Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:29:57 (11432)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég vildi spyrja hv. þingmann nánar út í grunn laga um Ríkisábyrgðasjóð, af því að hún hafði eins og ég kynnt sér þau, og hvað hún teldi að stæði á bak við Ríkisábyrgðasjóð og ríkisábyrgðina.

Sjálfur tel ég að þetta hafi verið nokkurn veginn þannig að menn áttu þess kost fyrr á árum að veita slíka ábyrgð og fóru mjög misjafnlega með það. Eins og málum var hér háttað var ákveðin lausung í stjórnmálum og ekki fastar venjur vegna þess að við vorum frekar vanþroska ríki í stjórnsýslulegu tilliti og það á sér sögulegar rætur. Ef maður vill vera nokkuð brattur er ein af þeim rótum sú að hér varð aldrei bylting, hér urðu aldrei skörp skil á milli konungseinræðisins og síðan lýðræðisins eins og það á að gerast best á 20. öld. Þess vegna varð öll þróun mjög hæg og það skapaði stjórnmálamönnum, þeim sem tóku hér við á þinginu, blessuð sé þeirra minning og þeim sé allur heiður sem hugsanlegur er, svigrúm til athafna sem ekki tíðkuðust í þroskaðri lýðræðisríkjum. Ég hygg að lögin frá 1997, þótt þeir tímar væru nú misjafnir, hafi verið mikið framfaraskref í þeim efnum og við eigum að hugsa okkur um í hvert einasta skipti sem einhver vill bregða út af þeim lögum.