Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:35:52 (11435)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir það sem hæstv. innanríkisráðherra benti á í dag. Úr því að þetta er komið í þetta form núna telur hann að eðlilegra sé að það fari inn í samgönguáætlun og fái sinn framgang þar.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hefur líka talað fyrir því á þann hátt vegna þess að eðlisbreyting hefur orðið á málinu. Þar stöndum við. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Merði Árnasyni sem er í andsvari við mig að ég tel mjög æskilegt að málið fari til nefnda, að haldnir verði sameiginlegir fundir í umhverfis- og samgöngunefnd og í fjárlaganefnd og á einhvern hátt fundið út úr því hvernig þetta verkefni geti farið af stað. Það er náttúrlega komið í útboð, það er raunverulega farið af stað, en að fundin sé þá einhver lausn á þessu ríkisábyrgðarmáli.