Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:22:42 (11428)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að vekja athygli í þessu sambandi á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Ég er alveg sammála henni um að höfuðborgarsvæðið hefur verið nokkur hornreka í samgöngumálum og samkvæmt þeirri vegáætlun sem lögð hefur verið fyrir þingið og er til umfjöllunar í samgöngunefnd er ekki mikilla úrbóta að vænta. Ég verð að játa að mér finnst það átak til að styrkja almenningssamgöngur ágætt svo sem það er, en mér finnst það ekki nægilegt til þess að koma í staðinn fyrir samgöngubætur sem margar eru brýnar á því svæði enda umferð og fólksfjöldi meiri þar en annars staðar.

Hitt er annað mál að í mínum huga snýst deilan sem við erum að fjalla um hér í dag ekki um togstreitu milli kjördæma, landshluta eða þess háttar og á ekki að gera það. Í mínum huga, og ég hygg að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir geti verið sammála mér um það, er þetta fyrst og fremst spurning um ákveðin grundvallaratriði. Þetta er spurning um að ekki sé farið í svona æfingar, hliðarleiðir, fjallabaksleiðir til að koma af stað einstökum verkefnum, sem eru vissulega ofarlega á óskalista fólks á ákveðnu svæði. Þessi framkvæmd hefur ýmsa kosti, því verður ekki neitað, en það er hins vegar verið að fara með hana hálfgerða fjallabaksleið fram hjá lögum um ríkisábyrgðir, fram hjá samgönguáætlun. Það er auðvitað grundvallaratriðið í þessu máli, það er verið að fara með málið í mjög óeðlilegan farveg.