Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:39:19 (11437)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef verið boðberi breyttra vinnubragða á Alþingi og þreytist ekki við að benda á það að hér þarf faglegri vinnubrögð og hef talað fyrir því síðan ég settist á þing að styrkja þurfi þingið, bæði fjárhagslega og faglega, og reyna á einhvern hátt að slíta það undan framkvæmdarvaldinu svo að lagasetningar virki.

Varðandi alla mismunun er það beinlínis ekki heimilt og sérstaklega ef fyrirtæki eru — þetta er náttúrlega ekki samkeppnisrekstur en þetta er sambærilegur rekstur, bæði eru þetta göng sem umferð fer í gegnum. Ég vil því meina að það sé klár mismunun á gildandi réttarreglum vegna þess að ekki er hægt að hampa einum en ekki öðrum, en það hefur færst í vöxt undanfarið að verið sé að veita undanþágur frá tekjuskattslögum og virðisaukaskattslögum hjá ríkisstjórninni og ég hef gagnrýnt það. Ef verkefni af þessu tagi komast ekki í framkvæmd nema þessi afsláttur sé veittur gæti ríkið alveg eins slegið á einhvern annan hátt af kröfum sínum því að skatturinn er náttúrlega tekjuöflunartæki ríkisins.

Þessu til rökstuðnings ætla ég að benda þingmanninum á að hér var einhvern tíma á fyrri þingum mikil umræða um gagnaver. Keyrt var í gegnum þingið sérstakt frumvarp um gagnaver Verne Holdings í Keflavík þar sem veittar voru mjög miklar undanþágur frá skatti og öðru til þess að það kæmist af stað. Svo kom rammalöggjöf um önnur gagnaver. En það var ekkert annað en það að blekið var ekki þornað á lagasetningunni, eins og ég varaði svo margoft við í ræðum þá, þegar ESA tók það strax til úrskurðar að ekki má mismuna félögum eða fyrirtækjum í sambærilegum rekstri. Enda var það alveg vitað, ég benti margoft á það en ekki var (Forseti hringir.) hlustað, ekki frekar en oft áður, og úrskurðað var að það væri óheimilt. (Forseti hringir.) Eins virðist stefna í það með þetta verkefni.