Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 22:57:51 (11425)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um fordæmið sem það skapar að víkja frá grundvallarreglum um ríkisábyrgð. Umsögn Ríkisábyrgðasjóðs um þetta mál er alvarleg. Umsögnin staðfestir í rauninni það sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar setti fram í bréfi til fjármálaráðherra og fjárlaganefndar 1. febrúar 2012 um að allar líkur væru á því að þetta stæðist ekki lög og reglur um Ríkisábyrgðasjóð. Síðan er komið fram með þetta frumvarp þar sem lagt er til að vikið verði frá þessum reglum.

Mig langaði í ljósi þeirrar þinglegu meðferðar sem þetta mál hefur fengið og þess frumkvæðis sem m.a. umhverfis- og samgöngunefnd hafði í málinu með því að kafa ofan í það, gerði það ítarlega bæði á opnum fundum og á hefðbundnum nefndarfundum, fékk til sín fjölda gesta og fleira í þeim dúr og vann þetta mjög vel, og síðan í ljósi þessarar umsagnar að spyrja: Hvað finnst hv. þingmanni um að meiri hluti fjárlaganefndar skuli koma inn í þingið og leggja það í raun og veru til að vikið verði frá þessum reglum? Mig langar að fá að vita hver skoðun hv. þingmanns er á því að menn skuli láta sér detta í hug að víkja frá þessum reglum og koma með mál inn í þingið sem gerir ráð fyrir því. Þeim sem hér stendur finnst það ekki góð vinnubrögð og langaði heyra aðeins betur hvað hv. þingmanni fyndist um það.