Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:37:03 (11436)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur oft haft á orði í þessum ræðustól og víðar að mjög mikilvægt væri að styrkja þingið og hefur talað fyrir því að hér yrði sett lagaskrifstofa Alþingis, hv. þingmaður er líka löglærður. Því vil ég spyrja hv. þingmann út í tvö atriði. Annars vegar það að nú er ekki gert ráð fyrir því í forsendum félagsins að það greiði tekjuskatt. Það er hins vegar ekkert sem kemur fram hvorki í þessum lögum né öðrum að það sé undanskilið að greiða tekjuskatt. Á það er bent í skýrslunum sem fjalla um þetta mál.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann, sérstaklega í ljósi þess að Spölur sem rekur Hvalfjarðargöngin þarf að greiða tekjuskatt, hvað henni finnist um lagasetningu af þessu tagi í ljósi þess að það á eftir að breyta lögum enn frekar til að þetta gangi eftir. Síðan hefur líka verið sagt að það væri óþarfi að hafa áhyggjur af því að þegar félagið færi að hagnast í framtíðinni hefði það þá bolmagn til þess að greiða til baka. En það er nú þannig í lögum um hlutafélög að tekjuskattur eða uppsafnaður halli á tekjuskatti fyrnist á tíu árum, þannig að fljótt á litið sýnist mér að það þurfi a.m.k. að gera tvær lagabreytingar til viðbótar ef þetta á að ganga allt saman eftir, þetta verkefni sem hér er.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um þá lagasetningu að þessi tvö atriði séu skilin eftir til viðbótar.

Eins og ég sagði áðan er hv. þingmaður löglærður. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að það félag sem rekur Hvalfjarðargöngin, Spölur ehf., þarf að greiða tekjuskatt? Hefur hv. þingmaður áhyggjur af þessari ef ég mætti nota orðið mismunun á þessum tveimur félögum?