Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:55:31 (11424)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að þetta sé á margan hátt rétt hjá hv. þingmanni. Það sem hefur klárlega komið fram í þessari umræðu í dag og eitt af því sem hefur verið lagt á borðið er að þetta er opinber framkvæmd. Nú er spurningin: Hvernig á að koma henni fyrir í bókhaldinu? Hvernig á að skilgreina hana? Er hún íslensk, er hún grísk eða hvaða þjóðerni hefur hún? Ríkið ætlar að lána meira og minna sjálfu sér fyrir þessari framkvæmd og hins vegar eiga Eyfirðingar, Þingeyingar og auðvitað aðrir landsmenn og erlendir ferðamenn að borga hana að einhverjum hluta.

Ég get vel skilið að menn sem hafa barist fyrir þessari framkvæmd lengi og hafa drifið upp stuðning heimamanna við málið, þar á meðal í því formi að þeir eru reiðubúnir að setja fé í það, séu núna knúnir áfram af heimamönnum og vilji ekki gefast upp. Ég held að við eigum að freista þess með einhverjum hætti að ná málamiðlun og segja sem svo: Þetta er einstakt mál og við skulum reyna að koma því fyrir á einhverju árabili með nýjum hætti sem ekki brýtur í bága við reglur okkar um Ríkisábyrgðasjóð — og þá með þeim hætti að þetta sé einstakt mál og það gerist ekki sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spáði hér í dag, að sterk svæði eins og Reykjavíkursvæðið, höfuðborgarsvæðið, færi að búa til hlutafélög og bera þau hingað inn og biðja um lán frá ríkinu á sömu forsendum. Ég held að það væri mjög hættulegt fordæmi sem við mundum þá skapa og er ég þó mikill áhugamaður um bættar samgöngur í kjördæmi mínu og á nærliggjandi svæðum.