Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:27:08 (11430)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ein af stóru hættunum í þessu máli er fordæmið sem getur verið töluvert varasamt. Frumvarpið sem við ræðum hér gerir ráð fyrir veigamiklum frávikum frá grundvallarreglum laga um ríkisábyrgð. Ef þingið samþykkir slíkt frávik vegna þessa verkefnis skapast ákveðið fordæmi sem aðrir munu vísa í þegar þeir koma fram með verkefni, hvort sem það er á sviði samgöngumála eða jafnvel í öðrum framkvæmdum og spyrja: Fyrst hægt var að fara þessa fjallabaksleið varðandi Vaðlaheiðargöng, af hverju er ekki hægt að gera það með þetta verkefni sem er líka atvinnuskapandi, sem er líka gott fyrir tiltekna byggð eða tiltekið svæði og er líka jákvætt út frá þjóðfélagslegum hagsmunum?

Málið er að við höfum reynt að vinna mál af þessu tagi eftir ákveðnum leikreglum. Framgangsmáti þessa verkefnis er allur á þann veg að verið er að fara fram hjá þeim leikreglum.