Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:41:40 (11438)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni og vitnaði í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs og í rauninni varar Ríkisábyrgðasjóður við eða leggur til að skynsamlegra væri að fara ekki þessa leið sem hér er lögð til, þ.e. að veita svokallað framkvæmdalán til sex ára og síðan yrði farið í að fjármagna verkið í heildina eftir sex ár, og bendir á að það væri mjög æskilegt, ef Alþingi tæki þá ákvörðun að fara í þetta verkefni, að það yrði þá fjármagnað til enda. Nú eru gjaldeyrishöft í landinu eins og allir vita og vaxtastig og fjárfestingarmöguleikar eru ekki miklir. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Tekur hún undir, hefur hún áhyggjur af þessum leiðbeiningum eða ábendingum réttara sagt hjá Ríkisábyrgðasjóði að skynsamlegra væri að fara alla leið og fjármagna verkefnið með þeim hætti sem þar er lagt til?