Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:46:51 (11420)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:46]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér fannst það í raun og veru koma strax fram í ræðu, að vísu ekki hv. framsögumanns málsins heldur hv. formanns fjárlaganefndar, að þótt hún skrifi undir nefndarálit meiri hlutans hefur hún fyrirvara sem bendir klárlega í þá átt að það sem rökrétt væri að gera, ef ég skildi ræðu hennar rétt, væri að taka málið upp aftur og leggja meira eigið fé í hlutafélagið þannig að dæmið stæðist með einhverjum hætti.

Ég hlustaði líka á hv. þm. Illuga Gunnarsson sem flutti eina af bestu ræðunum sem hér var flutt í dag, bæði tæknilega og að innihaldi.

Ég hef verið efasemdarmaður um þetta mál en ég er ekki efasemdarmaður um það að þessi göng eigi rétt á sér á réttum forsendum. Ég tel að það sé eitt af því sem þarf að íhuga. Sjálfur hef ég hugleitt það ef það mætti verða til einhverrar málamiðlunar eða einhverrar framþróunar á málinu, ef ég má orða það svolítið ruddalega, að samþykkja — frumvarpið er einkum tvær greinar — fyrri grein frumvarpsins nokkurn veginn eins og hún lítur út með lánið sjálft, en ekki síðari greinina um frávik frá reglum um Ríkisábyrgðasjóð. Ég vil endurtaka það hér að það er kannski það alvarlegasta í málinu að láta sér detta það í hug að gera þessi frávik eftir alla þá vinnu sem leiddi til laganna um ríkisábyrgðir árið 1997.

Ég tel að það sé kominn töluverður heyfengur hér sem þarf að koma í hlöðu með réttum hætti og að við eigum að gefa okkur tíma til þess. Hver veit nema þá linnti deilum um þetta mál á þingi og meðal þjóðarinnar.