagi um að veggjöld væru afleiðing af einkaframkvæmd, það hlyti að vera einkaframkvæmd sem leiddi til veggjalda, a.m.k. að formi til, og þá færi saman ábyrgð á verkefninu og rekstri þess þótt auðvitað væru ákveðnar skuldbindingar af hálfu ríkisins settar inn í dæmið eins og oft er um framkvæmdir á Íslandi og annars staðar, skattalegar og með öðrum hætti. Þegar um samgöngumannvirki er að ræða sem veggjöld eru heimt af eignast almannasjóðurinn, ríkið, að lokum það mannvirki sem um er að ræða.

Það að önnur leið væri fær skipti verulegu máli í umræðunni um Hvalfjarðargöngin þannig að ekki væri verið að setja menn í stöðu Suðurnesjamanna með Keflavíkurveginum. Það vakti í Íslendingum í þessari umræðu. Að lokum mætti þá víkja út af þeim lögmálum eða reglum sem giltu um venjulegar framkvæmdir þar sem veggjöld kæmu við sögu og væru ákveðnar á vegáætlun sem þá hét og samgönguáætlun nú. Það skiptir máli að hafa þetta fyrir sér.

Það var auðvitað með veggjöldin um Hvalfjarðargöngin, þannig að ég bæti því við, að þeir íbúar sem mest áttu undir þeim göngum, heimamenn, einkum Skagamenn og Borgfirðingar, sættu sig auðvitað betur við það vegna þess að strax í upphafi og allt til þessa dags var þeim veittur verulegur afsláttur af þessum gjöldum. Það er kannski rétt fyrir okkur núna að muna eftir því að dagar þessa afsláttar eru að líkindum liðnir vegna þess að nýjar reglur á Efnahagssvæði Evrópu koma í veg fyrir að hægt sé að veita eins mikinn afslátt og áður var af ákveðnum ástæðum sem við hljótum að virða þó að ekki séu allir ánægðir með afleiðingarnar. Það varðar auðvitað þetta dæmi fyrir norðan.

Síðan má kannski nefna að í framhaldi af þessari veggjaldaumræðu kom upp, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson minntist á, umræða um skuggagjöld en þá er að muna hvað skuggagjöldin voru og eru. Þar er ekki um að ræða veggjöld heldur einkaframkvæmd sem ríkið borgar með tilteknum hætti, þ.e. borgar ekki í eitt skipti fyrir öll þegar verkefninu lýkur eða á umsömdum tíma heldur borgar þá því einkafyrirtæki sem stofnað er, hversu opinbert sem það kann að vera í raun, borgar því fyrir hvert farartæki sem fer um göngin, borgar semsé fyrir notkunina. Þar er ekki um veggjöld að ræða í eiginlegum skilningi.

Það er merkilegt með þetta mál sem við ræðum núna að það á sér þá löngu sögu sem hér hefur verið rakin, bæði í ræðum hv. þm. Kristjáns Þ. Júlíussonar og síðan hæstv. innanríkisráðherra, og nær auðvitað langt aftur. En það má kalla að um það mál sem okkur varðar, fjármögnunina, hafi kannski verið einir fjórir fasar í málinu. Fyrsti fasinn kemur fram árið 2008 í samþykkt Alþingis þar sem gert var ráð fyrir að veggjöld mundu fjármagna um helming framkvæmdarinnar en að helmingi til kæmi ríkið inn í spilið. Þarna var nýr tónn sleginn og maður horfir á þetta ártal, fyrri hluta ársins 2008, og segir við sjálfan sig að þarna hafi kannski verið aðrir tímar en nú, enda er það svo að eftir hrun þegar hugmyndin kemur aftur upp á þinginu er kominn annar fáni á loft, fáni einkaframkvæmdar. Þetta verði þá einkaframkvæmd, hverjir sem að henni standa. Menn muna að lífeyrissjóðirnir áttu að vera sá einkaaðili, hversu einkalegur sem hann nú er, sem átti að sjá um fjármögnun þessarar einkaframkvæmdar. Þótt lífeyrissjóðirnir féllu frá því, þætti það ekki góð viðskiptahugmynd fyrir sig, fyrir umboðsmenn almannafjár eins og forustumenn þeirra eru, var samt haldið áfram undir merkjum einkaframkvæmdarinnar og talað um sjálfbæra framkvæmd. Það er undir þeim gunnfána sem samgöngunefnd samþykkti á 138. löggjafarþingi, í júní 2010, það nefndarálit sem ég hef haft hér nokkuð uppi við í dag og vil lesa vegna þess að það sýnir ágætlega þá hugsun sem var að baki eina álitinu sem samgöngunefnd á Alþingi Íslendinga, eftir hrun er rétt að bæta við, hefur gefið frá sér um þetta efni. Með leyfi forseta vil ég lesa þetta úr því:

„Telur nefndin rétt að benda á að samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga takmarkast skuldbinding hluthafa í opinberum hlutafélögum við það hlutafé sem þeir leggja til félagsins. Er það því skilningur nefndarinnar að engin bein ábyrgð verði felld á ríkissjóð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.“

Þetta er fyrri staðhæfing nefndarinnar.

Síðan kemur síðari staðhæfingin:

„Þá felur frumvarpið í sér að félagið skuli með gjaldtöku standa undir kostnaði sem til fellur vegna þeirra verkefna er það leggur út í.“

Síðan kemur að lokum:

„Nefndin áréttar hér þennan skilning sinn og tekur fram að hann er veruleg forsenda fyrir því áliti hennar sem hér er sett fram.“

Þetta er ómögulegt að skilja öðruvísi en að skilningur nefndarinnar felist í þessu tvennu, annars vegar því að engin bein ábyrgð verði felld á ríkissjóð, hins vegar því að félagið skuli standa undir kostnaði með gjaldtöku. Það er alveg skýrt að þegar samgöngunefnd samþykkti þetta — ég var í henni þá, reyndar nýliði — var það undir fána einkaframkvæmdarinnar sem þetta átti að gera.

Þriðji fasinn í þessu kemur svo fram í raun og veru á árinu 2011 og er ágætlega rakinn í áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Þar er þessi einkaframkvæmd orðin eitthvað annað en sú sem svo skýr mynd var upp dregin af í samgöngunefnd á sínum tíma. Þar er hún orðin einkaframkvæmd með verulegri ríkisaðstoð, hálfgerður bastarður. Ríkið á að lána, ekki lífeyrissjóðirnir, og síðan kemur fram að lokum hugmyndin um „cash sweepið“, fjármögnun sem er tvöföld, annars vegar þannig að ríkið taki lán og láni það áfram í nokkur ár og síðan sú að við taki hið fræga „cash sweep“. Ég verð að viðurkenna að ég er svo lítt verseraður í æðri fjármálum að ég vissi ekki hvað „cash sweep“ var og hélt í bernsku minni að þetta væri eitthvað sem allir vissu, að ég ætti ekki mikið að vera að spyrja og það væri búið að ganga frá þessu þegar þetta var kynnt í samgöngunefnd á sínum tíma, þegar samgöngunefnd hélt hina opnu fundi sína, og var þá að tala um aðra þætti við þá sem mættu á fundina. Ég varð mjög hissa þegar ég sá að „cash sweepið“ var hugmynd þeirra sem fluttu málið fram. Það hafði semsé ekki verið samið við neinn og enginn hafði boðið þetta lán, þetta „cash sweep“ lán, heldur höfðu menn gert ráð fyrir því að í framtíðinni, eftir sjö ár, kæmi einhver og segði: Má ekki bjóða ykkur „cash sweep“?

Ég skildi líka út á hvað „cash sweepið“ gekk en ég komst að því að svona „sweep“ er lán sem maður fær og er alveg eins og maður vill sjálfur. Ef ég til dæmis byggi mér hús og fæ hv. þm. Birgi Ármannsson til að lána mér í því húsi segi ég við hann: Ja, það er engin áhætta af þessu ágæta láni sem þú ætlar að láta mig fá hérna gegn mjög vægum vöxtum vegna þess að eftir sjö ár hlýt ég að hitta einhvern góðan bankamann sem ætlar að lána mér peninga gegn því að ég borgi þá aftur miðað við þær tekjur sem ég hef frá þessu áttunda ári og til dauðadags. Og af því að Birgir vissi að ég þekki marga menn sem eru reiðubúnir að gera þetta eftir átta ár mundi hann auðvitað lána mér þetta fé.

Mér þótti satt að segja nokkuð stórkostlegt þegar ég uppgötvaði að hinn óverseraði maður í æðri fjármálum var eiginlega verseraðri í þeim en þeir sem komu með tillöguna um „cash sweepið“.

Af því að spurt var áðan vil ég svara því að ég veit ekki hvaða menn frá hvaða banka komu í fjárlaganefnd til að kynna útreikninga sína en í samgöngunefnd var haldinn opinn fundur, honum var sjónvarpað, og þar var MP-banki aðstoðarbanki Vaðlaheiðarganga hf. Ég man það ágætlega vegna þess að ég spurði MP-banka sjálfur á þessum fundi eftir að hann hafði kynnt sín mál hvort hann gæti ekki leyst þetta mál fyrir okkur, hvort hann treysti sér þá ekki til þess að taka þetta að sér sjálfur fyrst þetta stæði eins vel og bankinn var búinn að kynna, að lána fyrir þessum göngum strax eða útvega fjárfesta til þess. Ég fékk ekki mikil svör við þeirri spurningu.

Ég sé, forseti, að ég á ekki mikið eftir af tíma mínum. Ég ætlaði að segja meira og verð þá að gera (Gripið fram í: Settu þig aftur á mælendaskrá.) það á eftir. Ég vil að lokum leggja áherslu á þær hugmyndir sem hér hafa komið fram í dag um framhald málsins. Ég held að affarasælast væri að ljúka nú ekki 2. umr. um málið heldur gera eins og gert var við ágætt náttúruverndarmál hér fyrir skömmu og fresta umræðunni, taka málið aftur inn í fjárlaganefnd og láta hana vinna með umhverfis- og samgöngunefnd að einhvers konar lausn á þessu erfiða máli sem komi til móts við þann vilja sem að baki stendur en svari líka efasemdunum um það og síðan reyni nefndirnar að (Forseti hringir.) kynna sameiginlega niðurstöðu af þessu eins fljótt og auðið er. Tíminn er skammur en hér hefur myndast það andrúmsloft í þessari umræðu að ég tel fulla ástæðu til að ætla að þetta geti heppnast.